„Þú ert ógeðsleg!“

Kelly Osbourne hefur marga fjöruna sopið.
Kelly Osbourne hefur marga fjöruna sopið. AFP

„Ég sigldi of lengi fyrir eigin seglum, vegna þess að ég varð hamingjusöm. Og ég er þessi dæmigerði fíkill sem telur sér trú um að fyrst ég er hamingjusöm þá sé allt í himnalagi og ég geti fyrir vikið gert það sem mér sýnist. Allt sem þurfti var athugasemd frá einni manneskju og ég var fallin.“

Þetta segir söngkonan og sjónvarpsstjarnan Kelly Osbourne í hlaðvarpsþættinum Knockin’ Doorz Down vestur í Bandaríkjunum en rof kom í edrúmennsku hennar, sem staðið hafði frá árinu 2017, fyrir skömmu.

„Ég var undir miklu álagi,“ heldur hún áfram, „eins og við öll undanfarið ár. Faraldurinn hefur leikið marga sem eru á snúrunni grátt vegna þess að við þurfum á félagsskap hvert annars að halda, fundunum okkar, prógramminu og rútínunni. Sem hendi væri veifað var þetta hrifsað af okkur. Og maður stendur stjarfur eftir og spyr sig: Hvernig byrja ég upp á nýtt? Þannig verður maður að dæmigerðu fórnarlambi sem byrjar að leita að afsökunum. Sjálf fann ég mína afsökun og færði mér hana í nyt.“

Osbourne-fjölskyldan eins og við munum eftir henni á skjánum; Sharon, …
Osbourne-fjölskyldan eins og við munum eftir henni á skjánum; Sharon, Jack, Ozzy og Kelly. AFP

Sérviskuleg uppátæki

Heimurinn kynntist Kelly Osbourne, sem er 36 ára gömul, fyrst í raunveruleikasjónvarpsþáttunum The Osbournes frá 2002 til 2005, þar sem foreldrar hennar, Ozzy og Sharon, voru í forgrunni, ásamt yngri bróður hennar, Jack. Elsta systkinið, Aimee, baðst sem frægt er undan þátttöku í gjörningnum en þættirnir urðu frægir að endemum fyrir sérviskuleg uppátæki fjölskyldumeðlima. Kelly Osbourne hefur komið víða við síðan, meðal annars fengist við tónlist, leiklist, sýnt og hannað tísku. Lengi vel lét hún sitt ekki eftir liggja á djamminu en setti tappann í flöskuna árið 2017.

Í téðum hlaðvarpsþætti segir Kelly Osbourne fallið hafa verið sár vonbrigði. Hún hafði verið edrú í meira en þrjú ár og hliðarsporið þýddi að hún gat ekki lengur flaggað þeim góða árangri. Þegar betur var að gáð komst hún aftur á móti að því að edrúmennska snýst í raun og sann ekki um að telja mánuði og daga.

„Þetta stóð ekki lengi; var bara einn snarpur túr og ástæðan fyrir því að ég varð að vera opin og hreinskilin varðandi fallið er sú að þetta ferðalag er enginn dans á rósum. Það fylgir þessum sjúkdómi að falla stundum. Enginn er fullkominn. Einn dagur í einu er leiðarstefið og ég var ekki að taka einn dag í einu. Ég var heldur ekki að nýta stoðnetið, var til dæmis hætt að hringja í sponsorinn minn, mæta á fundum og hitta sálfræðinginn minn. Ég á besta kærasta í heimi og allir mínir draumar eru að verða að veruleika, taldi ég mér trú um. Allt lék í lyndi í vinnunni og ég stóð mig vel vegna þess að ég var til staðar.“

Ozzy gamli myndast alltaf vel.
Ozzy gamli myndast alltaf vel. AFP

Þú átt þetta ekki skilið!

Þá rak efinn sitt gamla greppitrýni inn um gættina. „Það leikur allt í lyndi,“ hugsaði Osbournemeð sér. „Þú verður að eyðileggja það strax. Þú ert ekki svona góð og átt þetta ekki skilið.“ Sú hugsun náði fljótt yfirhöndinni.

Osbourne segir að fíkillinn í sér vilji að hún sé undir áhrifum, óhamingjusöm, án kærasta og vina og sitjandi ein með sjálfri sér í íbúðinni sinni. „Það er þægilegast fyrir mig – að drekka. Og ég var í algjörri einangrun, drakk bara og svaf og hafði enga burði til að vera mennsk á neinn hátt. Þannig gekk þetta í heila viku þangað til kærastinn minn horfði á mig og ég las úr augunum á honum: „Þú ert ógeðsleg!“ Þá rankaði ég við mér: Guð minn góður, hvað í andskotanum er ég að gera? Daginn eftir hugsaði ég með mér: Nei, nú er komið gott. Ég fór beinustu leið inn á göngudeild vegna þess að mér fannst ég þurfa á svolítilli aukahjálp að halda. Það er mikilvægt að gera þegar manni verður fótaskortur.“

Osbourne líður miklu betur í dag og er þakklát góðu fólki og vættum fyrir stuðninginn.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson