Sjö sakborningar í Chicago

Úr kvikmyndinni The Trial of the Chicago 7.
Úr kvikmyndinni The Trial of the Chicago 7.

Kvikmyndin The Trial of the Chicago 7 er til umræðu í nýjasta þætti hlaðvarpsins BÍÓ. Í myndinni segir af sögufrægum réttarhöldum yfir hinum svokölluðu Chicago-sjömenningum. Gestur hlaðvarpsins að þessu sinni er Kristín Jóhannsdóttir almannatengill. 

Myndin er sýnd á Netflix og er handritshöfundur hennar og leikstjóri Aron Sorkin. Mikið stjörnustóð leikara er í myndinni og má nefna Eddie Redmayne, Sacha Baron Cohen, Mark Rylance, Joseph Gordon-Levitt, Fran Langella og Michael Keaton. 

Chicago-sjömenningarnir, upphaflega átta, voru hópur manna sem skipulögðu mótmæli í Chicago í ágúst árið 1968 þegar landsfundur Demókrataflokksins fór þar fram og forsetaefni flokksins valið fyrir kosningar næsta árs, Hubert Humphrey. Fleiri þúsundir manna komu saman til að mótmæla Víetnamstríðinu sem þá geisaði með skelfilegu mannfalli og sífellt fleiri ungir Bandaríkjamenn voru kvaddir í herinn og sendir til Víetnam. Lyndon B. Johnson var forseti Bandaríkjanna þetta ár, tók við völdum eftir að John F. Kennedy var myrtur og við af Johnson tók svo Richard Nixon árið 1969.

Chicago-sjömenningarnir voru þeir Abbie Hoffman, Jerry Rubin, David Dellinger, Tom Hayden, Rennie Davis, John Froines og Lee Winer og voru þeir ákærðir fyrir samsæri og að hvetja til óeirða, auk fleiri ákæra. Áttundi maðurinn var aktívistinn Bobby Seale, annar af tveimur stofnendum Svörtu pardusanna en málið gegn honum var fellt niður á endanum eftir að hann hafði verið bundinn og keflaður í réttarsal sem vakti mikla athygli og reiði á sínum tíma. Verjandi Seales var lagður inn á sjúkrahús og gat því ekki sinnt starfi sínu og Seale vildi ekki að sömu verjendur og vörðu sjömenningana verðu hann. Fimm af hinum sjö ákærðu voru á endanum fundnir sekir fyrir að egna til óeirða en ekki fyrir samsæri og voru dæmdir til fangelsisvistar. Dómarinn í málinu, Julius Hoffman, þótti illa starfi sínu vaxinn og voru hinir ákærðu margsinnis ávítaðir fyrir að sýna honum lítilsvirðingu.

Í mótmælunum eða óeirðunum gengu lögreglumenn í skrokk á óvopnuðu fólki, mörg þúsund manns, með kylfum og beittu einnig skotvopnum og táragasi, eins og kemur fram í myndinni. Átök brutust tvisvar út, fyrst í garði þar sem mótmælendur héldu til og síðar við Conrad Hilton-hótelið. Fjöldi fólks var handtekinn og hundruð manna særðust illa í átökunum, bæði mótmælendur og lögreglumenn. 

Umsjónarmenn hlaðvarpsins og gestur þeirra eru sammála um að myndin sé býsna vönduð og áhugaverð og vel leikin, eins og heyra má af spjalli þeirra hér fyrir neðan. 

mbl.is
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Freida McFadden
2
Birgitta Haukdal
3
Guðrún Frímannsdóttir
4
Anne Thorogood

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er hugsanlegt að þú finnir lausn á vandamáli með því að ræða það við vinnufélaga þína. Hugsaðu málið með hjartanu og fylgdu því svo eftir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Freida McFadden
2
Birgitta Haukdal
3
Guðrún Frímannsdóttir
4
Anne Thorogood

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er hugsanlegt að þú finnir lausn á vandamáli með því að ræða það við vinnufélaga þína. Hugsaðu málið með hjartanu og fylgdu því svo eftir.
Loka