Kanadíska söngkonan Celine Dion tilkynnti í dag að hún gæti ekki staðið við Norður-Ameríkuhluta tónleikaferðalags síns „Courage world tour“ vegna „þráláts heilsufarsvanda“.
„Ég vonaðist til þess vera orðin nógu góð núna, en ætli ég verði ekki að vera þolinmóðari,“ segir söngkonan í tísti um málið.
Eftir að hlé hafði verið gert á tónleikaferðalaginu vegna heimsfaraldurs hafði Dion bókað tónleika að nýju og ætlað sér að halda áfram með ferðalagið með tónleikum í Las Vegas í nóvember 2021. Var þeim tónleikum aflýst eftir að hún tók að fá mikla og þráláta vöðvakrampa, líkt og hún greindi þá frá á Twitter.
Vonaðist hún þá til að geta haldið tónleikunum áfram í mars, byrjað í Denver og ferðast í tvo mánuði til fimmtán borga í Bandaríkjunum og Kanada, en nú virðist sem ekkert verði af því.