Tónlistarstjarnan Solange Knowles er komin með kærasta. Knowles, sem er einnig þekkt sem litla systir Beyoncé, greindi frá skilnaði í fyrra en er greinilega búin að finna hamingjuna aftur.
Eins og aðrir í fjölskyldunni er nýi kærastinn tónlistarmaður og heitir Gio Escobar. Knowles birti mynd af þeim saman á Instagram um helgina og staðfesti heimildarmaður Page Six sambandið í kjölfarið.
„Hann er kærastinn hennar. Fólk veit. Þetta er ekki nýtt en þetta er nýtt fyrir almenningi. Það er stórt að hún deili mynd af því hún heldur einkalífinu svo mikið út af fyrir sig,“ sagði heimildarmaðurinn.
Knowles greindi frá því fyrir ári að hún væri skilin við eiginmann sinn, leikstjórann Alan Ferguson, en þau voru gift í fimm ár. Var skilnaðurinn annar skilnaður Knowles.