Stór dagur í máli Britney Spears

Margar kröfur í máli Britney Spears verða teknar fyrir hjá …
Margar kröfur í máli Britney Spears verða teknar fyrir hjá dómara í dag. AFP

Lögráðamál tónlistarkonunnar Britney Spears heldur aftur inn í dómsalinn í Los Angeles í dag. Nokkrar kröfur verðar teknar fyrir og er þá helst horft til kröfu móður hennar, Lynne Spears, um að Britney fái að ráða sér einkalögmann. 

Fyrirtakan hefst klukkan 13.30 að staðartíma í Los Angeles eða klukkan 20.30 að íslenskum tíma.

Mál tónlistarkonunnar hefur farið hátt undanfarinn mánuð eftir að hún ávarpaði dómara í fyrsta skipti. Þar lýsti hún óánægju sinni með ástandið og því hversu óhamingjusömu hún hafi verið í mörg ár.

Lögmaður Spears til margra ára sagði sig frá máli hennar nýlega og hefur hann lagt fram ósk um að dómari skipi annan lögmann. Móðir hennar vill hins vegar að hún fái að ráða sér einkalögmann. Spears hefur nú þegar ráðfært sig við lögmanninn Mathew Rosengart. 

Þá hefur Jamie Spears, faðir tónlistarkonunnar, óskað eftir því að vitnisburður dóttur hans hinn 23. júní verði rannsakaður. Hann vill að ásakanir á hendur honum verði færðar yfir á Jodi Montgomery, sem hefur verið lögráðamaður hennar í tæp tvö ár. Jamie Spears var lögráðamaður hennar frá 2008 til 2019.

Montgomery hefur óskað eftir fjárveitingu, 51 þúsund bandaríkjadölum, úr sjóðum tónlistarkonunnar til þess að ráða sér öryggisverði á vakt allan sólarhringinn. Montgomery hefur fengið morðhótanir eftir að tónlistarkonan ávarpaði dómara. Dómari þarf að heimila fjárveitinguna. 

Bessemer Trust, fjármálafyrirtæki sem hefur farið með umboð yfir fjármálum tónlistarkonunnar, óskaði eftir því í byrjun júlí að falla frá fyrirkomulaginu. Ósk fyrirtækisins verður tekin fyrir og þá er spurningin hver tekur við fjármálum Spears.

Auk þessara mála þarf að staðfesta ársreikninga og gjöld sem hafa verið greidd úr sjóðum tónlistarkonunnar. Þar á meðal eru laun lögmanna og lögráðamanna. Hálf önnur milljón bandaríkjadala hefur farið í lögfræðikostnað frá því í október á síðasta ári. Laun Jamie Spears og Montgomery eru 18 þúsund bandaríkjadalir á mánuði auk greiðslna sem þau hafa samið sérstaklega um. Ekki er vitað hversu háar fjárhæðirnar eru í heildina. 

Verður Britney frelsuð að lokum?

Stóra spurningin er hvort Spears hafi óskað eftir því að hún fái sjálfstæði sitt aftur. Lögum samkvæmt hefði hún getað óskað eftir því nokkrum dögum eftir að hún ávarpaði dómara. Að lögmaður hennar hafi sagt sig frá málinu hefur þó flækt málin. 

Ef dómari metur það svo að hún sé fullfær um að velja sér nýjan einkalögmann þá getur hún sótt um að endurheimta sjálfstæði sitt aftur. Hins vegar getur Jamie Spears mótmælt kröfunni. Ef hann gerir það þarf að blása til réttarhalda og dómari þarf að taka ákvörðun. 

Fjöldafundir hafa verið skipulagðir vítt og breitt um Bandaríkin.
Fjöldafundir hafa verið skipulagðir vítt og breitt um Bandaríkin. AFP

Fjöldafundir um öll Bandaríkin

Aðdáendur tónlistarkonunnar hafa fylkt liði að baki henni undanfarin ár og hefur #FreeBritney-hreyfingin stigmagnast undanfarna mánuði. Aðdáendur hennar hafa haldið því fram í nokkur ár að söngkonunni sé haldið fanginni af föður hennar. 

Vitnisburður Spears fyrir dómara í síðasta mánuði virðist hafa staðfest kenningar hreyfingarinnar að einhverju leyti. Aðdáendur hafa nú skipulagt fjöldafundi í stærstu borgum Bandaríkjanna í dag. 

Í Los Angeles mun hreyfingin hittast fyrir utan dómsalinn. Í Washington D.C. verður einnig fjöldafundur og í New York. 

New York Times

The Guardian

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Mjög heppilegur dagur til að eiga við yfirboðara því þeir eru opnir fyrir hugmyndum þínum og tillögum í dag. Þú ættir að hvíla þig meira.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Mjög heppilegur dagur til að eiga við yfirboðara því þeir eru opnir fyrir hugmyndum þínum og tillögum í dag. Þú ættir að hvíla þig meira.