Helgi verslunarmanna heima í stofu

Helgi Björns fyrir utan Hótel Borg, en þaðan verður hann …
Helgi Björns fyrir utan Hótel Borg, en þaðan verður hann með streymistónleika á laugardagskvöld ásamt Reiðmönnum vindanna. mbl.is/Árni Sæberg

Helgi Björnsson, tónlistarmaður, leikari og þjóðargersemi, mun annað kvöld trylla lýðinn í beinni útsendingu frá Hótel Borg.

„Þetta eru bara tónleikar í beinni,“ sagði Helgi þegar Morgunblaðið náði tali af honum. „Ekki ólíkt því sem við höfum verið að gera með Heima með Helga og Það er komin Helgi.“

Þættirnir Heima með Helga féllu vægast sagt í kramið hjá þjóðinni á síðasta ári meðan skemmtanalíf lá alfarið niðri og hlaut Helgi til að mynda fálkaorðu fyrir það framtak.

Þessir tónleikar voru aftur á móti skipulagðir í maí með það í huga að lýðurinn væri allur bólusettur. Sú staða sem nú er komin upp vegna sóttvarnamála er því tilviljun.

„Hugmyndin var, þegar við ákváðum þetta í vor, að bjóða upp á valkost fyrir þá sem vilja vera heima, uppi í sumarbústað eða hér og þar, þá sem vilja ekki endilega fara á neitt flandur,“ segir Helgi.

„Við vildum bjóða upp á þann valkost að geta bara stillt inn á sjónvarpið og fengið tónleika í beinni eins og maður þekkir og hefur nú séð áður. Það verða engir áhorfendur. Við verðum bara með beina útsendingu frá Borginni.“

Sama stemning og áður

– Bara sama stemning og í Heima með Helga? „Já algjörlega. Eins og áður þá verðum við með fullt af skemmtilegum gestum og óvæntum uppákomum og svo framvegis,“ segir Helgi án þess að vilja spilla of mikið fyrir þættinum sjálfum.

Spurður hvort tónleikarnir verði meira grand, nú þegar þau eru komin með hinn glæsilega art deco-stíliseraða Pálmasal undir tónleikana, svarar hann játandi.

„Meira grand? Ekki spurning. Við verðum með marga gesti og notum Borgina sem stúdíó. Erum þarna við Austurvöll.“

Þá verða Reiðmenn vindanna með honum. „Svo ætla ég að bæta við einum slide- og munnhörpuleikara,“ segir Helgi og á þá við Þorleif Gauk Davíðsson, sem kallaður er Gaukur og hefur undanfarið gert garðinn frægan innan tónlistarheimsins með munnhörpu- og slide-gítarleik.

Alveg eins og Eurovision

Þá segir Helgi að líkja megi stemningunni við Eurovisionpartí. „Þú ert kannski með grillpartí heima og familían eða vinirnir koma. Síðan ferðu bara að grilla. Svo byrjar útsendingin og þú getur farið inn í eldhús að skála. Þá kemur kannski lagið þitt og þá er allt sett í botn! Allir í stuði bara.“

– Í rauninni bara ný tegund tónleikahalds sem er komið til að vera?

„Já, algjörlega. Það er líka svo gaman að geta boðið upp á þennan valmöguleika,“ segir Helgi og bætir við að það sé einfalt að fá miða.

„Þetta er mjög einfalt; ferð bara inn á þessar veitur og smellir á skiltið okkar. Ert leiddur inn, færð bara reikninginn seinna og þarft ekkert að gera meir. Eins einfalt og hægt er.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er ekki hyggilegt að hleypa málum af stað án þess að reyna að sjá framvinduna fyrir. Ekki eyða tímanum í samviskubit yfir því að hafa ekki lagt nóg af mörkum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er ekki hyggilegt að hleypa málum af stað án þess að reyna að sjá framvinduna fyrir. Ekki eyða tímanum í samviskubit yfir því að hafa ekki lagt nóg af mörkum.