Lykilverk í íslenskri orðabókasögu

Frá vinstri eru verkefnastjórarnir Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir og …
Frá vinstri eru verkefnastjórarnir Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir og starfsmennirnir við stafrænu orðabókina þau Ása Bergný Tómasdóttir, Bolli Magnússon, Oddur Snorrason og Árni Davíð Magnússon við sýningarkassa orðabókarinnar í Þjóðarbókhlöðu 2. október 2020, þegar 146 ár voru liðin frá fæðingu Sigfúsar. Ljósmynd/Landsbókasafn - Háskólabókasafn

„Við munum opna um leið og tækifæri gefst, en við höfum þurft að fresta opnuninni tvisvar út af kórónuveirufaraldrinum,“ segir Halldóra Jónsdóttir um stafræna útgáfu Íslensk-danskrar orðabókar sem kennd er við Sigfús Blöndal. Halldóra hefur, ásamt Steinþóri Steingrímssyni og Þórdísi Úlfarsdóttur, haft umsjón með því að koma orðabókinni á stafrænt form á vefnum http://blondal.arnastofnun.is/stafraena-ordabokin/. Þar er enn sem komið er aðeins hægt að leita í viðbætinum sem út kom árið 1963 og geymir um 40 þúsund orð, en Íslensk-dönsk orðabók kom út í tveimur bindum á árunum 1920 til 1924 og innihélt 106 þúsund uppflettiorð.

Að sögn Halldóru stóð fyrst til að opna vefinn í heild sinni á sumardaginn fyrsta þegar 100 ár voru liðin frá útgáfunni, en því var frestað út af heimsfaraldrinum. Gera átti aðra tilraun í tengslum við fæðingardag Sigfúsar, en hann fæddist 2. október 1874, og stóð þá til að opna í leiðinni sýningu um hjónin Sigfús og Björgu C. Þorláksson og orðabókarvinnu þeirra í Þjóðarbókhlöðinni, en faraldurinn kom einnig í veg fyrir að það gæti orðið.

Sigfús Blöndal var bókavörður við Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn árin …
Sigfús Blöndal var bókavörður við Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn árin 1901-1939.

Seinlegt þolinmæðisverk

Halldóra rifjar upp að Íslensk-dönsk orðabók hafi að mestu leyti verið samvinnuverkefni hjónanna Sigfúsar og Bjargar sem þau hófu í Kaupmannahöfn á fyrsta hjónabandsári sínu árið 1903. „Þau áætluðu að verkið myndi taka fimm ár, en þegar þau fóru að prófa orðaforðann að þeim tíma liðnum var þeim ljóst að hann dugði ekki og þá héldu þau vinnu sinni áfram,“ segir Halldóra og bendir á að hjónin hafi unnið stöðugt að orðabókinni í samtals 17 ár. Tekur hún fram að sökum fastra starfa Sigfúsar á Konunglega bókasafninu megi ljóst vera að hlutur Bjargar hefur síst verið minni en hans við orðabókarstarfið.

Að sögn Halldóru kom fjöldi samverkamanna við sögu við gerð orðabókarinnar auk þess sem Sigfús fékk aðgang að ýmsum orðasöfnum sem komu að miklu gagni. „Í júní 1917 fékk Sigfús 14 mánaða leyfi frá starfi sínu til að fara til Íslands með orðasöfn sín með það að markmiði að ljúka við aðalritstjórn orðabókarinnar. Fékk hann góðan styrk til verksins og gat ráðið hóp fólks í ritstjórnarvinnuna.“

Sem fyrr segir reyndist vinnan við orðabókina seinlegt þolinmæðisverk þar sem allt tók lengri tíma en Sigfús og Björg höfðu áætlað. „Fyrstu átta árin tókst að afla styrkja frá danska kirkju- og kennslumálaráðuneytinu auk þess sem Carlsbergs-sjóðurinn styrkti verkið einnig um árabil. Árið 1917 fékkst danskur ríkisstyrkur til að ljúka verkinu og fyrir hann var unnt að ráða aðstoðarfólk í Reykjavík,“ segir Halldóra og bendir á að meira fé hafi þó vantað. „Árið 1919 fékk Björg þá hugmynd að orðabókin ætti að eiga sig sjálf. Með því átti hún við að allt það fé sem aflaðist fyrir sölu bókarinnar skyldi renna í sérstakan sjóð, Hinn íslensk-danska orðabókarsjóð. Þau Sigfús sömdu stofnskrá fyrir sjóðinn og Björg skrifaði bæklinginn „Ísland skapar fordæmi“ þar sem sjóðshugmyndin var kynnt og sömuleiðis stofnskráin,“ segir Halldóra, en ljósmyndir af síðum stofnskrárinnar má lesa á fyrrnefndum vef. Halldóra bendir á að Björgu hafi tekist að ná sambandi við allmarga þingmenn, dreifa bæklingnum og tala fyrir stofnun sjóðsins. „Hann varð að veruleika og hefur verið tiltækur allan þann tíma sem liðinn er,“ segir Halldóra og bendir á að þar sem bókin hafi átt sig sjálf hafi aldrei verið greidd höfundarlaun.

Björg C. Þorláksson lauk doktorsprófi fyrst íslenskra kvenna frá Sorbonne-háskóla …
Björg C. Þorláksson lauk doktorsprófi fyrst íslenskra kvenna frá Sorbonne-háskóla í París 1926.

„Sjóðurinn hefur í gegnum árin staðið undir endurútgáfu orðabókarinnar,“ segir Halldóra og rifjar upp að núverandi stjórn hafi árið 2016 tekið þá ákvörðun að gefa bókina ekki út aftur á prenti heldur koma henni frekar í rafrænt form. Sjóðsstjórnina skipa Guðrún Kvaran, sem er formaður, Hrefna Arnalds, Jón G. Friðjónsson og Vésteinn Ólason. „Það var dýrt verkefni að koma bókinni á stafrænt form, en verkefnið var að öllu leyti fjármagnað af Íslensk-dönskum orðabókarsjóði,“ segir Halldóra og áætlar að heildarkostnaður hafi numið um 30 milljónum króna.

Ómissandi heimild

Sem fyrr segir var Halldóra ásamt Steingrími og Þórdísi umsjónarmaður verkefnisins, en starfsmenn við orðabókartextann hafa í gegnum árin verið Kristján Friðbjörn Sigurðsson (2016-2017), Oddur Snorrason (2017-2019), Árni Davíð Magnússon (2018-2020), Salome Lilja Sigurðardóttir (2018-2020), Bolli Magnússon (2019), Ása Bergný Tómasdóttir (2019-2020) og Finnur Á. Ingimundarson (2019-2020). „Orðabókin er yfir þúsund blaðsíður sem hafa allar verið ljóslesnar, yfirfarnar og textinn gerður leitarbær,“ segir Halldóra þegar hún er spurð um vinnuna að baki rafrænu formi orðabókarinnar.

Spurð um gildi þess að orðabókin sé gerð aðgengileg öllum að kostnaðarlausu segir Halldóra það mikið. „Orðabókin er lykilverk í íslenskri orðabókasögu og er hún ein stærsta íslenska orðabókin sem hefur verið unnin til þessa og ómissandi heimild um íslenskt nútímamál fyrir 100 árum,“ segir Halldóra.

Þess má að lokum geta að stjórn Íslensks-dansks orðabókarsjóðs hefur nú afhent Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum allar eignir sjóðsins til að unnt verði að viðhalda verkinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þegar lottóið er annars vegar, má segja að þú hafir þegar unnið í því, jú þú átt frábæra fjölskyldu til dæmis. Ekki ráðskast með aðra.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Kathryn Hughes
3
Sigrún Elíasdóttir
4
Birgitta Haukdal
5
Freida McFadden

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þegar lottóið er annars vegar, má segja að þú hafir þegar unnið í því, jú þú átt frábæra fjölskyldu til dæmis. Ekki ráðskast með aðra.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Kathryn Hughes
3
Sigrún Elíasdóttir
4
Birgitta Haukdal
5
Freida McFadden