Gíra íslensku þjóðina fyrir sumarið

Ingó Veðurguð, Doctor Victor og Gummi Tóta gefa út lagið …
Ingó Veðurguð, Doctor Victor og Gummi Tóta gefa út lagið Gírinn á föstudaginn eftir viku. Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarmaðurinn og læknirinn Victor Guðmundsson, betur þekktur sem Doctor Victor, hefur gefið út hvern smellinn á fætur öðrum. Í næstu viku gefur hann út lagið „Gírinn“ með bræðrunum Ingó veðurguð og Gumma Tóta. Það er ekki fyrsta lagið sem þeir gefa út saman en þeir gáfu út lagið Sumargleðina árið 2019.

„Gírinn er lag til að gíra íslensku þjóðina í gang,“ segir Victor í viðtali við mbl.is. Lagið samdi hann ásamt vini sínum Elvari Páli Sigurðssyni fyrir þó nokkru en það varð til þegar hann var að koma sér upp stúdíói heima á Íslandi eftir langt nám erlendis.

Victor segir að lagið hafi verið gert bara upp á gamanið til að byrja með en svo hafi fleiri og fleiri heyrt demóútgáfuna, m.a. Ingó og Gummi, og þeir hafi ákveðið að keyra á þetta og gefa út lagið.

„Ég var búinn að gera drög að gíruðum texta með Elvari Páli vini mínum og áður en ég vissi af vorum við bara mættir með bræðrunum í stúdíóið að vinna í þessu lagi. Síðustu mánuðir hafa náttúrlega verið erfiðir þannig að okkur langaði að gera lag til að gíra fólk í gang núna þegar útlitið er að verða bjartara,“ segir Victor.

Victor og vinur hans Elvar Páll sömdu lagið saman.
Victor og vinur hans Elvar Páll sömdu lagið saman. Ljósmynd/Aðsend

Fyrr á þessu ári gaf Victor út lagið Older með fyrrverandi landsliðsmanninum Rúriki Gíslasyni og í síðustu viku gáfu þeir út rólegri útgáfu af laginu sem þeir tóku upp í Eldborg í Hörpu.

Sumargleðin náði miklum vinsældum sumarið 2019 og hefur hljómað í ófáu heimapartíinu í heimsfaraldrinum þar sem djammþyrsta Íslendinga dreymir um sumar og gleði. Victor segir að hann hafi ekki grunað að lagið yrði jafn vinsælt og það varð.

„Ég fékk í hendurnar að gera sumarlag þetta árið og fannst tilvalið að hafa Veðurguðinn inni í því. Þannig að ég heyrði í Ingó og svo var Gummi bróðir hans líka kominn inn í þetta. Ég sendi þeim svo bara lag og texta og þeir sungu þetta inn. Ég bjóst ekkert við því að þetta yrði svona vinsælt,“ segir Victor.

Victor gerði nýlega samning við útgáfufyrirtækið Sony Music og fram undan er fullt af nýrri tónlist. Þeir Rúrik eru til dæmis að vinna í nokkrum lögum núna og sér Victor einnig fram á meira samstarf með tónlistarfólki hérlendis sem og erlendis.

Tónlistina vinnur Victor samhliða því að starfa á heilsugæslu en hann útskrifaðist úr læknisfræði frá Jessenius Faculty of Medicine í Slóvakíu árið 2020 og því er mikið að gera hjá honum.

„Ég reyni bara að skipuleggja daginn mjög vel og skipta honum upp í þrjá parta: 8-8-8; átta tímar í að sofa, átta tímar í að vinna og átta tímar í annað, sem í mínu tilfelli er mest tónlist og hreyfing. Þetta rúllar merkilega vel en mér finnst mjög gaman að blanda þessu saman. Starfið á heilsugæslunni er mjög fjölbreytt og skemmtilegt, en ég viðurkenni að það getur verið krefjandi á köflum. Þá er gott að fara eftir vinnu, taka æfingu, hreinsa hugann og svo í stúdíóið að vinna í einhverju skapandi. Þegar maður er með ástríðu fyrir einhverju þá finnur maður tímann fyrir það,“ segir Victor.

Lagið Gírinn kemur út á föstudaginn í næstu viku, 23. apríl.

Victor útskrifaðist úr læknisfræði árið 2020.
Victor útskrifaðist úr læknisfræði árið 2020. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson