Ferðalag breytinga

Ragnar Axelsson og Einar Geir Ingvarsson.
Ragnar Axelsson og Einar Geir Ingvarsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Sýningin er nokkurs konar ferðalag sem hefst í snævi þöktum fjöllunum áður en leiðin liggur til byggða þar sem við sjáum bæði fólk og dýr. Að lokum sjáum við jökulinn og ísinn sem er að bráðna,“ segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson, betur þekktur sem RAX, þegar hann, ásamt Einari Geir Ingvarssyni sýningarstjóra, tekur á móti blaðamanni á efri hæð Hafnarhússins í Listasafni Reykjavíkur.

Þar vinna starfsmenn safnsins hörðum höndum við að hengja upp um 90 ljósmyndir sem Ragnar hefur tekið á löngum ferli, því í meira en 40 ár hefur hann myndað fólk, dýr og landslag afskekktustu svæða norðurslóða til að skrásetja áhrif loftslagsbreytinga. Afraksturinn má sjá á sýningunni Ragnar Axelsson: Þar sem heimurinn bráðnar sem opnuð var laugardaginn 30. janúar og stendur fram í maí.

„Þessi sýning kemst nálægt því að vera yfirlitssýning yfir feril Ragnars,“ segir Einar Geir, sem á síðustu árum hefur haldið utan um alla útgáfu og sýningarhald Ragnars bæði hér- og erlendis og verið eins konar framkvæmdastjóri fyrir listamanninn. „Sýningin dregur upp skýra mynd af því hvernig lífsskilyrði fólks á norðurslóðum eru að breytast,“ segir Einar Geir og tekur fram að á sýningunni megi sjá áður ósýndar myndir í bland við myndir úr bókunum Andlit norðursins, Fjallaland, Jökull og Hetjur norðurslóða.

Óumdeilanlegir hæfileikar

Innst í salnum er úrval mynda frá Íslandi í stærðinni 30x40 cm, en myndirnar í fremra rýminu eru ýmist 60x90 eða 110x170 cm. „Með því að tefla fram fjölda minni mynda sem heild er hægt að draga fram ákveðna fjölbreytni og óumdeilanlega hæfileika mannsins sem tók myndirnar auk þess sem minni myndir krefjast meiri nándar. Enginn sem sér þessar myndir hér saman ætti að efast um að hér er á ferðinni stórkostlegur ljósmyndari og listamaður,“ segir Einar Geir og viðurkennir fúslega að gaman sé að sýna líka stórar myndir, enda er „áhrifamáttur stórra ljósmynda tvímælalaust meiri en minni mynda“, segir Einar Geir.

Samstarf ykkar síðustu árin hefur verið mjög gjöfult. Hvers vegna náið þið svona vel saman?

„Ég get verið skeptískur á fólk í byrjun meðan ég er að átta mig á því. Hjá okkur small samvinnan, sem skýrist kannski af því að við erum góðir í að senda boltann á milli okkar. Við erum ekkert alltaf sammála, en leystum alltaf málin. Samvinnan gerir þetta sterkara,“ segir Ragnar. „Ragnar er auðvitað listamaðurinn og ég er einvörðungu að hjálpa honum. Það besta sem hann getur gefið mér er traust. Hingað til hefur það verið 100%. Ef ég hef einhverja skoðun þá leyfir hann mér að halda henni,“ segir Einar Geir. „Reynslan hefur kennt mér að þótt ég skilji ekki alltaf sýn hans til að byrja með þá hefur hann rétt fyrir sér þegar upp er staðið og af þeim sökum vex traust mitt á honum stöðugt,“ segir Ragnar. „Svo spillir ekki fyrir hversu gaman okkur finnst að vinna saman,“ segir Einar Geir.

Starfsfólk Listasafns Reykjavíkur við uppsetningu sýningar Ragnars Axelssonar í síðustu …
Starfsfólk Listasafns Reykjavíkur við uppsetningu sýningar Ragnars Axelssonar í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Allt lítil skref í rétta átt

Að hverju er helst að huga í því að halda utan um feril Ragnars?

„Þeir sem þekkja myndirnar hans Ragnars vita hvað hann er hæfileikaríkur. Íslendingar þekkja flestir myndirnar hans, en okkur langar til að fólk utan landsteinanna fái líka að kynnast þessum myndum,“ segir Einar Geir og tekur fram að viðtökur erlendis séu góðar. „Við sem rekum bókaútgáfuna Qerndu eigum í góðu samstarfi við þýska útgáfufyrirtækið Kehrer sem gefur út bókina Hetjur norðurslóða erlendis. Þeir hjá Kehrer eru algjörlega í skýjunum yfir því hvað bókin gengur vel erlendis þrátt fyrir það skrýtna og erfiða ástand sem ríkir nú á tímum heimsfaraldurs, sem seinkað hefur ýmsu og breytt plönum okkar,“ segir Einar Geir.

Virtir miðlar á borð við New York Times, Süddeutsche Zeitung og Guardian hafa fjallað lofsamlega um Ragnar og ljósmyndir hans að undanförnu. Væntanlegar eru síðan greinar m.a. í The Financial Times. Hvaða þýðingu hefur slík umfjöllun?

„Það skiptir mjög miklu máli. Allt eru þetta lítil skref í rétta átt til að koma myndum Ragnars á framfæri svo þær nái til fleiri,“ segir Einar Geir og rifjar upp að þótt Ragnar hafi hlotið nóbelsverðlaun ljósmyndaheimsins árið 2014 þegar út kom bók nr. 144 í bókaröð Photo Poche þá gleymist slík viðurkenning auðveldlega sé henni ekki fylgt markvisst eftir í vinnunni með feril listamannsins. „Það skiptir því öllu að halda góðum takti í upplýsingagjöfinni, því annars tekur þögnin ein við og fókusinn færist annað í hröðum heimi,“ segir Einar Geir sem vinnur um þessar mundir að undirbúningi sýninga erlendis á myndum Ragnars. „Ein þeirra verður í miðbæ München eftir rétt rúmt ár. Í sumar verður Ragnar hluti af ljósmyndahátíð sem haldin er í þorpinu La Gacilly í norðvesturhluta Frakklands. Um er að ræða útihátíð þar sem prentanir myndanna eru hengdar utan á byggingar,“ segir Einar Geir og tekur fram að yfirleitt komi um 300 þúsund manns á hátíðina.

Vill gefa íbúum rödd

Stutt er síðan þú, Ragnar, valdir að hætta störfum á Morgunblaðinu, þar sem þú vannst í 46 ár, til að geta einbeitt þér að listamannsferli þínum. Hvaða þýðingu hafði það?

„Það var orðið nauðsynlegt, því vinnan og köllun mín fóru ekki lengur saman,“ segir Ragnar. „Það er gleðiefni að Ragnar geti sinnt hugðarefnum sínum og listinni, en það er ekki sjálfgefið að það sé hægt,“ segir Einar Geir og tekur fram að það sé ekkert launungarmál að heimurinn gangi fyrir fjármagni. „Þótt það sé aldrei skemmtilegt að tala um peninga, þá liggur í hlutarins eðli að það sem Ragnar gerir er frekar dýrt, bæði er ferlið tímafrekt og ferðalögin kosta sitt,“ segir Einar Geir.

Þú hefur á löngum ferli unnið við að skrásetja heim sem er að breytast þar sem ísinn er að bráðna. Upplifir þú að fólk sé orðið tilbúnara að hlusta á frásögn myndanna?

„Já, alveg klárlega. Ég fæ oft þau viðbrögð frá fólki, ekki síst erlendis, að það hafi ekki gert sér grein fyrir stöðunni og gaman að sjá þegar fólk opnar augu sín fyrir því lífi sem þarna er,“ segir Ragnar og tekur fram að sér hafi ávallt þótt mikilvægt að vera aldrei predikandi í verkum sínum. „Það er hlutverk vísindafólks að vara við hættunum. Markmið mitt er að opna augu almennings fyrir því lífi sem þarna er, og ljóst er að mun breytast í náinni framtíð, og gefa þeim sem þarna búa rödd sem þeir hafa ekki haft til þessa,“ segir Ragnar og tekur fram að breytingar feli oft í sér tækifæri og geti leitt spennandi hluti af sér sé rétt á málum haldið. „Og mig langar að fylgja þeim breytingum eftir,“ segir Ragnar og jánkar því að heimsfaraldurinn hafi sett strik í reikninginn.

„Næsta bók okkar á að vera um öll löndin sem tilheyra norðurheimskautssvæðinu,“ segir Ragnar og vísar þar til Íslands, Grænlands, Alaska, Síberíu, Svalbarða og norðurhéraða Noregs, Svíþjóðar og Finnlands ásamt sjálfum norðurpólnum. „Kófið frestaði í fyrra ferð minni til norðurpólsins, sem er lykilsvæði þessa verkefnis, en ef allt gengur upp komumst við í júlí,“ segir Ragnar og tekur fram að hann sé kominn með mikið af myndefni frá fyrrnefndum löndum en þurfi að heimsækja nokkra staði aftur til að geta sagt þá sögu sem hann langar að miðla. „Við þurfum að fá heildarmyndina til að geta miðlað þessu ferðalagi breytinga sem er í miðjum klíðum,“ segir Ragnar.

Kraftmikil og einföld mynd

Ekki er hægt að kveðja Ragnar og Einar Geir án þess að forvitnast um hvort þeir eigi sér einhverja uppáhaldsmynd á sýningunni og af hverju sú mynd sé þeim kær. Ragnar leiðir blaðamann strax að stórri mynd á langvegg stærsta rýmisins þar sem sjá má veiðimanninn Mads Ole frá Qaanaaq í Thule sem er vel dúðaður í kuldanum og tilbúinn með spjót sitt. „Ég á í nokkurs konar ástar/haturssambandi við þessa mynd,“ segir Ragnar og rifjar upp að myndina hafi hann tekið í tæplega 50 gráða frosti með þeim afleiðingum að hægri þumal hans nærri kól. „Ég er enn að drepast í puttanum og höndunum síðan ég tók þessa mynd þannig að hún kostaði sitt. Ég er samt glaður að hafa náð myndinni og af þeim sökum er hún í pínu uppáhaldi hjá mér,“ segir Ragnar sem geymir í minni sínu sögu um hverja einustu mynd sem hann hefur tekið. „Veðurbarði hundurinn hér úti á enda er líka í uppáhaldi hjá mér. Ég heilsaði oft upp á hann í þessari ferð. Hann var alltaf svo glaður þegar ég kom til hans og lék listir sínar fyrir mig,“ segir Ragnar.

„Það er alls ekki létt að gera upp á milli mynda Ragnars. Ég hugsa samt að ég verði að velja þessar tvær,“ segir Einar Geir og leiðir blaðamann inn í dökkmálað rými skammt frá innganginum. „Þessi mynd segir alla söguna í bókinni,“ segir Einar Geir og vísar þar til Hetja á norðurslóðum. „Þetta er kraftmikil og einföld mynd,“ segir Einar Geir, en á myndinni sést stakur hundur í fjarska á gangi í brjáluðu veðri. „Þig langar ekki að vera hjá honum. Þetta er sorgleg mynd en á sama tíma ótrúlega falleg,“ segir Einar Geir og bendir í framhaldinu á mynd að baki okkur. „Svo verð ég að nefna þessa mynd þar sem hundasleðinn og hundarnir eru við það að leysast upp með sama hætti og ísinn,“ segir Einar Geir og bendir á að allar myndirnar í rýminu þar sem við stöndum eigi það sameiginlegt að fanga ákveðna óreiðu. „Þetta eru myndir úr síðasta kafla bókarinnar, sem fanga vel framtíð veiðihundsins,“ segir Einar Geir og bendir á þriðju myndina í rýminu og segir: „Hér er sleðastjórinn kominn á bát, en það er það sem tekur við.“

Viðtalið við Ragnar Axelsson og Einar Geir Ingvarsson birtist fyrst í Morgunblaðinu á opnunardegi sýningarinnar laugardaginn 30. janúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson