Andri Snær og Guðrún Eva tilnefnd

Andri Snær Magnason og Guðrún Eva Mínervudóttir eru tilnefnd til …
Andri Snær Magnason og Guðrún Eva Mínervudóttir eru tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skáldsögurnar Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason og Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur hafa verið tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021 fyrir Íslands hönd. Þetta var tilkynnt í Gunnarshúsi fyrir stundu.

Landsbundnar dómnefndir tilnefna í ár samtals 14 verk til verðlaunanna, en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins og verða verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Kaupmannahöfn þriðjudaginn 2. nóvember í tengslum við þing Norðurlandaráðs. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur, sem samsvarar tæpum 6,2 milljónum íslenskra króna miðað við núverandi gengi. 

Guðrún Eva Mínervudóttir og Andri Snær Magnason eru tilnefnd fyrir …
Guðrún Eva Mínervudóttir og Andri Snær Magnason eru tilnefnd fyrir Íslands hönd.

Hér eru verkin sem tilnefnd eru til bókmenntaverðlaunanna í ár:

Álandseyjar

Broarna eftir Sebastian Johans. Skáldsaga, Nirstedt/litteratur, 2020.

Danmörk

Penge på lommen. Scandinavian Star. Del 1 eftir Astu Oliviu Nordenhof. Skáldsaga, Basilisk, 2020.

Mit smykkeskrin eftir Ursulu Andkjær Olsen. Ljóðabók, Gyldendal, 2020.

Finnland 

Bolla eftir Pajtim Statovci. Skáldsaga, Otava, 2019.

Autofiktiv dikt av Heidi von Wright eftir Heidi von Wright. Ljóðabók, Schildts & Söderströms, 2020.

Færeyjar

Eg skrivi á vátt pappír eftir Lív Mariu Róadóttur Jæger. Ljóðabók, Forlagið Eksil, 2020.

Grænland

Naasuliardarpi eftir Niviaq Korneliussen. Skáldsaga, Milik Publishing, 2020.

Ísland

Um tímann og vatnið eftir Andra Snæ Magnason. Skáldsaga, Forlagið, 2019.

Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Skáldsaga, Bjartur, 2019.

 

Noregur

Er mor død eftir Vigdis Hjorth. Skáldsaga, Cappelen Damm, 2020.

Det uferdige huset eftir Lars Amund Vaage. Skáldsaga, Forlaget Oktober, 2020.

 

Samíska málsvæðið

Gáhttára Iđit eftir Ingu Ravna Eira, ljóðabók, Davvi Girji, 2019.

 

Svíþjóð

Strega eftir Johanne Lykke Holm. Skáldsaga, Albert Bonniers förlag, 2020.

Renheten eftir Andrzej Tichý. Smásagnasafn, Albert Bonniers Förlag, 2020.

Bókin skrifuð af sterkum vilja til þess að gera heiminn betri 

Í umsögn dómefndar um bók Andra Snæs segir: „Í bókinni fléttast saman hlýleg fjölskyldusaga af þremur ættliðum og ógnvekjandi vísindasaga af heiminum sem þetta fólk byggir. Það er leitað í fornar norrænar og indverskar goðsagnir, visku þeirra, samhljóminn í þeim og skilning á voðanum sem af því stafar að vanvirða gjafir náttúrunnar. Það er skilmerkilega rakið hvernig vísindamenn hafa einnig bent á ógnina sem því mun fylgja ef við leyfum okkur að eyðileggja jörðina okkar. Þá eyðum við sjálfum okkur, börnum okkar og barnabörnum, sögu okkar og allri menningu. Höfundinum bregst hvorki frásagnarlistin né þekkingin á umhverfisvísindum.

Vísindi og frásagnir af fólki og tilfinningum eiga samleið þó að mönnum hafi löngum sést yfir þau sannindi.  Um tímann og vatnið hefur verið þýdd á 28 tungumál, þ. á m. öll norrænu málin og er í senn persónulegt og vísindalegt rit og sameinar þannig orðræðu bókmennta og vísinda.

Frá miðri 20. öld hefur okkur Vesturlandabúum verið sérstaklega tamt að berja höfðinu við steininn þegar um þetta er rætt og segja að vísindi hljóti alltaf að vera ópersónuleg og persónulegur texti sé það sama og óvísindalegur texti. Trúnni á óskeikulleika og mátt vísindanna hefur löngum verið teflt gegn stopulum mannlegum tilfinningum og meintum hugarórum, tilfinningagreindin talin andstæð allri rökhyggju og huglæg viðhorf líkleg til að ala á hættulegri hlutdrægni, stuðla að afneitun, efla hræðsluáróður og varðveita ýmiss konar lífslygi. Iðnaður og vísindi síðustu áratuga hafa hins vegar ekki reynst jörðinni vel og blikur eru á lofti. Í bókinni Um tímann og vatnið kemur það skýrt fram að ætli mannkynið sér að sigrast á umhverfisvá tímans þarf að sameina þá krafta sem felast í vísindalegri þekkingu okkar og persónulegum tilfinningum.

Rit Andra Snæs Um tímann og vatnið fjallar um jörðina okkar og framtíð barna okkar og annarra afkomenda. Bókin er skrifuð af jafnvægi, þekkingu, skilningi á viðfangsefninu og sterkum vilja til þess að gera heiminn betri en hann er.“

Andri Snær Magnason og Guðrún Eva Mínervudóttir í Gunnarshúsi fyrr …
Andri Snær Magnason og Guðrún Eva Mínervudóttir í Gunnarshúsi fyrr í dag þegar tilkynnt var um tilnefningarnar. Á borðinu fyrir framan þau má sjá hluta þeirra bóka sem tilnefndar eru í ár.

Höfundur færir lesendum hljóðlátan en ólgandi heim

Í umsögn dómnefndar um bók Guðrúnar Evu segir: „Söguheimurinn sem Guðrún Eva Mínervudóttir dregur upp fyrir lesanda í Aðferðum til að lifa af er kyrrlátur en á sama tíma þrunginn lífi eins og síðsumarið sjálft; í honum streða hundar í taumi á meðan værðin leggst yfir þorpið. Á sama hátt kraumar mennskan í persónunum sem höfundur teflir fram á sjónarsviðið. Unglingsstúlka glímir við átröskun, við tilfinningar sem ólmast í brjóstinu; fyrrum dugnaðarforkur á miðjum aldri er nýorðinn öryrki og haltrar á vit óljósrar framtíðar; ekkju líður eins og fullum poka af glerbrotum og vansæll drengur vafrar um þorp þar sem flestir virðast vorkenna honum og óttast til jafns.

„Lífið rífur mann á hol og horfir samúðarfullt í augu manns á meðan,“ segir ein persóna Guðrúnar Evu í Aðferðum til að lifa af og það gerir bók hennar líka, ristir sár en fer á sama tíma um það mildum höndum. Þótt sorg og einangrun marki líf persónanna allra er það mildin og hjálpsemin sem stýrir þeim þótt brothætt sé; allavega um stund, allavega á meðan á lestri stendur.

Guðrún Eva sýnir hér á listilegan hátt þá miklu næmni sem hún býr yfir sem rithöfundur. Hún færir okkur heim hljóðlátan en ólgandi heim þar sem þrá eftir tengslum, sá djúpstæði kraftur, brýst upp á yfirborðið á ferskan hátt. Frásögnin tekur á sig blæ keðjusöngs, þar sem raddirnar kvikna ein af annarri, taka við laglínunni og fléttast saman um hríð svo úr verður sérlega áhrifamikið, margradda verk. Yfir öllu liggur værðarvoð öryggis, virðingar og djúps skilnings höfundar á þeim aðferðum sem maðurinn nýtir sér til að lifa af.“

Markmiðið að vekja athygli á framúrskarandi listaverkum

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt síðan 1962 fyrir fagurbókmenntaverk sem samið er á einu af norrænu tungumálunum. Það getur verið skáldsaga, leikverk, ljóðabók, smásagna- eða ritgerðasafn sem uppfyllir strangar kröfur um bókmenntalegt og listrænt gildi.

Markmið hinna fimm verðlauna Norðurlandaráðs er að auka áhuga á norrænu menningarsamfélagi og samstarfi um umhverfismál, svo og að vekja athygli á verkefnum sem skarað hafa fram úr á sviði lista eða umhverfismála. Allar nánari upplýsingar um verðlaunin má nálgast á vefnum: www.norden.org/is/bokmenntaverdlaunin  

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að læra heilmikið á sviði vissrar lífskúnstnar. Stundum borgar það sig að hafa fyrir hlutunum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að læra heilmikið á sviði vissrar lífskúnstnar. Stundum borgar það sig að hafa fyrir hlutunum.