Áskorun að sýna ekki tilfinningar

Leikstjórinn Charlotte Sieling og leikkonan Trine Dyrholm bjóða Margréti Þórhildi …
Leikstjórinn Charlotte Sieling og leikkonan Trine Dyrholm bjóða Margréti Þórhildi Danadrottningu velkomna á frumsýningu myndarinnar í Kaupmannahöfn 8. september. AFP

„Mig hefur lengi langað að koma til Íslands þannig að þegar boð barst frá RIFF breytti ég plönum mínum til að geta þegið það,“ segir danska leikkonan Trine Dyrholm sem er heiðursgestur Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík (RIFF) og fer með titilhlutverkið í kvikmyndinni Margrete den første í leikstjórn Charlotte Sieling sem er lokamynd RIFF. Myndin er sýnd í Bíó Paradís á laugardag kl. 19 og sunnudag kl. 15. Á hátíðinni er einnig sýnd kvikmyndin Dronningen í leikstjórn May el-Toukhy sem hlaut Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2019. Sú mynd er sýnd á laugardag kl. 14.45. Dyrholm situr fyrir svörum eftir sýningu beggja myndanna á laugardeginum. 

Trine Dyrholm fer með hlutverk Margrétar fyrstu í samnefndri stórmynd …
Trine Dyrholm fer með hlutverk Margrétar fyrstu í samnefndri stórmynd sem gerist árið 1402 þegar Kalmarsambandið var í hættu.

Margrete den første gerist að stærstum hluta á rúmri viku árið 1402. Aðeins eru fimm ár liðin frá því Margréti tókst að sameina Danmörku, Noreg og Svíþjóð undir merkjum Kalmarsambandsins sem stjúpsonur hennar, Eiríkur af Pommern, stýrir, en sambandið hélt í ein 126 ár. Fulltrúi frá Englandskonungi er staddur í höll Margrétar þar sem fram fara samningaviðræður um hjónaband Eiríks og Filippu, dóttur Hinriks IV., sem ætlað er að styrkja bandalagið milli Englands og Kalmarsambandsins í baráttu þess síðarnefnda við vaxandi áhrif Hansakaupmanna. Skyndilega birtist við hirðina maður sem segist vera Ólafur sonur Margrétar, sem lést 1387 aðeins 16 ára gamall, en koma hans setur öll áform Margrétar um frið í Kalmarsambandinu í uppnám.

Vil miðla af reynslu minni

Þú vaktir mikla athygli fyrir leik þinn í Dronningen og í nýjustu mynd þinni ferðu með hlutverk raunverulegrar drottningar. Það er því vel skiljanlegt að þú hafir verið nefnd drottning danskrar kvikmyndagerðar. Hvað finnst þér um þann titil?

„Þetta er auðvitað fyrst og fremst leikur að orðum,“ segir Dyrholm og viðurkennir fúslega að hún búi auðvitað yfir mikilli reynslu af kvikmyndagerð eftir að hafa starfað í faginu í um þrjátíu ár. „Með reynslunni kemur líka ábyrgð og því hef ég verið upptekin af því að vera til staðar sem mentor fyrir ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í bransanum Til mín leitar fjöldi ungra kvenna og líka einstaka karl sem vill leita ráða hjá mér og ræða við mig, sem aftur veitir mér mikinn innblástur. Ég skal því gjarnan vera drottning danskrar kvikmyndagerðar ef það felur í sér að leiða fólk saman í skapandi ferli, deila reynslu og læra af öðrum, en ég hef engan áhuga á að ráðskast með einn eða neinn.“

Tinna Hrafnsdóttir leikur í kvikmyndinni Margrete den første.
Tinna Hrafnsdóttir leikur í kvikmyndinni Margrete den første.

Hvað þarf handrit að hafa til þess að þú viljir taka að þér hlutverk?

„Handrit sem heilla mig bjóða upp á góða, sammannlega sögu samtímis því sem persónur eru margslungnar. Í tilfelli Margrétar heillaði það mig hversu flókin persóna hún er og mig langaði að rannsaka hana betur. Samtímis fannst mér spennandi að leika í stórmynd, en slík tækifæri gefast ekki á hverjum degi í Danmörku,“ segir Dyrholm, en Margrete den første mun vera dýrasta kvikmyndin sem framleidd hefur verið í Danmörku þar sem hún kostaði um 70 milljónir danskra króna. „Einnig heillaði það mig hversu fjölþjóðleg myndin er,“ segir Dyrholm en í myndinni er leikið á dönsku, sænsku, norsku, ensku og þýsku.

„Charlotte Sieling brann fyrir því að gera mynd um Margréti fyrstu en langaði ekki að gera hefðbundna ævisögu sem spannaði alla ævi hennar. Þegar hún og samstarfsfólk hennar fóru að grúska í sagnfræðibókum rákust þau á örstutta lýsingu á því að 1402 hafi maður haldið því fram að hann væri löngu látinn sonur drottningar. Þessir atburðir skapa ytri ramma myndarinnar sem Charlotte og meðhandritshöfundar hennar geta spunnið frjálst innan,“ segir Dyrholm. Sieling samdi handritið í samvinnu við Jesper Fink og Mayu Ilsøe, en þeim til skrafs og ráðagerðar var sagnfræðingurinn Vivian Ettings sem sérhæft hefur sig í Margréti fyrstu.

Varð að spara tilfinningarnar

„Starf mitt byggist á virku ímyndunarafli. Þótt ég setji mig vel inn í ólíkar aðstæður vil ég hafa frelsi til að ímynda mér hvernig til dæmis Margrét hefði brugðist við í gefnum aðstæðum,“ segir Dyrholm og tekur fram að í sínum huga snúist grunnþema Margrete den første um það hvort og hvernig hægt sé að setja persónulegar þarfir og langanir til hliðar í þeim tilgangi að þjóna stærri heild. „Margrét er sem þjóðhöfðingi drifin áfram af hugsjóninni um frið, en það reynist henni dýrkeypt persónulega. Í vinnunni við gerð myndarinnar fannst mér einstaklega spennandi að skoða og miðla því hvenær Margrét er í hlutverki valdamanneskjunnar og hvenær hún er í móðurhlutverkinu. Stöðu sinnar vegna hefur hún ekki efni á því að sýna tilfinningar.“

Trine Dyrholm í kvikmyndinni Margrete den første. Dyrholm segir Margrét …
Trine Dyrholm í kvikmyndinni Margrete den første. Dyrholm segir Margrét stöðu sinnar vegna ekki mega sýna tilfinningar opinberlega þar sem sótt er að henni og ríki hennar.

Hvernig gekk þér sem leikari að miðla líðan Margrétar án þess að mega sýna of mikið?

„Það var mér töluverð áskorun til að byrja með,“ segir Dyrholm og rifjar upp að fyrstu tvær tökuvikurnar hafi farið í að taka upp fjölmennar senur við hirðina, þar á meðal réttarhöldin yfir manninum sem fullyrðir að hann sé Ólafur sonur drottningar. „Sú Margrét sem þar birtist er opinbera manneskjan í hlutverki þjóðhöfðingja. Charlotte var stanslaust að minna mig á að ég mætti ekki sýna of miklar tilfinningar í þessum senum, sem mér fannst mjög erfitt þar til ég áttaði mig á því að aðstæðurnar gera það að verkum að Margrét þarf að vera ólesanleg tilfinningalega því annars gefur hún á sér höggstað,“ segir Dyrholm og áréttar að hún sem leikari sé mjög tilfinninganæm. „Ég varð því að spara tilfinningarnar til þeirra stunda þegar Margrét getur leyft sér að vera prívatpersóna.“

Kvikmyndatökurnar höfðu ekki staðið lengi þegar öllu var skellt í lás um óákveðinn tíma vegna kórónuveirufaraldursins. Hvaða áhrif hafði það á gerð myndarinnar?

„Ég játa það hiklaust að þetta var alveg hræðilegt. Við vorum í miðjum næturtökum í stórri höll í Tékklandi þegar boð bárust þess efnis að gera þyrfti ótímabundið hlé á gerð myndarinnar þegar tökunóttinni lyki og við þyrftum að fljúga heim hvert í sína áttina morguninn eftir,“ segir Dyrholm og tekur fram að allt hafi virkað svo óraunverulegt á þessum tíma. „Að tveimur mánuðum liðnum fengum við skilaboð um að tökur myndu hefjast aftur eftir mánuð,“ segir Dyrholm og bendir á að mikil og falleg samstaða hafi ríkt hjá öllum sem að gerð myndarinnar komu. „Sem dæmi samþykkti allur leikhópurinn að einangra sig í Tékklandi í sameiginlegri kúlu þann tíma sem tökur stóðu, jafnvel þótt sumir leikaranna væru aðeins í litlum hlutverkum og þyrftu því að bíða töluvert á milli upptaka. Þannig sýndu allir ótrúlega mikið örlæti og væntumþykju í garð myndarinnar, sem ég er sannfærð um að skili sér inn í lokaafurðina,“ segir Dyrholm og rifjar upp að leikhópurinn hafi varið miklum tíma saman í kjallara hótelsins, þar sem þau bjuggu. „Þar borðuðum við saman og æfðum leiktextann þess á milli sem við áttum langar og gefandi samræður um lífið, dauðann og óvissuna. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hægt hafi verið að klára myndina og ber ómælda virðingu fyrir þeim sem þar drógu vagninn.“

Leikkonan Trine Dyrholm og Charlotte Sieling leikstjóri kvikmyndarinnar Margrete den …
Leikkonan Trine Dyrholm og Charlotte Sieling leikstjóri kvikmyndarinnar Margrete den første. Ljósmynd/Robin Skjoldborg

Lítið upptekin af sjálfri mér

Þú hefur á ferli þínum ekki aðeins leikið á dönsku heldur einnig ensku og þýsku. Hvaða þýðingu hefur tungumálið fyrir þér sem leikari?

„Eðlilega upplifi ég mest öryggi sem leikari þegar ég leik á móðurmáli mínu. En stundum getur það einmitt gagnast hlutverkinu að ég sé á leika á framandi tungumáli,“ segir Dyrholm og rifjar í því samhengi upp myndina Nico, 1988 frá 2017 þar sem hún fór með hlutverk hinnar þýsku Christu Päffgen sem þekkt var sem Nico, en myndin var leikin á ensku. „Ég upplifi mig alltaf svolítið berskjaldaða þegar ég leik á öðru tungumáli en dönsku og því vel ég slík hlutverk af mikilli kostgæfni.“

Talandi um að vera berskjölduð, þá virðist þú eiga auðvelt með að koma nakin fram þegar þess þarf.

„Já, ég er svo lánsöm að vera tiltölulega laus við hégóma þegar ég er að leika og lítið upptekin af sjálfri mér,“ segir Dyrholm og tekur fram að sér finnist aldrei neitt mál að vera ljót eða gömul á hvíta tjaldinu. „Þegar ég er að leika verð ég svo upptekin af því að upplifa hlutina og sjá með augum persónunnar sem ég leik að ég gleymi sjálfri mér algjörlega. Ef ég yrði of upptekin af því hvernig ég liti út í hlutverkinu þá myndi ég skyggja á persónuna og efnið, sem ég vil alls ekki.“

Trine Dyrholm hefur verið nefnd drottning danskrar kvikmyndagerðar. „Þetta er …
Trine Dyrholm hefur verið nefnd drottning danskrar kvikmyndagerðar. „Þetta er auðvitað fyrst og fremst leikur að orðum,“ segir Dyrholm og viðurkennir fúslega að hún búi auðvitað yfir mikilli reynslu af kvikmyndagerð eftir að hafa starfað í faginu í um þrjátíu ár. „Ég skal því gjarnan vera drottning danskrar kvikmyndagerðar ef það felur í sér að leiða fólk saman í skapandi ferli, deila reynslu og læra af öðrum, en ég hef engan áhuga á að ráðskast með einn eða neinn.“ AFP

En aftur að Margréti. Hvaða senu var vandasamast að leika?

„Þær voru nokkrar og áttu það allar sameiginlegt að vera mjög tilfinningaríkar,“ segir Dyrholm og nefnir í því samhengi meðal annars senu sem tekin er upp í kirkju þar sem Margrét og Peder Lodehat biskup, sem Søren Malling leikur, takast á um fortíðina. „Stærsta áskorun mín við gerð þessarar myndar var að finna manneskjuna innan undir öllu ytra prjálinu sem fylgir þjóðfélagsstöðu hennar, hvort heldur það eru glæsilegir kjólar, flottar hárgreiðslur eða krúnan,“ segir Dyrholm og tekur fram að styrkur Sieling sem leikstjóra liggi meðal annars í því að hún sé sjálf menntaður leikari.

„Þetta er þriðja kvikmyndin sem Charlotte leikstýrir, en hún hefur leikstýrt fullt af sjónvarpsefni,“ segir Dyrholm og nefnir í því samhengi Homeland. „Með reynslunni kemur mikið öryggi og góð yfirsýn á tökustað þar sem hún er afar fær verkstjóri. Samtímis er hún frábær persónuleikstjóri og mjög upptekin af öllu samspili í senum. Fyrir vikið tekst henni að búa til stórmynd þar sem áhorfendur standa samt persónum nærri. Þetta finnst mér afar góð og áhugaverð blanda.“

Charlotte Sieling, Trine Dyrholm og Margrét Þórhildur Danadrottning. Hún tók …
Charlotte Sieling, Trine Dyrholm og Margrét Þórhildur Danadrottning. Hún tók sér titilinn Margrét II. til að heiðra Margréti I. sem þó var aldrei Danadrottning heldur drottning yfir Noregi. Hún var engu að síður valdamesta kona miðalda. AFP

Áhugaverð hlutverk frá konum

Þú hefur á ferli þínum unnið með mörgum eftirtektarverðum kvenkyns leikstjórum, þeirra á meðal Pernille Fischer Christense, Annette K. Olesen, Susanne Bier, Pernillu August, May el-Toukhy og Charlotte Sieling. Er það tilviljun eða meðvitað val í annars karllægum bransa?

„Ég kynntist og vann töluvert með Pernille Fischer Christense og Annette K. Olesen snemma á ferlinum. Þær veittu mér tækifæri til að taka þátt í sköpunarferlinu allt frá handritsgerðinni, sem mér finnst alltaf spennandi. Ég hef verið svo lánsöm að fjöldi kvenkyns leikstjóra hefur leitað til mín með góðar sögur og áhugaverð hlutverk, sem ég hef fengið tækifæri til að þróa áfram,“ segir Dyrholm og nefnir í því samhengi margra ára samstarf við May el-Toukhy sem varð að verðlaunamyndinni Dronningen. „Í Arvingerne, sem Pernilla August átti frumkvæðið að, var líka fjöldi kvenkyns leikstjóra,“ segir Dyrholm sem sjálf leikstýrði tveimur þáttum í þeirri þáttaröð.

Í Dronningen fer Trine Dyrholm með hlutverk Önnu sem hættir …
Í Dronningen fer Trine Dyrholm með hlutverk Önnu sem hættir hjónabandi sínu og starfsframa þegar hún fer að sýna ungum stjúpsyni sínum kynferðislegan áhuga.

„Ég hef auðvitað líka unnið með mörgum eftirtektarverðum karlkyns leikstjórum, en var einmitt að hugsa um það nýverið hversu margir kvenkyns leikstjórarnir eru sem ég hef unnið með, ekki síst í ljósi þess að þær eru almennt mun færri í faginu en karlarnir. Það hefur þannig aldrei verið meðvituð ákvörðun hjá mér að vinna frekar með konum en körlum í hópi leikstjóra heldur hafa hlutverkin og sögurnar ráðið för og þar hef ég kynnst kvenkyns leikstjórum sem hafa haft áhuga á að segja spennandi sögur margslunginna kvenna með blæbrigðaríkum hætti,“ segir Dyrholm og bætir við að vonandi komi sá tímapunktur að kyn skipti ekki máli eða skilgreini fólk og tækifæri þess í samfélaginu.

Dáist að Benedikt og Halldóru

Fyrr á árinu upplýsti Benedikt Erlingsson í viðtali við Morgunblaðið hann myndi leikstýra þér í sjónvarpsseríunni Danska konan þar sem þú ferð með titilhlutverkið. Hvernig leggst það í þig?

„Ég hlakka mjög mikið til, enda er þetta afar spennandi verkefni sem heillaði mig strax þegar ég las hugmyndirnar sem Benedikt sendi mér. Ég er mikill aðdáandi Benedikts eftir að hafa hrifist af myndum hans,“ segir Dyrholm og tekur fram að hún sé líka mikill aðdáandi Halldóru Geirharðsdóttur, sem fer með lítið en mikilvægt hlutverk í Margrete den første. „Myndin er full af flottum norrænum leikurum sem eru vanir að fara með aðalhlutverkið, en taka að sér lítil og mikilvæg hlutverk, sem þeir skila með þvílíkum glans – eins og í tilfelli Halldóru. Á örfáum mínútum tekst henni að miðla svo ótrúlega miklu af mikilvægum upplýsingum og samtímis gefa mikið af sér tilfinningalega, sem gefur myndinni aukna dýpt,“ segir Trine Dyrholm að lokum. Viðtalið við hana birtist fyrst á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag, fimmtudaginn 7. október. 

Halldóra Geirharðsdóttir fer með lítið en mikilvægt hlutverk í kvikmyndinni …
Halldóra Geirharðsdóttir fer með lítið en mikilvægt hlutverk í kvikmyndinni Margrete den første.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er engin ástæða til þess að láta aðra komast upp með að borga ekki skuldir sínar. Hikaðu ekki við að segja hvernig þér líður. Ekki láta plata þig upp úr skónum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er engin ástæða til þess að láta aðra komast upp með að borga ekki skuldir sínar. Hikaðu ekki við að segja hvernig þér líður. Ekki láta plata þig upp úr skónum.