Skáldsögur og ljóðabækur styrktar í ár

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru afhentir í vikunni.
Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru afhentir í vikunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýræktarstyrkir Miðstöðvar íslenskra bókmennta voru afhentir í 14. sinn í vikunni og hlutu þá fjórir nýir rithöfundar sem fá hver um sig hálfa milljón króna í styrk fyrir verk sín.

Ingólfur Eiríksson hlaut styrk fyrir skáldsöguna Stóra bókin um sjálfsvorkunn: Nína Hjördís Þorkelsdóttir fyrir ljóðabókina Lofttæmi; Mao Alheimsdóttir fyrir skáldsöguna Veðurfregnir og jarðarfarir og Jakub Stachowiak fyrir ljóðabókina Næturborgir.

Samkvæmt upplýsingum frá Miðstöðinni eru Nýræktarstyrkir veittir árlega fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, og til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira. Alls bárust 94 umsóknir í ár, sem mun vera metfjöldi umsókna frá upphafi. „Í fyrra bárust 57 umsóknir og er þetta því 65% fjölgun umsókna milli ára. Auk metfjölda umsókna markar sérstök tíðindi í þetta sinn að meðal þeirra sem hljóta styrkina eru Íslendingar af erlendu bergi brotnir, sem flutt hafa til landsins á síðasta áratug. Bæði hafa þau lagt stund á nám í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands og hafa náð fullum tökum á málinu eins og bókmenntatextar þeirra bera með sér,“ segir í tilkynningu. Ráðgjafar í ár voru Erna Erlingsdóttir og Ingi Björn Guðnason. Í umsögn þeirra um Stóru bókina um sjálfsvorkunn segir að í skáldsögunni sé „fylgst með ungum manni sem missir tökin á lífi sínu þegar hann dvelur við nám erlendis. Samhliða er horft til fortíðar og leyndarmáls í fjölskyldusögunni sem hann reynir að ráða fram úr. Uppbyggingin einkennist af sérlega vel heppnuðum skiptingum milli tímasviða og stíllinn er áreynslulaus en býr yfir lúmskum húmor og kaldhæðnum undirtóni.“

Um Lofttæmi segir að ljóðabókin geymi „athuganir á andardrætti, lífmagni og tónlistinni í tilverunni. Skynjun á tilvist og umhverfi er miðlað af næmri tilfinningu en allt er þetta jafnframt skoðað af vísindalegri nákvæmni á heillandi hátt. Lífverur, jörð og loft eru sett undir smásjá í ljóðum sem birta ferska sýn á líf í hverfulum heimi.“

Um Veðurfregnir og jarðarfarir segir að frásögnin streymi „milli Íslands, Póllands og Frakklands á ýmsum tímaskeiðum. Þar gengur veðurfræðingurinn Lena um „götur upplitaðra minninga“ sem eru eins reikular og skýin. Afbragðsvald höfundar á samspili frásagnarháttar og inntaks birtist í flæðandi texta sem undirstrikar líkindin með hverfulli náttúrunni sem Lena kannar og leit hennar að bæði samastað og sátt milli fortíðar og nútíðar.“

Um Næturborgir segir að um heilsteypta ljóðabók sé að ræða sem „hverfist um sorg, söknuð, borgina og skáldskap. Þar er á áhrifaríkan hátt slegið saman hversdagslegum myndum og nýstárlegu tungutaki. Ljóðin tjá sorg og ljúfsárar minningar tengdar henni á persónulegan hátt en eiga jafnframt í áhugaverðu samtali við íslenska ljóðagerð tuttugustu aldar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson