Hiphop tónlist átti sviðið í hálfleik Ofurskálarinnar. Dr. Dre, Snoop Dogg, Kendrick Lamar, Mary J. Blidge og Eminem komu fram á leiknum í Inglewood í Kaliforníu. Atriðið er sagt sýna vel þróun tónlistarstefnunnar síðustu þrjá áratugi.
Snoop Doog og Dr. Dre byrjuðu atriðið á því að flytja lagið The Next Episode. Seinna mætti Íslandsvinurinn 50 cent óvænt í partíið og flutti lagið In Da Club. Mary J. Bige mætti og söng No More Drama. Kendrick Lamar tók lagið Alright. Að lokum mætti ofurstjarnan Eminem og tók lagið Lose Yourself.
Það er afar eftirsótt að koma fram í Ofurskálinni enda ekki bara margir sem mæta og horfa á leikinn heldur er um að ræða einn vinsælasta sjónvarpsviðburð Bandaríkjanna. Dre var aðalstjarna leiksins og sagði hann áður en hann steig á svið að tónleikarnir væru meðal stærstu á hans ferli.
Á vef Time var því meðal annars hrósað hvernig tónleikarnir pössuðu við staðsetninguna á leiknum sem var í fyrsta sinn í grennd við Los Angeles í 29 ár. Hálfleikssýningin var eins og ástarbréf til borgarinnar. Einnig heppnaðist óvænt innkoma 50 cent einstaklega vel og hvernig hiphop tónlistarstefnunni var gert hátt undir höfði. Helsta gagnrýnin var fjöldi tónlistarfólksins. Fjöldinn kom helst í veg fyrir að Mary J. Blige og Kendrick Lamar fengu að njóta sín.