Voru búnir að gera sitt og vel það

Frakkarnir tveir í hátíðlegum búningi á Grammy-verðlaunum árið 2014, en …
Frakkarnir tveir í hátíðlegum búningi á Grammy-verðlaunum árið 2014, en þar unnu þeir stórsigur vegna plötu sinnar frá árinu áður. Nú skilur leiðir. AFP

Franska raftónlistarsveitin Daft Punk sendi frá sér sitt síðasta lag í dag og gerði heiminum um leið kunnugt um að þar með væri 28 sögu sveitarinnar lokið.

Arnar Eggert Thoroddsen poppfræðingur segir sem er, að nokkuð er síðan sveitin lét síðast að sér kveða með afgerandi hætti.

„Ég hef ekki sérstaklega verið að hugsa til þeirra undanfarin misseri, þannig að ég er ekkert hryggbrotinn ef ég á að vera ískaldur. Þeir voru búnir að gera sitt og vel það,“ segir Arnar í samtali við mbl.is.

„Sumir listamenn ná bara að klára kvótann á nokkrum árum,“ segir Arnar.

Dr. Arnar Eggert Thoroddsen.
Dr. Arnar Eggert Thoroddsen.

Gríðarlega mikilvægt band

Frakkarnir Thomas Bangalter og Guy-Manuel de Homem-Christo stofnuðu Daft Punk í París árið 1993. Upp úr aldamótum voru þeir orðnir fastir punktar á stjörnuhimni raf- og popptónlistar með slögurum á borð við One More Time og Harder, Better, Faster, Stronger.

Síðan er árangur laga frá plötu þeirra frá 2013, Random Access Memories, kunnari en frá þurfi að segja. Lagið Get Lucky er þar á meðal.

Arnar Eggert segir að Daft Punk hafi verið gríðarlega mikilvægt band. „Þeim tókst að brúa bilið á milli raftónlistar og svona popprokks fyrir eldri kynslóð sem vildi geta hlustað á þá heima í sófa,“ segir Arnar.

„Þeir urðu brúarsmiðir að þessu leyti ásamt hljómsveitum eins og Underworld og Chemical Brothers.“ Það sem gerir sveitina um leið einstaka í þessu samhengi er að hún náði sem frönsk sveit að brjóta upp ægivald Englendinga og Bandaríkjamanna á markaðnum.

Með poka yfir höfðinu í Kastljósi

Tvímenningarnir í Daft Punk komu aldrei fram í nafni sveitarinnar án þess að vera grímuklæddir, eins og er nærtækast að sýna fram á með því að benda á viðtal sem Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir tók við þá í Kastljósi árið 2006.

Arnar Eggert segir að ímyndarvinna hafi í öllum tilvikum verið sérstaklega vönduð hjá sveitinni, að ekki sé talað um sjálfa tónlistina, sem var ævinlega taktvæn og grípandi, en svöl líka.

Þetta allt gildir einnig um hinstu afurð sveitarinnar, sem er átta mínútna stuttmynd með lagi, þar sem félagarnir kveðjast með virktum eftir langa samfylgd. Ekkert hefur komið fram um ástæður þess.



mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant