Extreme Chill-tónlistarhátíðin hefst í dag

Roger Eno leikur á Extreme Chill tónlistarhátíðinni annað kvöld.
Roger Eno leikur á Extreme Chill tónlistarhátíðinni annað kvöld.

Extreme Chill-tónlistarhátíðin hefst í dag og stendur fram á sunnudag, en þetta er í ellefta sinn sem hátíðin er haldin. Raftónlist hefur verið áberandi á hátíðinni í gegnum árin, en í raun hefur alls kyns tónlist fengið að hljóma á henni og svo er einnig í ár, því boðið er upp á raftónlist, sveimkennda hljóma, tilraunadjass, óhljóðalist og nýklassík meðal annars.

Upplýsingar og dagskrá má finna á slóðinni extremechill.org og þar kemur fram að flytjendur á hátíðinni að þessu sinni eru raftónlistarfrumkvöðlarnir í Plaid, Roger Eno, Mixmaster Morris, Bjarki + Mathilde Caeyers & Arrtu Niemenen, Borgar Magnason, Brynjar Daðason, Hafdís Bjarnadóttir, búlgarski tónlistarmaðurinn E.U.E.R.P.I, Flaaryr, Futuregrapher, Harp & Arp, Hekla, Hermigervill, Ingibjörg Turchi, Jóhann Eiríksson, Kjartan Hólm, Kraftgalli, MSEA, Nico Guerrero, Orang Volante, Reptilicus, Skurken, Soddill og Tonik Ensemble. Hátíðin verður haldin á fjórum stöðum; í Kaldalóni í Hörpu, á Húrra, á Kex og Space Odyssey á Skólavörðustíg.Eins og jafnan þá eru þeir listamenn sem fram koma á hátíðinni ýmist íslenskir eða erlendir, enda má lesa á vefsetri hátíðarinnar að það er beinlínis á stefnuskrá hátíðarhaldara að ýta undir samskipti og tengsl innlendra og erlendra tónlistarmanna í von um að það greiði íslenskum listamönnum leið ytra og verði einnig til tónlistarlegs samstarfs eða samskipta. Sumir þeirra innlendu listamanna sem fram koma að þessu sinni hafa haslað sér völl ytra, til að mynda Bjarki Rúnar Sigurðarson, en einnig koma fram erlendir tónlistarmenn sem sest hafa að hér á landi og auðgað íslenskt tónlistarlíf.

Fyrsta Extreme Chill-hátíðin var haldin á Hellissandi í ágúst 2010 og hefur verið haldin víða um heim eftir það, þar á meðal í Vík, Reykjavík og Berlín, oft í samstarfi við aðrar tónlistarhátíðir eða viðburði.

Hæfileikamikill hljóðfæraleikari

Meðal helstu gesta Extreme Chill-hátíðarinnar að þessu sinni eru breska tónlistartvíeykið Plaid, sem heimsækir Ísland í annað sinn, og tónlistarmaðurinn Roger Eno sem leikur á tónleikum í Kaldalómi í Hörpu annað kvöld. Roger Eno er yngri bróðir Brians Enos og hefur gert plötur með honum aukinheldur sem hann hefur gefið út sólóplötur, samið kvikmyndatónlist og tekið þátt í fjölbreyttu samstarfi. Ólíkt bróður sínum, sem hefur sagt að hann sé ekki tónlistarmaður, er Brian Eno hæfileikamikill hljóðfæraleikari, leikur á fjölda hljóðfæra og er að auki fyrirtaks söngvari. Í viðtali segir hann að það hafi valdið straumhvörfum í lífi hans þegar hann barnungur tók upp kornett og blés í það af rælni – þá um leið einsetti hann sér að tónlist yrði hans ævistarf og hefur gengið eftir.

Það er þó sitthvað að vera fær hljóðfæraleikari og að vera tónsmiður, en Eno segist snemma hafa tekið upp á því að semja tónlist, það hafi nánast komið af sjálfu sér: „Sennilega réð mestu um það að ég fór að semja tónlist að að ég kynntist verki Erics Saties, enda heyrði ég þá að ekki þurfti flugeldasýningar til að gera tónlist eftirminnilega og hrífandi. Ég var alltaf gefnari fyrir hægu kaflana í sinfóníum en flóknari hluta þeirra, sem mér fannst oft tilgerðalegir. Þegar ég byrjaði að semja tónlist var það því með það tvennt í huga að halda í einfaldleikann og fara fetið.“

Kenndi sér á önnur hljóðfæri

Eins og nefnt var þá leikur Roger Eno á fjölmörg hljóðfæri. Þótt það hafi þurft kornett til að hann félli gersamlega fyrir tónlistinni segir hann að systir hans hafi verið að læra á píanó og hann hafi því verið búinn að fikta aðeins við það. Síðan fór hann að spila á rafmagnsorgel. Þegar hann var svo kominn í tónlistarskóla að læra á kornettið lærði hann á píanó sem annað hljóðfæri. „Ég var einstaklega heppinn með kennara, enda leyfði hann mér að sleppa skalaæfingum að mestu leyti og leggja þess meiri áhuga á að læra á hljóm hljóðfærisins og ná tökum á honum í spilamennsku.“

„Á þeim tíma kenndi ég mér líka á önnur hljóðfæri, oft með því að troða upp með hinum og þessum hljómsveitum; spilaði á gítar með þjóðlagasveitum, bassa í pönksveit, túbu í þýskri lúðrasveit og síðar á harmonikku, írska flautu, blokkflautu, mandólín, banjó, munnhörpu og svo framvegis. Uppáhaldshljóðfærið mitt er þó píanóið, það er það hljóðfæri sem ég gleymi mér við og er sífellt að uppgötva nýjar hliðar á því. Alla jafna byrja ég lagasmíðar á því að taka upp spunakennda hljóma sem ég síðar vinn frekar, reyni að henda út ónauðsynlegum nótum, legg áherslu á þagnirnar eða reyni að móta hljóma.“

Hughrifa- eða andrúmstónlist

Roger Eno og Brian bróðir hans eru gjarna flokkaðir sem ambient-tónlistarmenn, sem snarað hefur verið á íslensku sem hughrifa- eða andrúmstónlist. Aðspurður um þessa flokkun segist Brian Eno ekki kunna við ambient-merkimiðann, hann kjósi frekar að lýsa verkum sínum svo að hann sé eða semja kvikmyndatónlist án kvikmyndar. „Mér finnst afskaplega skemmtilegt að vinna tónlist með myndefni í huga og nota oft sértilbúnar stuttmyndir á tónleikum. Þegar ég var yngri setti ég listaverkabækur á nótnastandinn á píanóinu og spann tónlist við myndirnar. Þessar æfingar koma mér svo til góða þegar ég hef spilað og samið fyrir söngleiki og kvikmyndir – mér finnst tónlist frábær sem samin er til að gegna einhverju hlutverki, tónlist sem hefur áhrif á það hvernig fólk upplifir senu í kvikmynd, býr til eftirvæntingu eða spennu, óhug og frelsun – tónlist er mesta listformið.

Ég ætla einmitt að leika þannig tónlist í Kaldalóni á föstudaginn, ég er með klukkutíma langa kvikmynd sem gerð er úr ljósmyndum sem ég hef tekið, flestar umhverfis heimili mitt, sem vinur minn, listamaðurinn Dom Theobald, vann svo. Kvikmyndin leyfir áheyrendum að tengja saman það sem þeir sjá og heyra, að leggja upp í eigin ferðalag.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er engin ástæða til þess að láta aðra komast upp með að borga ekki skuldir sínar. Hikaðu ekki við að segja hvernig þér líður. Ekki láta plata þig upp úr skónum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er engin ástæða til þess að láta aðra komast upp með að borga ekki skuldir sínar. Hikaðu ekki við að segja hvernig þér líður. Ekki láta plata þig upp úr skónum.