Hvað varð um dóttur mína?

Nelly Rowe í úlpunni góðu ásamt barnsmóður sinni, Claire McGory, …
Nelly Rowe í úlpunni góðu ásamt barnsmóður sinni, Claire McGory, í Save Me Too. Sky Vision

Feður leita í ofboði að horfnum dætrum sínum í sjónvarpi um þessar mundir; bæði í bresku þáttunum Save Me Too og dönsku þáttunum DNA. Eru þær látnar eða í klóm misindismanna?

Ég var að rápa í Sjónvarpi Símans Premium að leita að einhverju áhugaverðu til að horfa á og það var úlpan sem setti öngulinn í mig. Ég mundi eftir henni úr fyrstu seríunni. Sú ágæta sería, sem ég sá fyrir einhverjum misserum, var að vísu að mestu leyti í móðu en ég mundi eftir úlpunni hans Nellys Rowe, eins og ég hefði séð hann seinast í gær. Klæðileg flík, heiðgul léttdúnúlpa, sem söguhetjan í Save Me fer nánast aldrei úr; sofnar ósjaldan í henni á kvöldin.

Smám saman rifjaðist þetta allt upp fyrir mér; dóttir Nellys hafði horfið í fyrri seríunni og hann lá um tíma undir grun enda var hún talin hafa verið á leið til hans síðast þegar til hennar spurðist. Nelly er löngu skilinn við móðurina og hafði stimplað sig út úr lífi dótturinnar.

Ekki kom dóttirin í leitirnar í fyrstu seríunni og leitin heldur nú áfram, sautján mánuðum síðar, og Nelly er staðráðnari en nokkru sinni í því að hafa upp á henni, með góðu eða illu. Bjartsýnin hefur dofnað mjög í kringum hann og barnsmóðir hans viðurkennir að suma daga óski hún þess að dóttir hennar sé látin, fremur en að hugsa til þess að hún hafi lent í klóm níðinga. Guð einn veit hvað þeir kunna að gera henni.

Nelly heldur á hinn bóginn í vonina og allt hans líf snýst um leitina. Hann er með vindinn í fangið í lífinu, blessaður karlinn, fyrir utan dótturhvarfið er hann atvinnulaus og sambandið sem hann er í stendur á brauðfótum enda Nelly ekki þessi dæmigerða fyrirmyndarfyrirvinna. Þá virðist hann vera meira upp á kvenhöndina en mönnum er hollt þegar þeir eru að mynda sig við að vera í föstum samböndum.

Rolf Larsen veltir vöngum í dönsku spennu- og ráðgátuþáttunum DNA.
Rolf Larsen veltir vöngum í dönsku spennu- og ráðgátuþáttunum DNA. Nordicdrama.com


Önnur dóttir hverfur

Nelly Rowe er ekki eini maðurinn í æðisgenginni leit að týndri dóttur sinni í sjónvarpi um þessar mundir. Um jólin sá ég danska þætti í sarpi Ríkissjónvarpsins sem heita DNA. Söguhetjan þar er lögreglumaðurinn Rolf Larsen sem verður fyrir þeirri ógæfu að barnung dóttir hans hverfur um borð í ferju meðan hann rétt lítur af henni á dekkinu til þess að kalla á Eyjólf, eins og hendir menn gjarnan í haugasjó. Lögreglan rannsakar málið og telur stúlkuna af en Rolf er á öðru máli. Hann er ekki í minnsta vafa um að henni hafi verið rænt. Hefst þá leitin og sögunni vindur að mestu fram nokkrum árum síðar, þegar Rolf er skilinn við barnsmóður sína, fluttur út á land og aðeins skugginn af sjálfum sér. Ekkert kemst að nema að finna dótturina. Ýmis ljón eru á veginum og Rolf ítrekað hvattur til að láta gott heita, meðal annars af barnsmóður sinni sem er þess sinnis að frekari leit leiði bara til enn meiri sársauka. Til að bæta gráu ofan á svart þá er hún komin með nýjan mann og á von á barni með honum.

Rolf var sjálfur að rannsaka hvarf á ungri stúlku þegar ógæfan sótti hann heim og heldur áfram að skoða það mál meðfram öðrum störfum í þeirri veiku von að það tengist með einhverjum hætti hvarfi dóttur hans. Færist allur í aukana þegar hann kemst fyrir tilviljun að því að pottur virðist vera brotinn í DNA-gagnagrunni lögreglunnar í Kaupmannahöfn. Þar á hann vini sem hann fær til að líta betur á málið. Og skyndilega fer boltinn að rúlla.

Nánar má lesa um Save Me Too og DNA í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nýttu þær auðlindir sem þú hefur aðgang að til að bæta umhverfi þitt, bæði í vinnunni og á heimilinu. Passaðu þig á því, að umkvörtunarefni þitt, gæti bara verið til innra með þér.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nýttu þær auðlindir sem þú hefur aðgang að til að bæta umhverfi þitt, bæði í vinnunni og á heimilinu. Passaðu þig á því, að umkvörtunarefni þitt, gæti bara verið til innra með þér.