Íslenskur bókavörður slær í gegn í Kína

Valli slær í gegn í Kína
Valli slær í gegn í Kína Skjáskot/BiliBili

Valgeir Gestsson, starfsmaður Borgarbókarsafnsins í Grófinni, hefur óvænt slegið í gegn á kínverskum vefmiðlum. Valgeir, eða Valli, sem gerði garðinn frægan á árum áður sem söngvari og gítarleikari rokkhljómsveitarinnar Jan Mayen, er í aðalhlutverki í kínverskri heimildarmynd um Borgarbókarsafnið.

Á nokkrum dögum hefur myndin fengið 750.000 áhorf á kínverska Twitter og 150.000 áhorf á Bilibili, sem er hið kínverska Youtube.

„Ég hef alltaf haft gam­an af því að standa uppi á sviði eða fyr­ir fram­an mynda­vél, þannig að ég hef gert tals­vert af því í gegn­um tíðina. Það er líka ástæðan fyr­ir að það var strax bent á mig þegar hug­mynd­in um þessa heim­ild­ar­mynd kom inn á borð til okk­ar. Mér leidd­ist held­ur ekki að láta dæl­una ganga um ágæti Borg­ar­bóka­safns­ins, enda af nógu að taka,“ sagði Valli þegar blaðamaður heyrði í hon­um í dag.

750.000 áhorf á Weibo
750.000 áhorf á Weibo Skjáskot/Weibo

Kvikmyndagerðarkonan Karlotta Jiaqian Chen, sem leikstýrir heimildarmyndinni, hafði ekki mikla þekkingu á starfsemi Borgarbókasafns Reykjavíkur áður en hún tók þátt í kynningarmyndbandi á vegum þess, reyndar sem statisti.

Þar lenti hún á spjalli við verkefnastjóra hjá safninu og heillaðist svo mjög að hún hafði samband síðar og bað um að fá að gera heimildarmynd til að kynna starfsemina fyrir samlöndum sínum í Kína.

Útkoman er rúmlega 20 mínútna heimildarmynd um Borgarbókasafnið. Þar er Valli í aðalhlutverki, en bæði notendur og aðrir starfsmenn koma við sögu.

Samkvæmt athugasemdum þá vekur athygli áhorfenda hversu afslappað andrúmsloftið er á bóksafninu. Tónlistarsenan á Íslandi vekur einnig mikla athygli, en það mætti segja að senan hafi laumað sér inn í myndina bakdyramegin. Í myndinni er Steinunn Eldflaug Harðardóttir, betur þekkt sem DJ Flugvél og Geimskip, gestur á safninu ásamt dóttur sinni Eldeyju.

Skjáskot/Bilibili

Kvikmyndagerðarkonan Karlotta Jiaqian Chen kom hingað til lands fyrir fimm árum. Hún heillaðist af landi og þjóð og starfar nú hér við heimildarmyndagerð. Myndin um Borgarbókasafnið er þriðja myndin hennar á þessum tíma, en fyrir hafði hún gert heimildarmyndir um Kínasafnið við Njálsgötu og Hið íslenska reðasafn. Líkt og heimildarmyndin um Borgarbókasafnið, þá slógu fyrri myndirnar hennar í gegn á kínverskum netmiðlum.

Karlotta Jiaqian Chen, heimildargerðarkona
Karlotta Jiaqian Chen, heimildargerðarkona Skjáskot/Bilibili

Talsvert er um athugasemdir frá kínverskum áhorfendum, en Chen hvatti notendur til að skrifa á ensku svo Íslendingar gætu skilið þær. Þar er bæði bókasafnið lofsamað, sem og brennandi áhugi Valla á starfi sínu. Þar má að auki lesa einlægar vangaveltur um hlutverk bókasafna, sérstöðu Íslands og tækniþróun samfélaga.

Skjáskot/Bilibili

Valli hefur verið að gera frábæra hluti á samfélagsvef Borgarbókasafnsins. Þar er hann með stutt myndbönd um starfið á safninu og hefur vakið athygli fyrir að gera það á einlægan og sjarmerandi hátt. Í þáttunum sínum Gersemar og Grúv í Grófinni fjallar hann um einstakt úrval af tónlist og tónlistarbókum sem safnið hefur upp á að bjóða og hefur tekið Lennon, Björk og Beethoven fyrir.

„Ég var ráðinn inn í tónlistardeildina, þar er ég á heimavelli. Í Covid-lokununum færðist þetta ósjálfrátt meira yfir á netið og það hefur fengið svona góð viðbrögð,“ segir Valli.

„En ég hef líka verið að gera skemmtileg myndbönd fyrir krakkastarfið og fleira. Næst langar mig að vekja athygli á fræðibókunum og hvetja fólk til að grúska, en við sjáum til hvernig það verður útfært.“

„Bókasöfn hafa breyst talsvert síðustu áratugina. Þetta eru menningarhús og hluti af starfi okkar er að miðla menningu, vonandi getur þessi mynd verið kollegum okkar í Kína hvatning. Ég lít á mig sem bókavörð og menningarmiðlara, það skiptir engu hvort ég er að miðla maður á mann eða milli menningarheima og heimshluta,“ segir Valli að lokum.

Karlotta og Valli vinna nú að enskri útgáfu af heimildarmyndinni um Borgarbókasafnið. Við óskum þeim alls hins besta í samstarfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant