„Eigum fallega listræna samleið“

Anna Þorvaldsdóttir tónskáld og Erna Ómarsdóttir danshöfundur segjast eiga fallega …
Anna Þorvaldsdóttir tónskáld og Erna Ómarsdóttir danshöfundur segjast eiga fallega listræna samleið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Orðið aiôn kemur úr grísku og vísar, ásamt orðunum kairos og chronos, í þrjár mismunandi tegundir af tíma. Aiôn vísar samtímis til óendanleikans og lífs manneskjunnar, sem kallaðist vel á við hugmyndir okkar þegar við þróuðum verkið,“ segir tónskáldið Anna Þorvaldsdóttir sem ásamt danshöfundinum Ernu Ómarsdóttur hefur skapað kóreógrafíska sinfóníska sviðsverkið Aiôn sem dansarar Íslenska dansflokksins og hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitarinnar flytja í Eldborg Hörpu í kvöld kl. 20.

Dansarar Íslenska dansflokksins og hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitarinnar ásamt hljómsveitarstjóranum Önnu-Mariu Helsing …
Dansarar Íslenska dansflokksins og hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitarinnar ásamt hljómsveitarstjóranum Önnu-Mariu Helsing í Eldborg Hörpu þar sem Aiôn verður flutt í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hljómsveitarstjóri er Anna-Maria Helsing. Dansarar eru Ásgeir Helgi Magnússon, Charmene Pang, Emilía Benedikta Gísladóttir, Erna Gunnarsdóttir, Félix Urbina Alejandre, Shota Inoue, Sigurður Andrean Sigurgeirsson og Una Björg Bjarnadóttir.

Lífrænt sköpunarferli

Hvernig kom það til að þið fóruð að vinna saman?

„Gautaborgarhljómsveitin pantaði af mér stórt tónverk á sínum tíma fyrir Point-tónlistarhátíðina og þá kviknaði sú hugmynd að spennandi væri að vera líka með kóreógrafíu,“ segir Anna og tekur fram að hún hafi umsvifalaust leitað til Ernu, „því hún er náttúrlega snillingur,“ segir Anna og bætir við: „Við Erna eigum mjög fallega listræna samleið.“

Þekktust þið áður en samstarfið hófst?

„Nei, en ég hafði áður verið að dansa heima í stofu og fá innblástur og gæsahúð við tónlistina hennar Önnu,“ segir Erna. „Og ég hafði fallið í stafi á dansssýningum Ernu og svo kynnti Arnbjörg María Danielsen okkur í persónu,“ segir Anna.

Af hverju náið þið svona vel saman sem samstarfsfélagar?

„Það er góð spurning. Ég veit það ekki. Kannski skýrist það af stjörnumerkjunum,“ segir Erna kímin.

„Að vissu leyti höfum við mjög svipaða sýn á listina, en líka ólíka sem skapar fallega dýnamík,“ segir Anna og tekur fram að þær Erna beri mikla virðingu hvor fyrir annarri. „Samvinna okkar hefur einkennst af mjög lífrænu sköpunarferli. Við áttum ótrúlega góð samtöl um bakgrunnshugsunina og vorum alltaf á sömu blaðsíðu þegar kom að útfærslu,“ segir Anna.

Anna Þorvaldsdóttir og Erna Ómarsdóttir í Hörpu þar sem nýja …
Anna Þorvaldsdóttir og Erna Ómarsdóttir í Hörpu þar sem nýja verkið þeirra verður flutt í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Anna dansaði fyrir Ernu

„Þetta eru ekki bara tónleikar og ekki bara dans, heldur lýsum við verkinu sem kóreógrafísku sinfónísku sviðsverki þar sem listformin blandast algjörlega saman. Þar við bætist vídeóverk eftir Valdimar Jóhannsson og Pierre-Alain Giraud. Dansararnir eru ekki uppi á sviði og hljómsveitin í gryfju heldur deila dansararnir og hljóðfæraleikararnir sviðinu saman og skapa verkið. Það krafðist öðruvísi samvinnu af okkur Ernu,“ segir Anna og rifjar upp að það hafi tekið hana hálft annað ár að semja tónlistina. „Á þeim tíma vorum við Erna stöðugt að tala saman og ég varð mjög innblásin af hennar listrænu nálgun. Þegar tónlistin var komin varð síðan auðveldara fyrir Ernu að koma inn með hreyfingarnar,“ segir Anna. „Meðan Anna var að semja heimsótti ég hana til London þar sem hún sýndi mér teikningar af verkinu meðan hún var að útskýra tónlistina fyrir mér. Tónlist hennar er svo líkamleg að hún dansaði nánast tónlist sína fyrir mér,“ segir Erna og tekur fram að það hafi veitt sér mikinn innblástur að hreyfiefni verksins sem hún skapaði í samvinnu við dansarana. „Mér finnst mjög áhugavert að heyra frá Ernu að ég hafi verið að dansa því ég upplifði það ekki þannig,“ segir Anna.

Aiôn var frumsýnt í Gautaborg vorið 2019 við góðar viðtökur. …
Aiôn var frumsýnt í Gautaborg vorið 2019 við góðar viðtökur. Á næsta ári verður verkið sýnt á Arctic Arts listahátíðinni í Harstad í Norður-Noregi og í framhaldinu í Finnlandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Boðið inn í heilagt rými

Verkið var frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar og Íslenska dansflokknum í Tónlistarhúsinu í Gautaborg í maí 2019. Krefst það mikillar aðlögunar að setja verkið núna upp í Eldborg Hörpu?

„Þegar verkið var alveg nýtt og áður en við fórum til Gautaborgar náðum við æfingu í Eldborg með Sinfóníuhljómsveit Íslands,“ segir Anna. „Þar tóku hljóðfæraleikararnir virkan þátt í fyrstu tilraununum sem við vorum að gera með dönsurunum. Og þar gerðust strax galdrar,“ segir Erna. „Sýningin mun alltaf vera aðlöguð að þeirri hljómsveit sem spilar hverju sinni,“ segir Anna og vísar þar til hlutverks hljóðfæraleikaranna í hreyfingum því tónlistin haldist alltaf sú sama. „Svo þurfum við auðvitað að aðlaga verkið að nýju rými, enda Eldborg allt öðruvísi en sviðið í Gautaborg,“ segir Erna og bendir á að eitt af því sem sé svo spennandi í verkinu sé sá samruni sem verði milli hljómsveitar og dansara þar sem hljóðfæraleikarar taka þátt í hreyfiefninu og öfugt.

„Á æfingunni með Sinfóníuhljómsveit Íslands áður en dansflokkurinn hélt til Gautaborgar vorið 2019 var svo spennandi að prófa ýmsa ólíka hluti. Hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitarinnar voru svo opin og jákvæð og til í að prófa miklu meira en við bjuggumst við,“ segir Erna og bendir á að það hafi ekki verið sjálfgefið. „Rýmið sem hljóðfæraleikari hefur kringum hljóðfæri sitt er heilagt og því ekki sjálfsagt að dansari fari inn í það rými. En strax á fyrstu æfingu náðu dansararnir og hljóðfæraleikararnir svo góðri tengingu og hljóðfæraleikararnir buðu dönsurunum inn í þetta rými sitt, sem var ótrúlega fallegt að sjá,“ segir Erna. „Formið sinfóníuhljómsveit er að vissu leyti mjög niðurnjörvað og þau sem spila í sveitunum eru ekki öll vön að taka þátt í svona sýningum. Við vorum því meðvitaðar um það frá byrjun að það yrði að vera boð um þátttöku, ekki krafa,“ segir Anna og bendir á að fyrir vikið hafi skapast mikið traust í hópnum.

Höfundar lýsa Aiôn sem kóreógrafísku sinfónísku sviðsverki.
Höfundar lýsa Aiôn sem kóreógrafísku sinfónísku sviðsverki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Burðast með farangur kynslóða

Í kynningu á verkinu er talað um að það sé innblásið af abstrakt hugsun um tímann og ferðalagi milli vídda. Hvernig birtist þetta?

„Við Erna deilum þessari abstrakt nálgun á listinni. Yfirleitt þegar við erum að vinna erum við með mjög sterkar hugmyndir um hvað listin er og verkin okkar, en það er aldrei matað ofan í áhorfendur heldur birtist fremur með abstrakt hætti. Grundvallarhugmyndin að verkinu sem titillinn vísar í felur í sér tengingu við tímann þar sem fólk getur til dæmis heimsótt mismunandi tíma ævi sinnar, ekki gegnum minningar heldur með því að fara þangað. Við það verður til ákveðin togstreita því suma staði viljum við heimsækja oftar en aðra. Tíminn geymir mismunandi minningar. Þetta var sterk grunnhugmynd á bak við verkið. Þetta endurspeglast á vissan hátt í köflunum þremur sem verkið er í. Í fyrsta kaflanum ríkir ákveðin óvissa hvar þú ert meðan þú ert ekki búinn að átta þig á því að þú getir farið hvert sem er. Í öðrum kaflinum kemur ákveðin kyrrð og í lokakaflanum birtist ákveðið sjálfstraust og öryggi. Þetta er hægt að hugsa um þetta með tilliti til æviskeiðs og staðsetningar, en auðvitað er þetta fyrst og fremst listræn hugsun sem knýr sköpunarferlið áfram,“ segir Anna. „Þegar Anna var búin að veita okkur uppkast að tónlistinni komu alls kyns myndir og tilfinningar, t.d. sú mynd að vera að burðast með farangur kynslóða, núningar, sátt, flæði og gamlar vélar. Dansararnir eru á sífelldu ferðalagi verkið á enda,“ segir Erna og tekur fram að tíminn sé bæði margræður og óræður og alls ekki línulaga. „Við getum flest verið sammála um að við séum að skynja tímann og eilífðina með öðrum hætti eftir Covid sem dæmi,“ segir Erna.

„Þegar Anna var búin að veita okkur uppkast að tónlistinni …
„Þegar Anna var búin að veita okkur uppkast að tónlistinni komu alls kyns myndir og tilfinningar, t.d. sú mynd að vera að burðast með farangur kynslóða, núningar, sátt, flæði og gamlar vélar. Dansararnir eru á sífelldu ferðalagi verkið á enda,“ segir Erna Ómarsdóttir danshöfundur og tekur fram að tíminn sé bæði margræður og óræður og alls ekki línulaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eru fleiri sýningar fyrirhugaðar?

„Já, við munum sýna verkið á Arctic Arts í Harstad með sinfóníuhljómsveitinni í Norður-Noregi,“ segir Erna. „Og í Finnlandi,“ segir Anna og bendir á að kófið hafi sett ákveðið strik í alla framtíðarskipulagningu, en hún reiknar með að fleiri hljómsveitir muni vilja setja verkið á efnisskrá sína.

Sjáið þið fyrir ykkur að vinna fleiri sviðsverk saman?

„Ég vona það,“ segir Erna. „Ég held að við séum báðar búnar að fá fullt af hugmyndum að frekara samstarfi sem gaman væri að útfæra,“ segir Anna að lokum.

Viðtalið birtist fyrst á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag, fimmtudaginn 21. október. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant