Liðkast um málmbeinið

Trivium-liðar í sínu fínasta pússi á Grammy-hátíðinni 2019. Paolo Gregoletto, …
Trivium-liðar í sínu fínasta pússi á Grammy-hátíðinni 2019. Paolo Gregoletto, Corey Beaulieu, Matt Heafy og Alex Bent. AFP

Tíunda hljóðversplata málmbandsins Trivium frá Flórída, In the Court of the Dragon, kom út fyrir skemmstu og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda sem bera Trivium á höndum sér.

Miðillinn Distorted Sound hendir í 10 af 10 mögulegum og segir Trivium hafa skipað sér á bekk með fremstu málmböndum þessa heims. „Þeim hefur tekist að reyna á þanþolið án þess að ganga á grunngildi sín sem gert hafa þá að einu virtasta bandi heims. Þannig hefur þeim tekist að gera eina af sínum bestu plötum, ef ekki þá allra bestu til þessa.“

Miðillinn Wall of Sound er líka í tíunni. „Núna er Trivium bara Trivium, og In the Court of the Dragon er enn ein afurðin sem skilgreinir hvað átt er við með því – þeir eru eitt af bestu málmböndum heims.“

Hið gamalgróna málmgagn Kerrang! gefur plötunni fjórar stjörnur af fimm fáanlegum og segir hana eina bestu málmafurð ársins. Ljóst sé að Trivium-liðar séu reiðubúnir að leggja undir sig stærstu leikvanga þessa heims. „Þessi lög eru samin til að hljóma á stærstu sviðunum, og eiga það skilið.“

Miðillinn Louder Sound splæsir í fjórar og hálfa stjörnu af fimm mögulegum og segir: „Þegar kemur að því að leika nútímalegan málm hefur Trivium staðið fremst um nokkra hríð. Það breytist ekki hér og In the Court of the Dragon er geggjuð þungarokksplata. Efaðist einhver?“

Ræturnar liggja víða

Trivium er líklega með dýpstar rætur í þrassi en einnig gætir augljósra áhrifa frá tærmálmi, málmkjarna, dauðarokki og jafnvel grúvmálmi. Þið munið að við lifum á tímum póstmódernisma.

Matt Heafy er jafnvígur á hreinan og óhreinan söng, eins …
Matt Heafy er jafnvígur á hreinan og óhreinan söng, eins og það kallast í málmheimum. Raddþjálfari hans í seinni tíð er hinn virti Ron Anderson. AFP


Bandið var stofnað í Orlando árið 1999 og svo merkilega vill til að enginn upprunalegur meðlimur á ennþá aðild að því. Matt Heafy, söngvari og gítarleikari, slóst þó í hópinn á stofnárinu eftir að þáverandi söngvari, Brad Lewter, kom auga á hann þrettán ára gamlan í hæfileikakeppni í skólanum þeirra. Til að byrja með spilaði Heafy aðeins á gítar en Travis Smith trommari taldi hann snemma á að taka sönginn líka að sér enda þótt Heafy hefði á þeim tíma ekki mikla trú á hæfileikum sínum. Saga sem heimfæra má á átrúnaðargoð hans, James Hetfield í Metallica.

Heafy lærði á tenórsaxófón sem drengur en er sjálfmenntaður í gítarleik og söng. Það kom honum síðar í koll en eftir að hafa beitt röddinni lengi kolrangt við að rymja gaf hún sig á tónleikum árið 2014. Það varð til þess að Heafy fór að ráðum kollega síns úr Avenged Sevenfold, M. Shadows, og leitaði til hins virta raddþjálfara og óperusöngvara Rons Andersons, sem meðal annars hefur þjálfað Axl Rose, Chris Cornell og Adele. Eftir það hefur Heafy látið hafa eftir sér að það sé í raun auðveldara að rymja á sviði en að bjóða eiginkonunni góðan dag á morgnana.

Trivium var eiginlega bara tríó þegar fyrsta platan, Ember to Inferno, kom út 2003. Heafy söng og spilaði á gítar, Travis Smith á trommur og Brent Young á bassa. Gítaristinn Corey Beaulieu bættist við skömmu síðar og Paolo Gregoletto leysti Young af hólmi ári síðar. Báðir eru þeir enn í bandinu en Young lést á síðasta ári. Smith gekk úr skaftinu 2009 og síðan hafa ýmsir menn haldið um kjuðana, allt miklir vargar, svo sem tónlistin gerir kröfu til, nú síðast Alex Bent sem hertur er í eldi dauðarokksins með böndum á borð við Dragonlord og Brain Drill. Mikið séní þar á ferð.   

Nánar er fjallað um Trivium í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ekki missa tökin á yfirsýn yfir fjármálin, þú hefur staðið þig vel síðustu mánuði. Það er bjart framundan í ástamálunum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ekki missa tökin á yfirsýn yfir fjármálin, þú hefur staðið þig vel síðustu mánuði. Það er bjart framundan í ástamálunum.