Mikilvægt að hafa þolinmæðina að vopni

Fatahönnuðurinn Halldóra Sif Guðlaugsdóttir fluttist heim frá Bretlandi fyrir nokkrum árum eftir að hafa starfað fyrir tískurisann Alexander McQueen. Eftir heimkomu stofnaði hún sína eigin tískulínu sem ber nafnið Sif Benedicta og hefur vakið athygli víða.

Silkiklútarnir hennar eru tímalausir og fallegir og hafa meðal annars birst í tískutímaritum á borð við Vogue. Halldóra segir mikilvægt að hafa þolinmæðina með sér í liði í rekstrinum en hún kynnti fyrstu fylgihlutalínuna sína hér heima í desember 2018. Viðtökurnar voru góðar en hún þurfti þó að bíða róleg eftir að boltinn færi að rúlla.

„Þetta er alltaf svona. Þegar þú ert að koma með eitthvað nýtt finnst mér kannski Íslendingar þurfa bara að meðtaka þetta, sjá þetta nokkrum sinnum, af því þetta var svona litríkt og svolítið öðruvísi en bara mjög skemmtilegt,“ segir Halldóra, sem reynir að setja ekki út of mikið í einu.

„Ég ákvað að reyna að gera eina línu á ári, ekki eitthvað að gera fjórar eða vera í keppni við þetta úti,“ en þekkt er að tískuhús erlendis geri nokkrar línur á ári eftir árstíðum. Ekki er þó eins ýktur árstíðamunur hér á landi og annars staðar. „Ég byrjaði á einni línu og ef það gengi vel þá gæti ég bætt við hægt og rólega. Bara byggja þetta hægt og rólega upp, sem er alveg samt líka krefjandi. Maður vill drífa sig og ef þetta gengur ekki strax þá verður maður smá óþolinmóður og hugsar að þetta virki ekkert en það er svo margt í þessu.“

Halldóra segir eiginmann sinn hafa staðið þétt við bakið á sér í gegnum allt ferlið og alltaf hvatt sig áfram við að elta drauma sína. „Þá er gott að vera með góðan í liðinu með þér eins og ég myndi segja að maðurinn minn væri og góðan stuðning frá fjölskyldu,“ segir Halldóra og bætir við að þau séu dugleg að minna hana á að allt verði í lagi. Eiginmaður Halldóru hefur hjálpað henni mikið með viðskiptahliðina á fyrirtækinu en hún segir einnig mikilvægt að taka sér sinn tíma til að láta hlutina þróast. „Maður þarf svolítið að finna út úr þessu sjálfur til þess að komast áfram.“

Viðtalið við Hall­dóru Sif má finna í fullri lengd með því að smella hér.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gættu þess að segja ekkert það sem þú kannt að iðrast seinna meir. Hvað sem þú tekur þér fyrir hendur mun koma þér vel í framtíðinni.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gættu þess að segja ekkert það sem þú kannt að iðrast seinna meir. Hvað sem þú tekur þér fyrir hendur mun koma þér vel í framtíðinni.