Út í hið óþekkta

Matthías Tryggvi Haraldsson og Klemens Hannigan úr Hatara í viðtali …
Matthías Tryggvi Haraldsson og Klemens Hannigan úr Hatara í viðtali við Newstalk frá Írlandi í Tel Aviv árið 2019. Eggert Jóhannesson

Heimildarmyndin A Song Called Hate verður frumsýnd með viðhöfn á morgun, 25. febrúar en í henni segir af listhópnum Hatara og þátttöku hans í Eurovision árið 2019 þar sem liðsmenn veifuðu eftirminnilega borða með fána Palestínu að lokinni keppni.

Leikstjóri myndarinnar er Anna Hildur Hildibrandsdóttir og er þetta fyrsta heimildarmynd hennar í fullri lengd en hún rekur kvikmyndaframleiðslufyrirtækið Tattarrattat.

Anna Hildur Hildibrandsdóttir
Anna Hildur Hildibrandsdóttir Ljósmynd/Rut Sigurðardóttir


Anna framleiddi sjónvarpsþættina Trúnó fyrir Sjónvarp Símans, átta viðtalsheimildarþætti við tónlistarfólk og segist hún vera með þrjú önnur verk í þróun og vinnslu. „En verkefnið sem varð til þess að ég setti upp þetta fyrirtæki var verkefni sem ég fékk hugmyndina að þegar ég var að vinna fyrir NOMEX, var að gera stuttmyndasafn frá öllum Norðurlöndunum þar sem tónlistarmaður og kvikmyndagerðarmaður myndu vinna saman að og þróa sameiginlega hugmynd að stuttmynd. Þetta er ég að gera með vinafólki mínu sem heita Iain Forsyth og Jane Pollard og eru kannski þekktust fyrir að hafa verið leikstjórarnir að 20.000 Days on Earth,“ segir Anna en í þeirri mynd er forvitnilegu ljósi varpað á tónlistarmanninn Nick Cave.

Gæti orðið spennandi 

Þau hafi þá stofnað fyrirtækið Tattarrattat sem er með bækistöðvar í London. ,,Ég ætlaði að klára þessa mynd á einu ári en þurfti að læra að fjármögnun á kvikmynd gæti tekið lengri tíma,“ segir Anna og á þar við stuttmyndasafnið Nordic Trips. Hún er líka að framleiða mynd um rokkömmuna Andreu Jónsdóttur og aðra tónlistartengda sem hún segist ekki mega segja frá að svo stöddu. Og svo var það myndin um Hatara. „Ég bara kveikti á því þegar þeir sendu inn þetta lag að þetta gæti orðið spennandi heimildarmynd,“ segir Anna.

„Ég var búin að fylgjast með þeim frá 2016 og þekkti aðeins til þeirra en ég held að ég hafi orðið jafnhissa og allir aðrir þegar þeir skutluðu lagi inn í Söngvakeppnina hérna á Íslandi en ég hugsaði strax að þetta gæti kannski orðið góð heimildarmynd. Ég man að ég talaði við Iain og Jane um þetta og sagði að ef þau vinna á Íslandi og ef þau fara út gæti þetta orðið eitthvað sem spennandi væri að fylgjast með,“ segir Anna.

Tekur því sem að höndum ber

Hún byrjaði að fylgja hópnum í byrjun mars 2019 þegar úrslitakvöldið í Söngvakeppninni fór fram og var þá með fámennt tökulið og tók viðtöl við alla liðsmenn Hatara. „Við gerðum stuttan sjónvarpsþátt sem byggði á því, þetta voru prufu- og heimildartökur hjá okkur og ég var viðstödd þegar þeir unnu,“ segir Anna og að í framhaldi hafi hún tengt Hatara við vini sína í London sem þekktu palestínska tónlistarmanninn Bashar Murad sem vann síðar með Hatara en Murad er mikill baráttumaður fyrir réttindum LGBT+ fólks í Mið-Austurlöndum. 

„Þegar maður fer í svona verkefni og fer alveg út í það óþekkta og algjörlega út fyrir þann kassa sem maður þekkir er það einhvern veginn, í mínu tilviki, bara ákvörðun. Maður er bara kominn í verkefni, vaknar á morgnana og tekur því sem að höndum ber og klárar verkið. Þannig að ég held að ég hafi ekki haft tíma til að hugsa um hvernig taugarnar höfðu það fyrr en kannski eftir að ég kom heim aftur,“ svarar Anna kímin.

Viðtalið við Önnu má hlusta á í heild sinni í kvikmyndahlaðvarpinu BÍÓ hér fyrir neðan. 

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það getur verið hættulegt að ætla fólki krafta sem það býr ekki yfir. Reyndu að setja þér skýr markmið og stefna svo ótrauð/ur að þeim.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það getur verið hættulegt að ætla fólki krafta sem það býr ekki yfir. Reyndu að setja þér skýr markmið og stefna svo ótrauð/ur að þeim.