Háar tíðnir, lágar tíðnir og allt þar á milli

Norski dansarinn Mat­hilde Cayers dansar við tónlist Bjarka í Kaldalóni …
Norski dansarinn Mat­hilde Cayers dansar við tónlist Bjarka í Kaldalóni á föstudag. Verki víd­eólista­mann­sins Arttu Niem­in­en var varpað á vegginn fyrir aftan. Ljósmynd/Pola Maria

Loks­ins er líf farið að fær­ast í tón­leika­hald að nýju. Fyr­ir fá­ein­um árum var tölu­vert úr­val af áhuga­verðum tón­list­ar­hátíðum í boði fyr­ir tón­list­ar­unn­end­ur en staðan hef­ur breyst tölu­vert og af ýms­um ástæðum hef­ur fram­boðið dreg­ist veru­lega sam­an. Extreme Chill-hátíðin á sér tölu­verða sögu þar sem til­rauna­kennd raf­tónlist hef­ur verið helsta áhersl­an. Hátíðin var hald­in í ell­efta sinn um síðustu helgi og dag­skrá­in var metnaðarfull þar sem vel þekkt­ir er­lend­ir lista­menn í þess­um jaðar­geira komu fram ásamt heima­fólki.

Roger Eno var í Kaldalóni í Hörpu á föstu­dags­kvöld­inu og lék á flygil á meðan ljós­mynd­um hans af heima­slóðum var varpað á vegg­inn fyr­ir aft­an hann. Það lá vel á karl­in­um og það var býsna hress­andi að sjá mann á sjö­tugs­aldri setj­ast við virðuleg­an flygil með tvo bjóra við hönd­ina. Hann sökkti sér þó svo djúpt í að skapa hljóðmynd­ir að flösk­urn­ar tvær voru ennþá full­ar klukku­stund síðar.

Tónlist Rogers – höld­um okk­ur bara við fyrra nafnið til að rugla hon­um ekki sam­an við bróður hans Bri­an sem svo vill til að er einn allra áhrifa­mesti tón­list­armaður síðustu 50 ára – er lág­stemmd og fram­vind­an er yf­ir­leitt hæg. Mögu­lega gæti ein­hver fundið ástæður til að tala illa um hana sem er al­gjör óþarfi enda er varla neitt nema gott að segja um fólk sem nýt­ir tím­ann sinn í að föndra við ljós­mynd­ir og tónlist.

Af­bragðsseiður

Borg­ar Magna­son fylgdi í kjöl­farið og óf sam­an af­bragðsseið með kontrabassa og tölvu. Frá­bær tónlist þar á ferð. Síðasta atriði föstu­dags­kvölds­ins var svo sam­starfs­verk­efni hjá norðlenska teknó-séní­inu Bjarka, dans­ar­an­um Mat­hilde Cayers og víd­eólista­mann­in­um Arttu Niem­in­en sem bæði eru norsk. Verk­efnið hlaut styrk frá Menn­ing­ar­ráði Norðmanna en var leitt sam­an að frum­kvæði for­svars­fólks Extreme Chill-hátíðar­inn­ar og norsku hátíðar­inn­ar In­somnia.

Ekki er hægt að segja annað en að bræðing­ur­inn hafi heppn­ast vel. Ágeng, hvik­ul og marglaga raf­tónlist Bjarka smellpassaði við kulda­leg­an og súr­realísk­an mynd­heim Niem­in­ens og það gaf henni líka aðra vídd að vera túlkuð af mjög fær­um dans­ara. Frá­bær viðburður sem aug­ljóst var að fólk í saln­um kunni vel að meta. Sjón­ræni þátt­ur­inn á tón­leik­um raf­tón­listar­fólks er ávallt mik­il­væg­ur og var ekki síst það sem stend­ur upp úr eft­ir helg­ina.

Fleiri lit­brigði lífs­ins

Þegar komið var fram á laug­ar­dag og sunnu­dag færðist fjörið yfir á Húrra. Á laug­ar­dag­inn sá ég meðal ann­ars áhuga­verða tón­leika búlgarska gít­ar­drón-meist­ar­ans E.U.E.R.P.I. Mesta eft­ir­vænt­ing­in var þó tví­mæla­laust fyr­ir því að sjá breska raf­dú­ett­inn Plaid sem hef­ur verið að í rúma þrjá ára­tugi og gefið út af­bragðstónlist hjá W.A.R.P.-út­gáf­unni.

Plötu­snúður­inn Mixma­ster Morr­is og Skur­ken höfðu hitað sal­inn ágæt­lega upp þegar Plaid hóf leik á sunnu­dags­kvöld­inu. Aggress­íf og takt­föst tón­list­in ásamt sjón­rænu veisl­unni á bak við þá fé­laga hafði leitt sal­inn áfram í nokkra stund þegar það rann al­menni­lega upp fyr­ir mér hversu mik­ill söknuður­inn hef­ur verið eft­ir viðburðum af þessu tagi. Þar sem lágu tíðnirn­ar gera al­vöru at­lögu að inn­yfl­un­um og háu tíðnirn­ar skera mögu­lega ör­lítið af heyrn­inni. Ekki síst til að fylgj­ast með og vera hluti af mann­líf­inu sem er óvíða jafn lit­ríkt og á raf­tón­list­ar­hátíðum. Sjá gamla karla gleyma sér í dansi, eyrna­lokka með app-stýrðum ljós­um, bleikt hár, blátt hár, drea­dlokka og barþjóna sem líta út fyr­ir að vera að koma af harka­legu fylle­ríi með Madonnu. Þessu sem gef­ur líf­inu fleiri lit­brigði. Extreme Chill-hátíðin hef­ur þrosk­ast vel og mun vafa­laust verða enn fyr­ir­ferðarmeiri í ís­lensku tón­list­ar­lífi á kom­andi árum.

Plaid-liðar komu fram á Húrra. Myndræna hlið tónleikana var mjög …
Plaid-liðar komu fram á Húrra. Myndræna hlið tónleikana var mjög vel heppnuð. Ljósmynd/Pola Maria
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft ekki að breyta svo miklu til þess að ná athygli fólks. Þú átt stundum erfitt með að stilla þig en reyndu það, teldu upp að tíu áður en þú tjáir þig.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft ekki að breyta svo miklu til þess að ná athygli fólks. Þú átt stundum erfitt með að stilla þig en reyndu það, teldu upp að tíu áður en þú tjáir þig.