Saga úr íslenskum raunveruleika

Brittany Bristow í Skuggahverfinu.
Brittany Bristow í Skuggahverfinu. Ljósmynd/Gunnar Freyr Steinsson

Skuggahverfið, kvikmynd leikstjóranna og hjónanna Jóns Einarson Gústafssonar og Karolinu Lewicka sem frumsýnd var í fyrra á RIFF, Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, er nú loksins komin í almennar sýningar hér á landi. Sýningin á myndinni varð aðeins ein í fyrra út af kófinu og hefur almennum sýningum verið frestað margoft, að sögn Jóns.

Skuggahverfið er fyrsta kvikmynd þeirra hjóna í fullri lengd og fer kanadíska leikkonan Brittany Bristow með aðalhlutverkið en hún á ættir að rekja hingað til lands. Þekktasti leikarinn er hinn velski John Rhys-Davies sem hefur m.a. leikið í kvikmyndunum um Hringadróttinssögu og af íslenskum leikurum má nefna Eddu Björgvinsdóttur, Kolbein Arnbjörnsson, Ingu Maríu Eyjólfsdóttur og Atla Óskar Fjalarsson.

Eins og titill myndarinnar gefur til kynna er sögusvið myndarinnar Skuggahverfið og á þeim tíma er góðærið var í hámarki, árið 2007, með tilheyrandi húsnæðisbólu. Bristow leikur kanadíska konu, Mayu, sem erfir hús ömmu sinnar í Reykjavík, konu sem hún þekkti ekki og vissi ekki af. Maya heldur til Íslands og verður margs fróðari um rætur sínar og fortíðina og dularfullir atburðir eiga sér stað.

Jón Gústafsson ræðir við Jonathan Rhys-Davies á tökustað.
Jón Gústafsson ræðir við Jonathan Rhys-Davies á tökustað.

Örlagavaldur

Tökur myndarinnar fóru fram í lok árs 2018 og segir Jón að sagan og handritið hafi verið lengi í vinnslu þar á undan og þróast og breyst með tímanum. „Þetta var upphaflega saga sem pabbi sagði mér af föður sínum, afa mínum, sem hafði verið á sjó og átti sex syni og þurfti að halda vinnunni á bátnum. Þá veiktist amma mín svona harkalega þannig að hann gat ekki farið á sjóinn. Það var talið að hún myndi ekki lifa af nóttina þannig að hann varð eftir og einhver annar fékk plássið hans. Svo sökk togarinn,“ segir Jón. Allt frá því hann heyrði þessa sögu hafi hann verið að hugsa um þessa örlagavalda í lífi fólks, sjóslysin. Þarna hafi verið fjölskylda sem missti fyrirvinnuna, fjölskylduföðurinn. „Þetta eru vangaveltur um hvað varð um hina fjölskylduna,“ segir Jón og að út frá þessu hafi sagan í handritinu spunnist. „Við vorum alltaf heilluð af þessu fólki sem fæðist í Ameríku en hefur þessi sterku tengsl til Íslands en veit ekki alveg af hverju. Margir þurfa að koma hingað og komast að því.“

Jón segir að inn í söguna blandist rannsóknir og vangaveltur um hvaða áhrif áföll hafi á næstu kynslóðir, áföll sem erfist. „Út úr öllum þessum pælingum spratt sagan um þessa ungu konu sem kemur til Íslands þegar amma hennar deyr,“ útskýrir Jón. Unga konan fái í arf hús í Skuggahverfinu og þurfi að ganga frá eigum gömlu konunnar. Hana fer fljótlega að gruna að glæpur hafi verið framinn.

Karolina Lewicka leikstjóri (t.v.) og Kristin Fieldhous kvikmyndatökustjóri.
Karolina Lewicka leikstjóri (t.v.) og Kristin Fieldhous kvikmyndatökustjóri.

Með sektarkennd í 50 ár

John Rhys-Davies leikur vin afa Mayu, þann sem veiktist og afinn hljóp í skarðið fyrir. „Hann hefur lifað með sektarkennd í 50 ár og í framhaldi af sjóslysinu veiktist amma Mayu á geði og börnin voru tekin af henni. Það er ekki sagt hreint út en í baksögunni okkar hefur hann verið að passa þessa gömlu konu í 50 ár, passa upp á hana. Hann er með bréf frá afa Mayu sem hann hefur reynt að koma til skila í 50 ár en hefur ekki getað það því amman var andlega veik og vildi ekki taka við því. Þegar hún deyr vilja verktakar komast yfir húsið og sá hluti sögunnar kemur úr því sem var að gerast hérna í kringum 2007, þegar verktakar voru að hrekja fólk úr húsum og í Skuggahverfinu sérstaklega. Þeir ætluðu að rífa þau öll niður og byggja háhýsi í staðinn og tókst það með sum hús og út úr þessu kom barátta þar sem fólk var að berjast fyrir því að vernda þessi hús sem síðan endaði með því að Reykjavíkurborg setti á þessa hundrað ára reglu,“ segir Jón og á þar við að hús sem eru hundrað ára eða eldri séu friðuð með lögum. Nú standi þar eftir nokkur hús, yfir 100 ára gömul og sum hver í mikilli niðurníðslu. Jón segir þessar sögur allar koma úr íslenskum veruleika og endurspegla hann á einn eða annan hátt.

Finnur fyrir návist ömmu

Hinir framliðnu koma líka við sögu í myndinni því Maya finnur fyrir ömmu sinni heitinni, návist hennar. Jón segir það þekkt fyrirbæri að fólk finni fyrir návist sinna heittelskuðu í einhvern tíma eftir andlát þeirra og þarna er komið að trú Íslendinga á drauga og hið yfirnáttúrulega. Hversu opnir Íslendingar eru fyrir hugmyndum um aðrar víddir, eins og Jón kemst að orði. „Við erum sérstaklega opin fyrir því og ég rannsakaði mikið draugasögur þegar við vorum að skrifa þetta,“ segir hann og að handritið og myndin hafi verið gerð með það í huga að ekki væri alltaf ljóst hver væri lífs og hver liðinn. Dæmi svo hver fyrir sig.

„Eins og þú ert búinn að heyra er þetta algjörlega úr íslenskum upplifunarheimi og íslenskum raunveruleika,“ segir Jón að lokum um Skuggahverfið, eða Shadowtown eins og hún heitir á ensku. Myndin verður sýnd í Háskólabíói og Sambíóunum í Álfabakka.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér finnst þú getað fengið alla á þitt band og að þú sért við stjórnvölinn í þínu lifi. Gefðu þér því góðan tíma til þess að velta framtíðinni fyrir þér.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér finnst þú getað fengið alla á þitt band og að þú sért við stjórnvölinn í þínu lifi. Gefðu þér því góðan tíma til þess að velta framtíðinni fyrir þér.