„Magnað tímabil“

Sigrún Edda Björnsdóttir sem Linda, Jóhann Sigurðarson sem Willy og …
Sigrún Edda Björnsdóttir sem Linda, Jóhann Sigurðarson sem Willy og Þórunn Arna Kristjánsdóttir sem hin konan í Sölumaður deyr eftir Arthur Miller. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Þetta er búið að vera magnað tímabil. Við vorum að æfa með grímur og í mestu átakasenunum vorum við með skildi fyrir andlitunum sambærilegum þeim sem notaðir eru á spítölum. Því við það að hrópa og slást kemur ansi mikið munnvatn og því enn meiri hætta á dropasmiti. Maður sá stundum ekki út,“ segir Sigrún Edda Björnsdóttir. 

„Þessi prófaði meira að segja rafsuðuhjálm til að vera alveg öruggur,“ segir Jóhann Sigurðarson og sýnir blaðamanni ljósmynd á símanum sínum. Við sitjum í búningsherbergi Jóhanns að lokinni æfingu á Sölumaður deyr eftir Arthur Miller sem Kristín Jóhannesdóttir leikstýrir, en uppfærslan verður frumsýnd á Stóra sviði Borgarleikhússins í kvöld. 

Sigrún Edda og Jóhann fara með hlutverk Lindu og Willy Loman sem takast þurfa á við breyttar aðstæður í heimi verksins. Spurð hvort æfingar á tímum heimsfaraldurs hafi kennt þeim eitthvað nýtt segir Sigrún Edda að það hafi sannast fyrir þeim hvað manneskjan er dugleg að aðlagast og finna lausnir. „Við vissum að á ákveðnum tímapunkti yrðum við að leggja grímunum og taka niður varnirnar, því leiklist snýst svo mikið um snertingu og samskipti. Sölumaður deyr er mikið átakaverk þar sem persónur slást og faðmast. Okkar kúla var hópurinn sem stendur að sýningunni, enda einsettum við okkur að umgangast sem fæsta utan hópsins. Við urðum að treysta ef við ætluðum að klára sýninguna,“ segir Sigrún Edda. „Leikhús gengur út á að klára æfingaferlið og sýna fyrir áhorfendur. Ég hef stundum þurft að sannfæra sjálfan mig um að hægt væri að klára ferlið og sýna fyrir áhorfendur í miðju kófi,“ segir Jóhann, en bæði hlakka þau til að fá loks að frumsýna um helgina.

„Þetta er verk um fjölskyldu í sinni lífsbaráttu,“ segir Jóhann …
„Þetta er verk um fjölskyldu í sinni lífsbaráttu,“ segir Jóhann Sigurðarson sem fer með titilhlutverkið í Sölumaður deyr. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Sterk fjölskyldusaga

Finnst ykkur verkið hafa elst vel?

„Þetta er verk um fjölskyldu í sinni lífsbaráttu. Það er sígilt efni sem allir geta speglað sig. Þetta er venjulegt fólk sem þarf að eiga til hnífs og skeiðar frá degi til dags og er að reyna að standa sig. Fjölskyldan í verkinu hefur sterkar vonir, drauma og væntingar til lífsins og tilverunnar,“ segir Jóhann og bendir á að líkt og nafnið gefi til kynna fjalli leikritið um sölumann sem deyr.

„Ástæða þess að hann tekur ákvörðun um að svipta sig lífi er að það er að fjara undan þeim hjónum fjárhagslega. Börnin eru ekki að fara í þá átt sem hann dreymdi um,“ segir Jóhann. „Verkið er skrifað rétt eftir stríð þegar ameríski draumurinn lifir sem sterkast. Fólk vildi eignast mikið af hlutum og taldi að í því fælist lífshamingjan. Sölumaðurinn í verkinu, Willy, er maður sem er orðinn úreldur fyrir það samfélag sem hann lifir í. Starfið hans er að úreldast og svo missir hann vinnuna rétt fyrir starfslok, en það á enn þá eftir að klára að borga af húsinu og ýmsa aðra reikninga, “ segir Sigrún Edda og bendir á að höfundur velti því upp að hamingjan felist ekki í því að þurfa að vinna mikið til að hafa efni á öllu dótinu.

„Því Willy trúir því að peningar muni færa þeim hamingjuna. Við sjáum það í syni þeirra hjóna, Biff, að hann vill fara aðra leið í lífinu og finnur hamingjuna í vinnu á búgarði þar sem meira frelsi fæst en í borginni,“ segir Sigrún Edda og bendir á að foreldrunum hugnist það ekki að Biff vilji vera öðruvísi. „Það er svo margt í þessu verki. Sterk fjölskyldusaga, samskipti hjónanna, samskiptin við börnin. Mjög margt sem maður getur mátað sig í og tengt við. Verkið er skrifað 1949, en það er klassískt og talar sterkt til okkar í dag. Ekki síst vegna þess hversu mikil mennska birtist í því,“ segir Sigrún Edda og tekur fram að það séu auðvitað algjör forréttindi að fá að leika í jafn vel skrifuðu verki og Sölumaðurinn er. „Miller er stórfenglegur höfundur. Senurnar eru svo vel skrifaðar og verkið svo gegnumpælt að það er líkt og boltarnir fari bara á loft og við þurfum bara að grípa þá og miðla áfram. Þetta er áhrifamikil saga og sterk persónusköpun af hálfu höfundar,“ segir Sigrún Edda. „Þegar leikrit er svona vel skrifað þá er hlutverk leikarans bara að lífga það við á sviðinu og þjóna verkinu,“ segir Jóhann og tekur fram að stoltið standi Willy fyrir þrifum í vekrinu.

„Öll sjálfsvirðing Willy felst í vinnunni og að tapa því …
„Öll sjálfsvirðing Willy felst í vinnunni og að tapa því stríði er ofboðslega erfitt. Sjálfur er ég 65 ára og get auðveldlega velt því fyrir mér hvort ég fari senn að úreldast,“ segir Jóhann Sigurðarson. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Hræðslan við að úreldast

„Öll sjálfsvirðing Willy felst í vinnunni og að tapa því stríði er ofboðslega erfitt,“ segir Jóhann og tekur undir með Sigrúnu Eddu að verkið sé klassískt. „Þráin eftir frama og velgengni í lífinu brennur á fólki í dag eins og þegar leikritið var skrifað. Sjálfur er ég 65 ára og get auðveldlega velt því fyrir mér hvort ég fari senn að úreldast,“ segir Jóhann. „Willy þarf í verkinu að takast á við það að hann er ekki eins snöggur að hugsa og hann var á yngri árum. Hann er ekki eins sterkur og ekki eins snöggur. Hann er aðeins farinn að missa það, en vill ekki feta nýja slóð þótt honum bjóðist það. Ég segi fyrir sjálfa mig sem leikara, þá skiptir miklu að hafa hugrekki til að tileinka sér nýja hluti, nýjar aðferðir, nýjan stíl og nýtt leikhúsumhverfi. Þeir sem gera það ekki eiga á hættu að tréna og verða úreldir. Ég skil samt vel óttann við að feta nýja slóð og þora ekki að tileinka sér nýja hluti, en það er varhugaverður hugsunarháttur því það er allt á hreyfingu. Hluti af því að vera til er að hlusta á veröldina og þora að breytast. Þeir sem gera það ekki eiga á hættu að enda hræddir úti í horni,“ segir Sigrún Edda.

„Hin hliðin á þessum peningi, þegar maður er búinn að starfa í leikhúsinu í 40 ár, eins og við, er að það sem sumir kynna sem nýjar hugmyndir er eitthvað sem maður tengir engan veginn við eða hitt að maður hugsar með sér: „Þetta er ekkert nýtt. Við gerðum þetta fyrir 30 árum.“ Maður þarf því alltaf að vega og meta stílana,“ segir Jóhann.

Jóhann Sigurðarson sem Willy ásamt börnum sínum, Biff og Happy. …
Jóhann Sigurðarson sem Willy ásamt börnum sínum, Biff og Happy. Hjörtur Jóhann Jónsson leikur Biff og Rakel Ýr Stefánsdóttir leikur Happy. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Vonir sem brugðust

Talandi um stíl. Hvað getið þið sagt mér um nálgun leikstjórans?

„Verkið gerist í ýmist núinu eða í endurlitum sem eiga sér stað í höfði Willy. Kristín hefur valið að staðsetja verkið í tímaleysi. Við erum því ekki að leika leikrit í einbýlishúsi 1949. Við erum í raun í mjög nútímalegu leikhúsi. Mér finnst nálgun Kristínar á verkið einstaklega áhugaverð og flott. Við höfum átt gott samtal um Lindu, því við fyrstu kynni virkar hún sköpuð fyrir sjötta áratug seinustu aldar þar sem hún vinnur heima og þjónar sínum manni. Við brjótum þetta upp, ekki með breytingum í texta, heldur með því hvernig við nálgumst persónusköpunina. Ég sé Lindu sem sterka konu, en með drauma og væntingar sem brugðust,“ segir Sigrún Edda og tekur fram að hún hafi lengi verið hrifin af Kristínu sem leikstjóra þar sem hennar nálgun á leikhúsið sé ávallt sérstök. „Hún er mjög spennandi leikstjóri sem gaman er að vinna með. Hún tekur yfirleitt áhugaverðan vinkil á verkin sem hún vinnur með sem liggur ekki alltaf beint við,“ segir Sigrún Edda.

Vantar bara að leika langömmu

Um þessar mundir eru 40 ár síðan þið útskrifuðust úr Leiklistarskóla Íslands. Hafið þið tölu yfir það í hversu mörgum leiksýningum þið hafið leikið saman á löngum og farsælum ferli ykkar?

„Nei, maður þyrfti bara að fara í spjaldskrána til þess,“ segir Jóhann. „Það er mjög gott að leika á móti Jóa,“ segir Sigrún Edda og bætir kímin við að hún þurfi aldrei að hafa neinar áhyggjur af því að skyggja á hann, enda töluverður stærðarmunur á þeim á sviði. „Við höfum oft leikið saman. Oft hef ég verið eiginkona hans á sviðinu. Svo hef ég líka verið hjákona. Ég hef verið dóttir hans í Fiðlaranum á þakinu. Og svo hef ég verið móðir hans í Billy Elliot. Þannig að það má segja að ég hafi reynt ýmsa vinkla kringum Jóa,“ segir Sigrún Edda. „Það vantar bara að þú leikir langömmu mína,“ segir Jóhann og bætir skellihlæjandi við: „Við þurfum að loka hringnum með því einhvern daginn.“

Píanóið fór milli heimila

Þekktust þið áður en þið hófuð nám í Leiklistarskólanum?

„Nei, en það voru smá samskipti milli heimila okkar sem ég man eftir,“ segir Sigrún Edda og rifjar upp að mæður þeirra Jóhanns, Guðrún Ásmundsdóttir og Guðrún Birna Hannesdóttir tónlistarkennari, hafi kynnst í leiklistarkennslu hjá Lárusi Pálssyni fyrir margt löngu. „Mæður okkar voru góðar vinkonur. Mömmu Jóa vantaði píanó og mamma lánaði henni píanóið sem var inni í stofu á æskuheimilinu mínu sem fór þá á heimili Jóa,“ segir Sigrún Edda og bendir á aðra fallega tengingu. „Þegar ég varð ólétt á fyrsta ári í Leiklistarskólanum og eignaðist dóttur ákvað ég að skíra í höfuðið á foreldrum mínum þannig að hún heitir Guðrún Birna, eins og mamma Jóa. Það er ekki nóg með það heldur er hún Jóhannsdóttir. Allir voru vissir um það að þarna hefði Jói eignast dóttur,“ segir Sigrún Edda.

„Ég sé Lindu sem sterka konu, en með drauma og …
„Ég sé Lindu sem sterka konu, en með drauma og væntingar sem brugðust,“ segir Sigrún Edda Björnsdóttir. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Traustið ómetanlegt

Í raun má segja að ykkar vinskapur hafi staðið jafnlengi og hjónaband Loman-hjónanna. Hvaða þýðingu hefur það fyrir samstarfið?

„Þetta hefur það mikil áhrif að ef ég er í vafa með eitthvað sem ég er að gera þá spyr ég bara Sissu. Ef hún segir mér að þetta sé svona eða hinsegin þá bara trúi ég því. Hún hefur þá bestu dómgreind sem ég veit til. Ef ég er að gera einhverja tóma vitleysu get ég líka treyst því að hún muni segja mér það. Slíkt traust er ómetanlegt. Hún gaf mér smá klapp á öxlina á æfingunni áðan og sagði: „Þetta er á réttri leið hjá þér.“ Þá gat ég slakað á, því ég vissi að ég væri ekki að gera einhverja tóma vitleysu,“ segir Jóhann og bætir við að æfingaferli einkennist ávallt af leit og spurningum. „Við erum leitandi meðan við erum að fara í gegnum skaflinn og reyna að finna lausnir, prófa okkur áfram og rata í ógöngur með sumt og þurfa þá að finna aðra leið. Þá er svo gott að vera í hópi góðra kollega, ekki síst þegar maður er að kljást við svona stóra rullu eins og Willy er. Kollegarnir hvetja mann áfram þegar maður er á réttri leið og benda líka óhikað á það ef maður er að gera einhverja vitleysu,“ segir Jóhann.

Við byrjum alltaf á núlli

„Við Jói þekkjum hvort annað mjög vel. Þegar maður er búinn að leika svona oft á móti einhverjum þá verður til ákveðin dýnamík sem er skemmtilegt að spila á. Við höfum góðan grunn til að vinna út frá og finnum fljótt rytmann hjá hvort öðru í samleiknum,“ segir Sigrún Edda.

„Stundum sé ég að Sissa er að prófa eitthvað nýtt en er kannski ekki komin í höfn með það en ég veit að hún er á leiðinni þangað. Þá bíð ég bara þolinmóður. Og eins sýnir hún mér nauðsynlega þolinmæði meðan ég er kannski staddur í miðjum skafli að reyna að moka mig út. Í þessari sköpunarvinnu þarf líka þolinmæði og umburðarlyndi,“ segir Jóhann. „Þetta er ferli. Þess vegna æfum við. Og við æfum mikið, því það er stór pakki að tileinka sér svona stór hlutverk,“ segir Sigrún Edda.

„Margir átta sig ekki á því að við leikarar þurfum alltaf að byrja upp á nýtt með hvert nýtt hlutverk. Við byrjum alltaf á núlli. Auðvitað búum við að ákveðinni reynslu, en við erum með nýtt verk og þurfum að nálgast það ferskum augum. Þannig fer leitin og vinnan af stað. Það er ekkert fyrirframgefið enda væri það bara hroki sem á ekkert skylt við listræna sköpun,“ segir Jóhann og segir ákveðna auðmýkt vera nauðsynlega. „Maður þarf að beygja sig fyrir kúnstinni. Gagga Lund þjóðlagasöngkona talaði iðulega um að eitt og annað væri hollt fyrir auðmýktina,“ segir Jóhann að lokum.

Viðtalið við Jóhann Sigurðarson og Sigrúnu Eddu Björnsdóttur birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 18. febrúar. 

„Það er mjög gott að leika á móti Jóa,“ segir …
„Það er mjög gott að leika á móti Jóa,“ segir Sigrún Edda Björnsdóttur. Þau Jóhann Sigurðarson fagna 40 ára leikafmæli sínu í uppfærslu Borgarleikhússins á Sölumaður deyr. Ljósmynd/Grímur Bjarnason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Mundu að þú getur ekki alltaf gert svo öllum líki. Láttu ekkert verða til að æsa þig upp. Reyndu að skoða hegun þína í raunsæju ljósi.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Mundu að þú getur ekki alltaf gert svo öllum líki. Láttu ekkert verða til að æsa þig upp. Reyndu að skoða hegun þína í raunsæju ljósi.