Britney óskaði ekki eftir frelsi

Lögmaður Britney Spears hefur óskað eftir því að sjálfstæður endurskoðandi …
Lögmaður Britney Spears hefur óskað eftir því að sjálfstæður endurskoðandi fái umboð til að fara fyrir fjármálum tónlistarkonunnar. AFP

Samkvæmt gögnum sem nýr lögmaður tónlistarkonunnar Britney Spears, Mathew Rosengart, hefur skilað inn til dómara er ekki farið fram á að Spears endurheimti frelsi sitt aftur. 

Farið er fram á að Jamie Spears, faðir söngkonunnar, missi völd sín og að þau völd verði sett í hendur sjálfstæðs endurskoðanda. Lagt er til að endurskoðandinn Jason Rubin taki við fjármálum tónlistarkonunnar. 

Rosengart rökstuddi beiðnina með því að dómari hafi komist að því að Spears væri nógu hæf til að velja sér sinn eigin lögmann og því ætti hún að vera nógu hæf til að óska eftir því að faðir hennar muni ekki koma meira að málum hennar. 

Rosengart, sem tók við máli Spears um miðjan júlí, hefur heitið því að ganga strax í málin og verja hagsmuni söngkonunnar sem barist hefur fyrir því að losna undan stjórn föður síns í tvö ár. 

Faðir hennar hafði verið lögráðamaður hennar í 11 ár, eða þar til haustið 2019, þegar hann steig tímabundið til hliðar vegna veikinda. Hann stefndi að því að taka aftur við málum hennar þegar hann hafði náð heilsu en Spears hefur barist gegn því. Þá hefur Jodi Montgomery séð um hennar mál síðan, auk þess sem fjármálafyrirtæki hafði umboð til að sinna fjármálum hennar tímabundið. Fyrirtækið hefur óskað eftir því að losna undan þeim samningum. 

Spears bar vitni fyrir dómara í byrjun júní þar sem hún sagði fyrirkomulagið vera ofbeldi og vakti vitnisburður hennar mikla athygli. Þá staðfesti vitnisburður hennar kenningar aðdáenda hennar um að henni væri haldið gegn vilja sínum. 

Síðan þá hefur Spears tjáð sig mun meira um fyrirkomulagið, borið aftur vitni fyrir dómara og birt færslur á samfélagsmiðlum. 

Mathew Rosengart er lögmaður Britney Spears.
Mathew Rosengart er lögmaður Britney Spears. AFP
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er ekki hyggilegt að hleypa málum af stað án þess að reyna að sjá framvinduna fyrir. Ekki eyða tímanum í samviskubit yfir því að hafa ekki lagt nóg af mörkum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er ekki hyggilegt að hleypa málum af stað án þess að reyna að sjá framvinduna fyrir. Ekki eyða tímanum í samviskubit yfir því að hafa ekki lagt nóg af mörkum.