Fallinn engill til Rotterdam

Andreas Andresen Haukeland, eða TIX, flytur hér lagið Fallen Angel …
Andreas Andresen Haukeland, eða TIX, flytur hér lagið Fallen Angel eftir að úrslitin urðu ljós í kvöld og verður fulltrúi Noregs í 65. Eurovision-söngvakeppninni í Rotterdam í Hollandi í maí. Skjáskot/Bein útsending NRK frá H3 í kvöld

Norski tónlistarmaðurinn Andreas Andresen Haukeland, betur þekktur undir listamannsnafninu TIX, fór með sigur af hólmi á úrslitakvöldi Melodi Grand Prix 2021, hinnar norsku forkeppni Eurovision, í H3 Arena á Fornebu í kvöld með flutningi lagsins Fallen Angel sem verður framlag Norðmanna í Rotterdam í Hollandi í maí.

TIX háði gulleinvígið svokallaða, bráðabana þeirra tveggja stigahæstu af tólf keppendum, við þríeykið í Keiino, Tom Hugo, Alexöndru Rotan og hinn samíska Fred Buljo, sem tefldi fram laginu Monument, en þrenningin steig á sviðið í Tel Aviv árið 2019 og hafnaði þar í 6. sæti með lagið Spirit in the Sky.

Haukeland, eða TIX, er fæddur í Bærum, nágrannasveitarfélagi Óslóar, árið 1993, og skaust fyrst upp á norskan stjörnuhimin árið 2015 með laginu Sjeiken auk þess að hljóta töluverða athygli fyrir plötuna Dømt og berømt árið 2016 sem náði öðru sæti norska tónlistarvinsældalistans auk þess að vera á listanum í 79 vikur samfleytt.

Nafnið sprottið af tourette-heilkenni

Listamannsnafn Haukeland, TIX, er sprottið af kækjaheilkenninu tourette sem hann hefur þjáðst af frá barnæsku og mátti þola einelti og ýmsa skráveifu af þeim sökum. Kallast kækirnir „tics“ á ensku, sem Haukeland tók upp sem nafnið TIX og gengur jafnan með sólgleraugu til að dylja ósjálfráðar augnhreyfingar sem í hans tilfelli eru fylgifiskur heilkennisins.

Haukeland hefur verið iðinn við að ræða þunglyndi sem hann hefur þjáðst af og þrálátar sjálfsmorðshugsanir og hafa mörg laga hans snúist um þann dimma dal sem hann hefur fetað um sína daga, þar á meðal sigurlagið í kvöld sem í enskri þýðingu heitir Fallen Angel, en norska útgáfa lagsins heitir Ut av mørket eða Út úr myrkrinu.

Keiino sterkust á norðurlandi, en...

Andrúmsloftið var rafmagnað í H3-höllinni í kvöld þegar komið var að því að lesa upp stigin sem Keiino og TIX hlutu í atkvæðagreiðslu sem fram fór á heimasíðu norska ríkisútvarpsins NRK, en þar þurftu þátttakendur að stofna aðgang og kusu svo á milli listamannanna.

Til að skapa eftirvæntingu um endanlegan sigurvegara var Noregi skipt í fimm svæði, Suður-, Mið-, Vestur-, Austur- og Norður-Noreg, og hringt í fulltrúa hvers landshluta sem las upp stigin. TIX var í öllum tilfellum sjónarmun hlutskarpari en Keiino, nema á Norðurlandi þar sem hinn samíski Fred Buljo frá Kautokeino í Finnmörk á sér þéttan múr aðdáenda.

Fóru lokatölur þannig að TIX stóð með pálmann í höndunum með 380.083 stig á móti 281.043 stigum keppinautanna og mun því stíga á sviðið í Rotterdam í 65. Eurovision-söngvakeppninni 2021 ef guð og Covid leyfa, en undanrásakvöldin eru 18. og 20. maí og úrslitakvöldið 22. maí.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Mundu að þú getur ekki alltaf gert svo öllum líki. Láttu ekkert verða til að æsa þig upp. Reyndu að skoða hegun þína í raunsæju ljósi.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Mundu að þú getur ekki alltaf gert svo öllum líki. Láttu ekkert verða til að æsa þig upp. Reyndu að skoða hegun þína í raunsæju ljósi.