„Höfum gert eitthvað þarna sem virkar“

Hannes Þór Halldórsson er leikstjóri Leynilöggunnar.
Hannes Þór Halldórsson er leikstjóri Leynilöggunnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Leynilögga, fyrsta kvikmynd Hannesar Þórs Halldórssonar í fullri lengd, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Locarno í Sviss í ágúst við góðar undirtektir og var Hannes viðstaddur frumsýningu ásamt leikurum og helstu aðstandendum myndarinnar. Hún er einnig sýnd á kvikmyndahátíðinni í London sem hófst 5. október og verður frumsýnd hér á landi 20. október.

Hannes er öllu þekktari fyrir afrek sín á fótboltavellinum en á hvíta tjaldinu en nú kann að verða breyting þar á. Þótt þetta sé hans fyrsta kvikmynd hefur hann verið viðriðinn kvikmyndalistina allt frá hann var drengur og leikstýrt stuttmyndum, tónlistarmyndböndum og auglýsingum meðfram boltanum.

Hannes gerði sína fyrstu stuttmynd 12 ára og í menntaskóla fór hann að sinna kvikmyndalistinni af meiri alvöru, að eigin sögn, og gerði stuttmyndir og þætti. „Síðan byrjaði ég að vinna við þetta strax eftir að ég hætti í Versló, þegar ég var tvítugur, og er búinn að starfa sem kvikmyndagerðarmaður í fimmtán ár en aðallega í auglýsingum og slíku,“ segir Hannes.

Byrjaði sem grínstikla

Leynilögga er grín-, hasar- og löggumynd (eins og sést glöggt af stiklu hennar) og segir af lögreglumanni sem á bæði í baráttu við sjálfan sig, persónlegar áskoranir og stórhættulega glæpamenn. Lögguna leikur Auðunn Blöndal og með önnur helstu hlutverk fara Egill Einarsson, Sverrir Þór Sverrisson/ Sveppi, Steinþór Hróar Steinþórsson/ Steindi jr., Vivian Ólafsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Björn Hlynur Haraldsson. Leynilögreglumaðurinn sem Auðunn leikur er auðvitað þreyttur, pirraður og þunnur og nennir þessu ekki, að sögn Hannesar, og þarf að horfast í augu við eigin fordóma til að verða betri og heilsteyptari maður.

Hugmyndin að myndinni kviknaði árið 2011. „Við gerðum grínatriði fyrir sjónvarpsþátt Audda og Sveppa sem var á Stöð 2 á sínum tíma. Þeir fóru í trailer-keppni einn föstudaginn og ég var fenginn til að gera trailer fyrir Audda og Bragi Þór Hinriksson, sem gerði Sveppa-myndirnar, gerði trailer með Sveppa,“ segir Hannes. Þessar stiklur áttu að standa fyrir ímyndaðar bíómyndir og hét kvikmyndin hans Audda einmitt Leynilögga og sagði af hörðustu leynilöggunni í bransanum og hans innri og ytri baráttu. Björn Hlynur lék illmenni í stiklunni, líkt og í kvikmyndinni, og einnig léku í henni þeir Steindi jr. og Egill.

Hannes segir þetta hafa verið metnaðarfullan trailer og bæði Sambíóin og Sena hafi haft samband við þá í framhaldinu og spurt hvort þeir hefðu ekki áhuga á að skrifa handrit að kvikmynd út frá honum. Þeir slógu til og skrifuðu fyrsta uppkast að handriti. Sú vinna náði þó ekki lengra af ýmsum ástæðum, að sögn Hannesar. „Ég fór út í atvinnumennsku og handritið var bara ekki komið lengra áleiðis þegar við urðum að setja það á ís. Ég hélt að þetta myndi bara enda þar en við vorum alltaf með þetta bakvið eyrað,“ segir Hannes frá. Hann hafi alltaf langað til að gera myndina en haldið að það væri orðið of seint þegar hann sneri aftur heim til Íslands úr atvinnumennsku erlendis. „Síðan fórum við að ræða þetta, hvort ennþá væri stemning fyrir þessu, og ákváðum að kýla á þetta.“

Grínmyndafólk sem vill gera hasarmynd

Pegasus framleiddi Leynilöggu á endanum og var það Lilja Snorradóttir framleiðandi sem hafði samband við Hannes og Auðun og fékk þá á fund til sín. Til greina kom að gera sjónvarpsþætti en að lokum var ákveðið að gera kvikmynd og þá öllu vandaðri en þá sem gamla stiklan úr keppni Audda og Sveppa var að kynna. Af stiklu „alvöru“ Leynilöggu að dæma getur myndin varla verið annað en gamanhasarmynd eða gamanmynd með hasarívafi.

Hannes staðfestir það, segir Leynilöggu vissulega gamanmynd en þó gerða af grínmyndafólki sem langi að gera hasarmynd. „Öll útfærsla myndarinnar, bæði leikur og kvikmyndagerð, er gerð af alvöru, eins og um raunverulega hasarmynd sé að ræða. Grínið felst að miklu leyti í því að staðfæra svona týpíska klisjuhasarmynd í íslenskar aðstæður og fara eins „over the top“ og við getum í það. Það fer ekkert á milli mála að þetta er grínmynd þegar þú horfir á hana en það haga sér allir eins og þeir séu í alvöruhasarmynd. Pælingin er að þú sökkvir aðeins inn í hana, hún á að vera mjög skemmtileg og fyndin en líka flott og kraftur í henni. Og vonandi hrærir hún stundum líka í einhverjum tilfinningum,“ segir Hannes. Hann segir myndina ekki Naked Gun eða Police Academy heldur meira í anda Hot Fuzz.

Leikarar myndarinnar eru lærðir og ólærðir í bland og einnig koma við sögu þjóðþekktir einstaklingar á borð við Bríeti, Jón Jónsson og Rúrik Gíslason, fyrrverandi samherja Hannesar í landsliðinu í fótbolta. „Fólk sem maður hefur ekkert endilega séð á hvíta tjaldinu,“ segir Hannes um þessa aukaleikara og að vel hafi gengið að leikstýra ólærðum jafnt sem lærðum leikurum. Auddi, Sveppi og Steindi búa enda að mikilli reynslu af að leika í gamanþáttum og kvikmyndum og Sveppi hafi auk þess reynslu úr leikhúsi. Hannes segir þá félaga orðna mjög sjóaða leikara og að engin vandamál hafi því komið upp í leikstjórninni.

Óvenjulegt val

Þegar fréttir bárust í sumar af því að Leynilögga hefði verið valin í aðalkeppni alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Locarno, sem þykir bæði virðuleg og listræn hátíð, hélt blaðamaður fyrst að um grín væri að ræða. En svo var ekki og hlaut myndin bæði mikla athygli þar ytra og prýðilegar viðtökur. Hannes og fylgdarlið hans var myndað í bak og fyrir og mætti leikstjórinn í fjölda viðtala.

Hannes er spurður hvort ekki sé óvenjulegt að kvikmynd á borð við Leynilöggu sé valin á virðulega hátíð á borð við þá í Locarno og segir hann svo vera. „Það er óvenjulegt og vakti mikla athygli í ár. Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er eitthvað aðeins að skipta um gír, aðeins að gera hana að einhverju leyti meira „mainstream“ eða „entertaining“ og hann tekur myndina alltaf sem dæmi þegar hann er að tala um að hann sé aðeins að reyna að létta hátíðina. Að velja mynd eins og Cop Secret, eins og hún heitir á ensku,“ segir Hannes.

Hann segir það sannarlega hafa komið sér á óvart að Leynilögga hefði verið valin á Locarno og hvað þá í aðalkeppnina. „Við fengum frábærar viðtökur úti en við höfðum engar væntingar um að fara með myndina út fyrir landsteinana, við ætluðum bara að gera skemmtilega mynd fyrir íslenska markaðinn,“ segir Hannes kíminn.

Hann segir stóran hóp hafa farið út til Locarno og að öllum hafi þótt ferðin stórskemmtileg. „Það var mikið hlegið og mikið stuð. Ég held að við höfum vakið smá athygli, fólk sá að við vorum þakklát fyrir að vera þarna og þessi gleði skilaði sér í gegn. Dagurinn þegar við frumsýndum myndina var mjög þétt bókaður hjá mér, fyrst blaðamannafundur og svo hvert viðtalið af öðru. Það vekur náttúrlega athygli líka að ég sé landsliðsmaður í fótbolta og fólki finnst það áhugavert þannig að það var mikið rætt við mig þarna. Síðan fóru dómarnir að berast eftir frumsýninguna og þeir voru meira eða minna allir jákvæðir,“ segir Hannes og skal tekið fram að viðtalið fór fram áður en Hannes hætti að leika með landsliðinu.

Skemmtilegt form

Hannes segir mikið hafa verið lagt í handritsskrif myndarinnar, áhersla lögð á að kjöt væri á beinunum og handritið virðist hafa virkað, sé litið til jákvæðra viðbragða í Locarno. „Við höfum gert eitthvað þarna sem virkar,“ segir Hannes og að hann hafi skynjað að fólk hafði gaman af myndinni. „Þetta er skemmtilegt form, það hafa allir gaman af góðri og gamaldags næntís-aksjónmynd, þetta er náttúrlega sú formúla og það er erfitt að finnast svoleiðis myndir leiðinlegar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er engin ástæða til þess að láta aðra komast upp með að borga ekki skuldir sínar. Hikaðu ekki við að segja hvernig þér líður. Ekki láta plata þig upp úr skónum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er engin ástæða til þess að láta aðra komast upp með að borga ekki skuldir sínar. Hikaðu ekki við að segja hvernig þér líður. Ekki láta plata þig upp úr skónum.