„Fá þetta bara beint í æð“

„Það er mjög gaman að horfa á óperur á erlendu tungumáli og heyra fegurðina í þeim blæ sem það tungumál býður upp á, en það gefur ekki sama skilning á hverju einasta orði sem verið er að túlka. Og það er svo mikilvægt,“ segir Jón Svavar Jósefsson óperusöngvari þegar hann er spurður hvers vegna sviðslistahópurinn Óður velur að syngja óperuna Ástardrykkinn eftir Donizetti á íslensku, en óperan verður frumsýnd í Leikhúskjallara Þjóðleikhússins síðar í vikunni. Uppfærslan er opnunarsýning Óperudaga sem standa næsta mánuðinn.

Auk Jóns Svavars syngja í uppfærslunni þau Þórhallur Auður Helgason, Sólveig Sigurðardóttir er Adina og Ragnar Pétur Jóhannsson. Um píanóleik sér Sigurður Helgi Oddsson og leikstjóri er Tómas Helgi Baldursson. 

„Í staðinn fyrir að maður sé að hlusta á óperuna og lesa á skjá um hvað er verið að syngja, þá finnst okkur miklu skemmtilegra að fá þetta bara beint í æð. Þá verður skilningurinn annar og innlifunin inn í verkið meiri. Svo verðum við líka að taka það fram að það eru um þessar mundir eru um fimmtíu ár síðan Ástardrykkurinn var síðast fluttur hérlendis í íslenskri þýðing í Þjóðleikhúsinu,“ segir Jón Svavar og vísar þar til þýðingar sem Guðmundar Sigurðssonar gerði 1967 og Sólveig hefur uppfært. Segir hann uppfærsluna hugsaða þannig að auðvelt sé að fara með hana í leikferð um landið. 

Jón Svavar hefur mörg járn í eldinum. Því hann leikur einnig í söngleiknum Hlið við hlið sem sýndur er í Gamla bíói og byggir á tónlist eftir Friðrik Dór. Samtímis er Jón Svavar að stjórna þremur kórum og senn byrja æfingar á Ávaxtakörfunni sem frumsýnd verður í Hörpu á nýju ári þar sem hann fer með hlutverk óþroskaðs banana. 

Í Dagmálsviðtali rifjar Jón Svavar upp hvernig plakat frá Lýðheilsustofnun með leiðbeiningum um það hvernig maður eigi að vera í góðu skapi leiddi hann á sínum tíma út í söngnám í Vínarborg og hvernig hann sá fyrir sér á námsárunum með því að járna íslenska hesta í Austurríki. 

Hægt er að horfa á viðtalið við Jón Svavar í heild sinni í Dag­málum Morg­un­blaðsins

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft ekki að breyta svo miklu til þess að ná athygli fólks. Þú átt stundum erfitt með að stilla þig en reyndu það, teldu upp að tíu áður en þú tjáir þig.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft ekki að breyta svo miklu til þess að ná athygli fólks. Þú átt stundum erfitt með að stilla þig en reyndu það, teldu upp að tíu áður en þú tjáir þig.