Mun gera allt sem þú segir!

Nicole Kidman í hlutverki hinnar dularfullu Möshu í Nine Perfect …
Nicole Kidman í hlutverki hinnar dularfullu Möshu í Nine Perfect Strangers. AFP

Nicole Kidman var í karakter frá fyrstu til síðustu töku við gerð sjónvarpsþáttanna Nine Perfect Strangers en þar leikur hún harða bisnesskonu sem snúið hefur sér að hugleiðslu og heilun.

Ástralska kvikmyndastjarnan Nicole Kidman hefur verið fyrirferðarmikil í sjónvarpi undanfarin ár og misseri. Ber þar hæst hina vinsælu og margverðlaunuðu dramaþætti Big Little Lies, en tvær seríur hafa þegar verið gerðar, 2017 og 2019. Kidman þótti ekki ná sér eins vel á strik í sakamálaþáttunum The Undoing ásamt Hugh Grant í fyrra en nýjustu þættirnir, sem hún leikur í, Nine Perfect Strangers, hafa fallið í frjórri jörð og aldrei hafa fleiri horft á fyrsta hluta framhaldsþáttar í sögu efnisveitunnar Hulu en síðasti hlutinn af átta verður sýndur í næstu viku. Allir eiga þessir þrír ólíku þættir það sameiginlegt að sjónvarpsgoðsögnin David E. Kelley er potturinn og pannan á bak við þá og að Kidman sjálf er meðframleiðandi sem bendir alltaf til þess að leikarar hafi fulla trú á verkefnum sínum.

Harðsnúið lið leikur í Nine Perfect Strangers en auk Kidman má nefna Melissu McCarthy, Michael Shannon, Luke Evans, Reginu Hall og Bobby Cannavale.

Kidman leikur hina rússnesku Möshu Dmitrichenko, fyrrverandi bisnesskonu sem breytti um takt í lífinu eftir að henni var sýnt banatilræði. Fyrir kraftaverk lifir hún af og fer í framhaldinu að horfa meira inn á við í lífinu. Sækist eftir friði og ró og einbeitir sér að því að hjálpa öðrum sem eru að bugast í amstri hversdagsins. Masha setur á laggirnar heilsumiðstöðina Tranquillum House, þangað sem vel stætt fólk leitar til að freista þess að græða sár og fá meira út úr lífinu. Og Masha tekur stórt upp í sig – beinlínis lofar að gera fólk heilt og óbrotið á aðeins tíu dögum. Engar undantekningar.

Eins og gengur er fólk misjafnlega tilbúið að opna sig og þiggja meðferðina sem er í boði en áhuginn glæðist eftir því sem fram vindur enda er ekki allt sem sýnist í Tranquillum House – og aðferðirnar ekki endilega hefðbundnar. 

Hin tápmikla Melissa McCarthy leikur rithöfund í tilvistarkreppu í þáttunum.
Hin tápmikla Melissa McCarthy leikur rithöfund í tilvistarkreppu í þáttunum. AFP


Bókstaflega breytist

Þættirnir voru teknir upp í Byron Bay, New South Wales í Ástralíu, frá ágúst til desember á síðasta ári. Auk Kidman fara heimakonurnar Asher Keddie og Samara Weaving með lykilhlutverk í Nine Perfect Strangers og leikhánið Zoe Terakes með smærra hlutverk.

Allir leikararnir, sem komu annars staðar frá, þurftu að fara í fjórtán daga sóttkví og undirgangast skimun áður en tökur gátu hafist. Fram hefur komið að Kidman hafi engan úr leikaraliðinu hitt fyrr en í fyrstu tökunni og að hún hafi verið í karakter, sem Masha Dmitrichenko, fram yfir seinustu senu.

„Ég gerði þetta til að ná betur til hverrar og einnar persónu. Hitt hefði verið afar undarlegt; að mæta á svæðið, taka létt spjall og reyna síðan að smeygja mér inn í Möshu,“ sagði hún í samtali við Variety. „Eftir öll þessi ár þá nálgast ég leiklist ennþá af slíkum krafti. Ég get bókstaflega breyst fyrir hlutverk.“

Regina Hall greindi sama miðli frá því að hún hefði ekki heyrt hina eiginlegu rödd Kidman fyrr en öllum tökum var lokið en hún talar með þykkum rússneskum hreim í þáttunum. Og hin unga bandaríska leikkona Grace Van Patten bætti við: „Hárin risu á handleggjunum á mér. Það var eins og að frumkraftur hefði gengið í salinn. Það var dáleiðandi. Ég hugsaði um leið með mér: Ég mun gera allt sem þú segir.“

Nánar er fjallað um Nine Perfect Strangers í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson