Nomadland valin besta myndin á BAFTA

Verðlaunahafar fylgdust með gegnum fjarfundabúnað.
Verðlaunahafar fylgdust með gegnum fjarfundabúnað. AFP

Vestrinn Nomadland vann til fernra verðlauna á BAFTA, verðlaunahátíð bresku kvikmyndaakademíunnar, sem haldin var í kvöld.

Myndin var valin besta kvikmyndin og leikstjóri hennar, Chloé Zhao, besti leikstjórinn. Hún er aðeins önnur konan til að hreppa þó verðlaun. Leikkonan Frances McDormand, sem fer með aðalhlutverk í myndinni, var valin besta leikkonan. Þá hlaut myndin verðlaun fyrir bestu myndatöku.

BAFTA-verðlaunin eru jafnan veitt viku eða tveimur fyrir Óskarsverðlaunahátíðina og þykja gefa fyrirheit um það sem koma skal á henni. Óskarsverðlaunin verða veitt mánudaginn 26. apríl.

Gamanmyndin Promising Young Woman var valin besta breska myndin, en Anthony Hopkins hreppti hnossið sem besti leikarinn fyrir hlutverk sitt sem gamall maður sem glímir við heilabilun í myndinni The Father.

Verðlaunahátíðin var í skötulíki í ljósi kórónuveirufaraldursins. Kynnarnir voru þeir einu á svæðinu í Royal Albert Hall-tónleikahúsinu, en verðlaunahafar fylgdust með heiman frá. Meðal kynna voru Hugh Grant, Tom Hiddleston, Gugu Mbatha-Raw og Priyanka Chopra Jonas.

Til stóð að Vilhjálmur Bretaprins yrði heiðursgestur á hátíðinni og myndi flytja ræðu, en í ljósi andláts Filippusar afa hans á föstudag forfallaðist hann. Filippusar var sérstaklega minnst í upphafi athafnarinnar en hann var fyrsti heiðursforseti akademíunnar árið 1959.

Breska akademían hefur legið undir ámælum fyrir einsleitni félagsmanna sem þykir hafa endurspeglast í tilnefningum og verðlaunum. Til að bregðast við gagnrýni voru gagngerar breytingar gerðar, félögum með kosningarétt fjölgað til muna frá því í fyrra með það að leiðarljósi að auka fjölbreytni í hópnum. Breytingarnar þykja hafa borið árangur, en af sex tilnefningum til bestu leikstjóra voru til að mynda fjórar konur þetta árið. Síðustu sjö ár hafði engin kona verið tilnefnd.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu það ekki hvarfla að þér að kasta til höndunum við verk þín því þú færð þau bara í hausinn aftur. Tengslanet þitt er ein þinna verðmætustu eigna.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu það ekki hvarfla að þér að kasta til höndunum við verk þín því þú færð þau bara í hausinn aftur. Tengslanet þitt er ein þinna verðmætustu eigna.