Storytel tekur þátt í jólabókaflóðinu

Stella Soffía Jóhannesdóttir, Emil Hjörvar Petersen og Elísabet Hafsteinsdóttir.
Stella Soffía Jóhannesdóttir, Emil Hjörvar Petersen og Elísabet Hafsteinsdóttir.

Eftir gríðargóðan árangur Storytel á Íslandi færir streymisveitan út kvíarnar í haust og gefur í fyrsta sinn út prentaða bók samhliða hljóðbókaútgáfu, og tekur þar með í fyrsta sinn þátt í jólabókaflóðinu, þessum órjúfanlega þætti í aðdraganda jóla.

Skáldsagan sem um ræðir er Hælið eftir Emil Hjörvar Petersen og er hún gefin út undir merkjum Storytel Original. Í upphafi árs gaf Storytel út hrollvekjuna Ó, Karítas eftir Emil undir sömu merkjum og þá sem hljóðbók og rafbók. Hún vakti mikla athygli og fékk eina mestu hlustun hjá fyrirtækinu á Íslandi frá upphafi.

Hælið er saga sem Emil Hjörvar hafði unnið að um nokkurt skeið. Hún er hrollvekjandi skáldsaga með sögulegu ívafi, sögusviðið er gamla Kópavogshælið, sem bæði hefur verið berklahæli og holdsveikraspítali, og svæðið við botn Kópavogs þar sem á öldum áður var þingstaður og sakamenn meðal annars teknir af lífi. Ugla, Leifur og unglingar þeirra tveir, kjarnafjölskylda, flytja í nýtt hverfi í námunda við hælið og allt virðist leika í lyndi. Fljótlega fer að bera á óhugnaði sem virðist tengjast skuggalegri fortíð staðarins.

Hælið kemur í senn út á prenti og sem hljóð- og rafbók. Útgáfudagur er í september 2021.

„Við erum mjög spennt fyrir áframhaldandi samstarfi með Emil Hjörvari og teljum að með þessari útgáfu og með því að gefa bókina út á öllum þremur formum samtímis, hljóð-, raf- og prentuðu, munum við ná til enn stærri hóps með þessa frábæru sögu. Emil gerir það listavel að blanda saman sögulegum skáldskap og hryllingi í sögunni sem á eftir að fá hárin á hnakka landsmanna til að rísa í skammdeginu í haust,“ segir Elísabet Hafsteinsdóttir útgáfustjóri Storytel á Íslandi.

„Þegar ég kynnti mér sögu Kópavogshælis og svæðisins umhverfis það, las um drepsóttir og aftökur, áttaði ég mig á því að hér væri kominn efniviður í hrollvekjandi sögu, í raun sögulega hrollvekju. Á meðan ég vann í öðrum bókum lét sagan mig ekki vera og það má segja að hælið hafi ásótt mig. Ég get séð það út um gluggann heima hjá mér. Að lokum sló ég til og fór með handritið til Storytel, en samstarf okkar hefur verið afar gott. Ég er sannfærður um að öll formin styðji hvert við annað: prentuð bók, hljóðbók og rafbók,“ segir höfundurinn Emil Hjörvar Petersen.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður þínar við vini þína og kunningja verða líflegar og uppörvandi. Fólk er ekki að reyna að ergja þig þó að það geri mistök.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Samræður þínar við vini þína og kunningja verða líflegar og uppörvandi. Fólk er ekki að reyna að ergja þig þó að það geri mistök.