Leikur á móti móður sinni

Margaret Qualley er á hraðri uppleið í heimi sjónvarps og …
Margaret Qualley er á hraðri uppleið í heimi sjónvarps og kvikmynda. AFP

Nýstirnið Margaret Qualley fær glimrandi dóma fyrir frammistöðu sína í þáttunum Maid á efnisveitunni Netflix, þar sem hún leikur meðal annars á móti móður sinni, Andie MacDowell.

Qualley átti sjálf hugmyndina að því að fá móður sína til liðs við verkefnið. Fannst það blasa við eftir að hafa lesið handritið og sló í framhaldinu á þráðinn til Margot Robbie framleiðanda sem var henni sammála. Þetta er í fyrsta skipti sem mæðgurnar leika saman og Qualley segir það hafa verið dásamlega reynslu.

„Það var algjör draumur að fá að vinna með henni,“ segir hún við vefmiðilinn Collider, „en um leið einhver súrrealískasta upplifun lífs míns. Það var gott að hafa mömmu mér við hlið í miðjum heimsfaraldri þegar maður er að heiman í níu mánuði en á móti kemur að hún hefur gert svo marga stórkostlega hluti sem ég dáist að og gæti ekki litið meira upp til hennar. Það breytir líka jöfnunni að ganga í salinn og móðir þín er að leika móður þína. Þá þurfti ég á öllu mínu að halda.“

Þekkir brotnar manneskjur

Paula Langley, sem á í mjög svo slitróttu sambandi við veruleikann í Maid, er langt frá persónum Andie MacDowell í vinsælum myndum á borð við Groundhog Day og Four Weddings and a Funeral og í samtali við blaðið USA Today kveðst MacDowell vera dóttur sinni þakklát fyrir að veðja á sig í hlutverkið. Móðir hennar sjálfrar var drykkfelld og glímdi við geðsjúkdóm, þannig að hún þekkir vel hvernig brotnar manneskjur haga sér. „En maður veit ekki hvort maður getur leikið þær fyrr en á það reynir.“

Hún naut þess líka út í ystu æsar að leika á móti dóttur sinni. „Hvert augnablik var mér dýrmætt og ég var staðráðin í að standa mig vel enda með öllu óvíst að við fáum tækifæri til að gera þetta aftur.“

Margaret Qualley, ásamt móður sinni, Andie MacDowell, og systur, Rainey.
Margaret Qualley, ásamt móður sinni, Andie MacDowell, og systur, Rainey. AFP


Alex Russell, aðalpersóna í Maid, sem byggir á endurminningum Stephanie Land, er einstæð móðir sem flýr úr erfiðu sambandi og á undir högg að sækja í lífinu.

Í samtali við Collider kveðst Qualley þakklát fyrir að hafa verið trúað fyrir hlutverki Alex Russell; það hafi verið mikil áskorun enda sé hún ekki móðir sjálf og hafi ekki í annan tíma leikið móður.

Hún kveðst hafa tengst stúlkunni sem leikur Maddie dóttur hennar, Rylea Nevaeh Whittet, traustum böndum og þær hafi varið miklum frítíma saman. „Ég varð besta vinkona hennar á settinu. Ekkert fjögurra ára barn ætti að vera að vinna þannig að galdurinn fólst í því að láta eins og þetta væri ekki vinna. Hún er yndisleg.“

Spurð hvað hafi komið henni mest á óvart við hlutverkið svarar Qualley því til hversu erfitt það sé í reynd að vera staddur í neðsta þrepi þjóðfélagsstigans. „Það er allt eitthvað svo bókstaflega ómögulegt. Senurnar sem ég leik í og við erum að ræða um matarmiða eða húsnæðismál og allar hindranirnar á leiðinni til að eiga rétt á þessu eru til skammar. Síðan er það eins og að vinna í lottóinu að vera valinn í eitthvað sem er alls ekkert merkilegt. Það er galið hversu mikla vinnu hún þarf að leggja á sig.“

Nánar er fjallað um Maid og mæðgurnar Qualley og MacDowell í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant