Íslensk stuttmynd hlýtur verðlaun Unicef

Leikstjórinn Viktor Sigurjónsson.
Leikstjórinn Viktor Sigurjónsson. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska stuttmyndin Lífið á eyjunni, í leikstjórn Viktors Sigurjónssonar, hlaut í gær verðlaun á alþjóðlegri kvikmyndahátíð rannsóknarmiðstöðvar Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna - UNICEF Innocenti. Viktor fékk þar Iris verðlaunin fyrir leikstjórn og tók þátt í pallborðsumræðum á hátíðinni sem var haldin í Flórens, Ítalíu, dagana 21. til 24. október.

Áhersla kvikmyndahátíðar UNICEF (UIFF) er á myndir sem segja sögu barna frá öllum heimshornum og sýna þær margvíslegu áskoranir sem börn standa frammi fyrir á hverjum degi, til að mynda andlega líðan, skólalokanir, fátækt og stríð svo nokkuð sé nefnt. Af 1.700 umsóknum frá 114 löndum voru 38 myndir frá 29 löndum valdar á hátíðina og því mikill heiður að vinna til verðlauna í þeim hópi.

Mikill heiður að fá slíka viðurkenningu

„Það gefur allri vinnunni mikið vægi að fá svona viðurkenningu frá sérfræðingum í málefnum barna, þau velja hana vegna þess að þau líta svo á að hún sýni sanna mynd af raunveruleika barna. Það segir manni að maður sé á réttri braut með þessa nálgun á málefnið,“ segir Viktor Sigurjónsson, sem leikstýrir Lífið á eyjunni og skrifar handritið ásamt Atla Óskari Fjalarssyni og Apríl Helgudóttur.

Lífið á eyjunni er stuttmynd sem fjallar um hinn 12 ára gamla Braga sem býr í litlum bæ úti á landi. Hann er klár og hugmyndaríkur strákur en á erfitt með að fóta sig í skólanum. Hann er í raun félagslega einangraður og á erfitt með að sýna hvað honum líður illa. Einn daginn kynnist hann strák á sama aldri sem kemur í heimsókn í bæinn og þeir tengjast samstundis í gegnum tónlist. Þeir ákveða að hrista upp í hversdagsleikanum, stofna hljómsveit og skrá sig í hæfileikakeppni í bænum. Braga líður þó áfram illa og á erfitt með að biðja um hjálp eða tala um hvað sé að hrjá hann.

Myndin tekur á mikilvægum málefnum eins og vanlíðan og félagslegri einangrun ungra drengja en sýnir um leið fallega vináttu sem tengjast í gegnum tónlistarsköpun. Viktor segir að viðfangsefni myndarinnar hafi sprottið úfrá tveimur strákum sem hann sá í strætó einn daginn því það hafi skinið af þeim hvað þeir áttu fallega og einlæga vináttu.

„Mér finnst vinátta svo falleg og mig langaði að kafa aðeins ofaní það hugtak. Vinátta stráka er líka svo fyndið og furðulegt fyrirbæri og hefur í gegnum tíðina verið pínu heft af #karlmennskan, þ.e.a.s strákar þora ekki að tjá tilfinningar sínar og sýna hver öðrum væntumþykju eins og að segja að hreinlega bara „ég elska þig“. Mér finnst þetta nú samt vera að breytast til hins betra, með hverri bylgju feminismans þá losnar aðeins um takið á karlmennskunni og strákar leyfa sér meira og meira að vera „mjúkir“ með einhverjum öðrum en bara með makanum sínum. Það er mikilvægt að geta verið hreinskilinn við vini sína og átt alvöru moment og vera ekki alltaf í einhverju macho hlutverki, sérstaklega ef eitthvað er að og maður þarf á aðstoð að halda,“ segir Viktor.

Mikilvægt að grípa til aðgerða í geðheilbrigðismálum barna

Nýlega kom út alþjóðleg skýrsla frá UNICEF um geðheilbrigðismál barna. Þar kom fram að eitt af hverjum sjö börnum og ungmennum á aldrinum 10 til 19 ára í heiminum er með greinda geðröskun. Á hverju ári taka um 46 þúsund ungmenni í heiminum sitt eigið líf.

Í kjölfar útgáfu skýrslunnar sendi UNICEF á Íslandi ákall á alla formenn stjórnmálaflokkanna á Íslandi um alvöru aðgerðir í geðheilbrigðismálum barna enda hafa börn og ungmenni hér á landi lengi kallað eftir úrbótum í málaflokknum.

Spurður hvernig aðgerðir hann myndi vilja sjá til að hlúa betur að andlegri heilsu barna og ungmenna hér á landi segir Viktor: „Ég tel að skólakerfið hafi mikið pláss til að bæta sig, ekki í að skila betri akademískum niðurstöðum heldur að bæta andlega líðan hjá börnum og ungmennum. Það er svo mikilvægt að rækta styrkleika, eins og einhver sagði...við dæmum ekki handboltalandsliðin okkar útfrá því hvað þau eru góð í ballett.“

Í Lífið á Eyjunni er söguhetjan tilneydd til að berja hausnum við vegginn við eitthvað sem hann er slæmur í svo hann passi í mótið útskýrir Viktor. Hann bendir á að í staðinn ætti heldur að líta til styrkleika hans og aðstoða hann við að rækta þá. Hann er klár, metnaðarfullur, útsjónarsamur, góður í höndunum og greinilega músíkalskur en fókusinn er settur á það sem hann er lélegastur í með tilheyrandi vanlíðan.

„Sanngirni er ekki að allir fái það sama, sanngirni er að allir fái það sem þau þurfa til þess að ná árangri,“ segir Viktor að lokum.

Hægt er að sjá hana í Sjónvarpi Símans Premium. Hægt er að kynna sér allar myndirnar sem sýnar voru á hátíðinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson