„Miðla gleðinni af tónlist“

„Mestu máli skiptir samt að vera ávallt forvitin,“ segir Jess …
„Mestu máli skiptir samt að vera ávallt forvitin,“ segir Jess Gillam þegar hún er spurð hvort hún eigi góð ráð til handa ungu tónlistarfólki og hvetur það einnig til að hlusta á eins mikið af tónlist og það geti. Ljósmynd/Robin Clewley

„Þetta verður fyrsta heimsókn mín til Íslands og ég hlakka mikið til, enda hefur landið lengi heillað mig,“ segir breski saxófónleikarinn Jess Gillam sem kemur fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á fimmtudag kl. 19.30 undir stjórn Ryans Bancrofts.

Gillam, sem er aðeins 23 ára, hefur vakið mikla athygli fyrir einstaka tónlistarhæfileika sína og útgeislun á sviði. Hún sló í gegn þegar hún kom fram á Last Night of the Proms árið 2018. Á síðustu mánuðum hefur hún komið fram með London Mozart Players og NDR Radiophilharmonie, farið í tónleikaferð með European Union Youth Orchestra í Austurríki og Þýskalandi, leikið með Nordwestdeutsche Philharmonie í Herford og í Royal Concertgebouw í Amsterdam á lokatónleikum sumartónleikaraðar Concertgebouw.

Gillam er fyrsti saxófónleikarinn sem kemst á samning hjá úgáfunni Decca Classics sem gefið hefur út tvo diska með henni, Rise og Time, sem báðir rötuðu á metsölulista í Bretlandi.Hún stýrir eigin sjónvarps- og útvarpsþætti, en hún varð yngsti kynnir hjá BBC Radio 3 þar sem hún stýrir verðlaunaþættinum This Classical Life. Hún hefur hlotið Classic BRIT Award og árið 2019 kom hún fram á BAFTA-verðlaunaafhendingunni sem milljónir sáu.

„Listirnar voru lífæð margra í faraldrinum, sem flúðu á vit …
„Listirnar voru lífæð margra í faraldrinum, sem flúðu á vit lista sér til skemmtunar, huggunar og innblásturs. Meðan ekki var hægt að sækja listviðburði í raunheimum urðu margir sér meðvitaðri um gildi lista,“ segir Jess Gillam. Ljósmynd/Robin Clewley

Þanþol saxófónsins mikið

Á tónleikunum á fimmtudag leikur Gillam einleik í fantasíu fyrir saxófón og hljómsveit eftir Heitor Villa-Lobos og saxófónkonsert eftir Alexander Glazúnov.

Hvers vegna urðu þessi tvö verk fyrir valinu á tónleikunum?

„Konsert Glazúnovs er einn af hornsteinum klassísku tónbókmenntanna fyrir saxófóninn, sem telja ekki mörg verk, sem helgast af því hversu ungt hljóðfærið er,“ segir Gillam, en belgíski hljóðfærasmiðurinn Adolphe Sax fann upp saxófóninn og fékk skráð einkaleyfi fyrir hann 1846. „Konsert Glazúnovs er rómantískt verk sneisafullt af löngum fallegum melódíum á sama tíma og verkið einkennist af miklum gáska og gleði, ekki síst í fúgunni og samspili einleikarans við hljómsveitina,“ segir Gillam og víkur því næst að verki Villa-Lobos.

„Fantasían eftir Villa-Lobos er skrýtið og blúsað verk en á sama tíma einstaklega hrífandi. Hann skrifar það fyrir sópransaxófón, þrjú frönsk horn og strengi, þannig að hljómurinn er mjög áhugaverður,“ segir Gillam og tekur fram að tónlistin sé undir sterkum áhrifum frá Rómönsku Ameríku. „Í verkinu þræðir tónskáldið sig í gegnum margvísleg stef en virðist aldrei finna skýra fótfestu, sem gerir það að verkum að það er spennandi, en jafnframt góð áskorun, að takast á við tónlistina,“ segir Gillam og tekur fram að það finnist skýrt að Villa-Lobos þekkti blásturshjóðfærin vel því hann var sjálfur klarinettuleikari, en spilaði stundum á saxófóninn í verkinu. „Það finnst að hann kann að skrifa fyrir blásturshljóðfæri, því hann hugar vel að fraseringum og gerir ráð fyrir því að hljóðfæraleikarinn þurfi að anda,“ segir Gillam kímin og tekur fram að stundum þegar tónskáld séu strengjaleikarar gleymi þeir hreinlega að blásturshljóðfæraleikarar þurfi að anda.

Sökum þess hversu ungt hljóðfæri saxófónninn er er hann ekki hluti af hefðbundinni sinfóníuhljómsveit. Flestir tengja hljóðheim saxófónsins fremur við djass- og popptónlist. Hvernig upplifir þú hljóðheim saxófónsins?

„Þanþol saxófónsins er mikið og hljóðheimur svo fjölskrúðugur að hann passar við marga ólíka tónlistarstíla og hljóðfærasamsetningar. Hljómurinn passar allt frá hörðu rokki yfir í sinfóníska tónlist með viðkomu í djassi. Fjölhæfni og dýnamík saxófónsins gerir að verkum að hann getur jafnt fangað mýkt og hljómfegurð klarinettsins eða óbósins og styrk málmblásturshljóðfæra á borð við trompetinn,“ segir Gillam og tekur fram að fyrir vikið henti saxófónninn vel fyrir sinfóníuhljómsveitir.

Tónlistin eflir sköpunargáfuna

Hvenær kynntist þú saxófóninum fyrst og vissir að þetta væri rétta hljóðfærið fyrir þig?

„Ég byrjaði að spila á saxófón þegar ég var sjö ára,“ segir Gillam en pabbi hennar var slagverkskennari í Barracudas Carnival Centre í Barrow. „Ég var búin að prófa öll hljóðfærin í samkomuhúsinu þegar kom að saxófóninum, sem ég féll strax fyrir vegna þess hvað hljómurinn var einstakur og hljóðfærið tjáningarríkt,“ segir Gillam og rifjar upp að hún hafi fljótlega farið að spila með hljómsveit í samkomuhúsinu sem hafði brasilíska karnival-tónlist á efnisskránni.

„Ég hef alltaf notið þess að spila með öðrum. Máttur tónlistarinnar felst í því að sameina fólk hvort sem það eru vinir að spila saman í hljómsveit eða áheyrandur á tónleikum að hlusta á hljóðfæraleikara uppi á sviði. Með tónlistinni getum við án orða deilt hugmyndum, reynslu, fegurð og hugljómun,“ segir Gillam, sem leggur mikla áherslu á að miðla af reynslu sinni.

„Ég reyni í tengslum við alla tónleika sem ég held að gefa mér tíma til að hitta ungt fólk á staðnum og halda fyrirlestra og vinnusmiðjur til að reyna að hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið,“ segir Gillam, sem í tengslum við tónleika sína hérlendis mun hitta hóp af ungum hljóðfæraleikurum. „Þetta er hópur af hæfileikaríku ungu fólki, sem ég mun hitta á tónleikadag. Ég hlakka til að spila fyrir þau og þau fyrir mig, auk þess sem okkur gefst tækifæri til að spjalla um tónlistina,“ segir Gillam og leggur mikla áherslu á gildi tónlistar í að efla ungt fólk, hæfileika þess og sköpunargáfu.

„Ég reyni í tengslum við alla tónleika sem ég held …
„Ég reyni í tengslum við alla tónleika sem ég held að gefa mér tíma til að hitta ungt fólk á staðnum og halda fyrirlestra og vinnusmiðjur til að reyna að hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið,“ segir Jess Gillam. Ljósmynd/Robin Clewley

Listirnar lífæð margra

Finnst þér fólk almennt kunna betur að meta tónlist og aðrar listir eftir að heimsfaraldurinn skall á?

„Já og nei. Listirnar voru lífæð margra í faraldrinum, sem flúðu á vit lista sér til skemmtunar, huggunar og innblásturs. Meðan ekki var hægt að sækja listviðburði í raunheimum urðu margir sér meðvitaðri um gildi lista. Því miður virðast stjórnvöld ekki ætla að setja listir í forgang að faraldri loknum heldur einblína á vísindin. Þau virðast ekki átta sig á því að samfélagið og vísindin munu ekki þrífast án sköpunar og hluttekningar, sem eru grunnþættirnir í allri tónlistar- og listkennslu.“

Hvaða áhrif hefur heimsfaraldurinn haft á þig og þín störf?

„Ferillinn minn var rétt að taka á flug og fjölmargir tónleikar bókaðir þegar öllu var skyndilega skellt í lás. Mér fannst auðvitað miður að geta ekki spilað fyrir áhorfendur, en á sama tíma veitti faraldurinn mér kærkomið svigrúm og tíma til að íhuga vandlega hver tilgangurinn með starfi mínu er, “ segir Gillam og tekur fram að hún hafi haft nóg fyrir stafni í kófinu þar sem hún spilaði á rafrænum tónleikum og tók upp og gaf út metsöluplötuna Time. „Þema plötunnar snerist um upplifun okkar af tímanum og hvernig tónlistin getur snúið upp á tímaskynjun okkar,“ segir Gillam, sem einnig stóð fyrir rafrænum tónleikum undir merkjum Virtual Scratch Orchestra í fyrra.

Í verkefninu tóku þátt um 2.000 manns á aldrinum tveggja til 94 ára frá 30 löndum sem deildu upptökum með hljóðfæraleik sínum sem klipptar voru saman í eina heild. „Þegar kófið brast á og öllu var lokað hér í Bretlandi fann ég skýrt fyrir því hversu miklu máli það skiptir að fá að vera hluti af stærri tónlistarheild og deila tónlistarhugmyndum með öðrum. Auðvitað kemur tæknin aldrei í stað þess að hittast í raunheimum, en mér fannst ég verða að bregðast við ástandinu með einhverjum hætti og leggja mitt af mörkum til að gefa fólki færi á að taka þátt í samsköpun,“ segir Gillam, sem er aftur komin á flug og ferðast milli landa.

Hvernig leggjast ferðalögin í þig?

„Mér finnst alltaf jafn spennandi að koma til nýs lands og kynnast nýrri menningu. Það eina sem mér finnst leiðinlegt við ferðalögin er að þurfa að pakka,“ segir Gillam.

Spurð hvernig henni gangi að samþætta störf sín sem einleikari annars vegar og þáttastjórnandi hins vegar segir Gillam það takast ótrúlega vel þótt hún hafi eiginlega aðeins of mikið að gera. „Bæði störfin eiga það sameiginlegt að mér gefst tækifæri til að segja sögur og miðla gleðinni af tónlist með öðrum, hvort sem ég geri það með orðum eða tónum,“ segir Gillam og tekur fram að tónlistin geti samtímis veitt innblástur og verið skjól í hröðum heimi.

Áttu einhver góð ráð til handa ungu tónlistarfólki?

„Já, hlustið á eins mikið af tónlist og þið getið til að komast að því hvað ykkur líkar og hvað ekki. Það er hægt að tjá sig með tónlist á svo margvíslegan og spennandi hátt. Mestu máli skiptir samt að vera ávallt forvitin,“ segir Jess Gillam að lokum.

Viðtalið við Jess Gillam birtist fyrst á menningarsíðum Morgunblaðsins laugardaginn 23. október. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson