Hafði ekki hugmynd um hversu stór myndin yrði

Sjón á frumsýningu myndarinnar í London.
Sjón á frumsýningu myndarinnar í London. AFP

„Ég verð að viðurkenna að þegar Robert talaði við mig upphaflega þá hafði ég ekki hugmynd um hvað þetta yrði stórt, þetta verkefni,” segir Sjón, annar handritshöfunda The Northman, sem frumsýnd var á Íslandi fyrir tveimur dögum.

Kvikmyndin ger­ist á Íslandi á 10. öld og seg­ir af ung­um vík­ingi sem heit­ir þess að hefna sín grimmi­lega á þeim manni sem myrti föður hans.

Er blaðamaður heyrði í Sjón var hann með Covid-19 en rakti þó sögu verkefnisins hress í bragði. 

Sumarið 2017 hafði Robert Eggers, leikstjóri og handritshöfundur, samband við Sjón.

„Hann spurði hvort ég hefði áhuga á því að skrifa með sér handrit að sögu sem gerist á tímum víkinga og væri að einhverju leyti byggð á sögunni um Amleð Danaprins.”

Sjón segir að hann og Eggers hafi hist fyrir tveimur eða þremur árum heima hjá tónlistarkonunni Björk, sem leikur hlutverk í The Northman. Á þeim tíma var fyrsta kvikmynd Eggers í fullri lengd, The Witch, nýkomin út.

Sjón og Eggers uppgötuðu þá að þeir höfðu það sameiginlegt að hafa báðir skrifað verk sem byggist á galdrafárinu á sautjándu öld, en árið 2008 kom úr skáldsagan Rökkurbýsnir eftir Sjón.

„Þá kom í ljós að við áttum mikið af sameiginlegum áhugamálum og höfðum lesið mikið af því sama. Einnig að við vorum að mörgu leyti að reyna að gera það sama í okkar verkum sem er það að setja fram sterkan hversdagslegan veruleika fólks ásamt því að sýna innra líf þess og trú og andleg fyrirbæri.”

Týnd fornsaga

Sjón segir því að erfitt hefði verið að segja nei við Eggers er hann hafði samband við hann sumarið 2017.

Eggers kom til Íslands um haustið sama ár og unnu þeir þá saman í nokkra daga í að koma grunninum að sögunni á blað.

„Eftir það hófst vinnan. Fyrst að skrifa stór og ítarleg sögudrög. Við vorum í rauninni að leika okkur að því að skrifa týnda fornsögu. Þannig að það þurfti að vinna söguna mjög mikið út áður en var farið að skrifa handritið.”

Hann segir að Eggers hafi að mestu leyti treyst Sjón fyrir fyrstu gerð handritsins.

„Við lögðum upp grunn söguþráðinn saman og síðan tók ég það og vann það út í þennan stóra grunn að handritinu. Þegar við vorum aðeins búnir að kasta því fram og tilbaka þá lét hann mér eftir að gera fyrstu gerðina af því að þá var hann líka að undirbúa næstu mynd.”

Drauma samstarf

Önnur kvikmynd Eggers var The Lighthouse sem kom út árið 2019. Í kjölfarið spurðu framleiðendur hann hvað hann vildi gera næst og var þá handritið að The Northman tilbúið.

„Þá smám saman fór þetta stóra verkefni að skríða af stað,” segir Sjón en hann var viðstaddur fyrstu tvær vikurnar af tökum sem fóru fram á Norður-Írlandi.

Sjón segir að samstarfið hafi verið mjög ánægjulegt og vinnubrögð þeirra félaga að mörgu leyti mjög lík.

Allt annar handleggur 

Þetta er þriðja myndin sem Sjón skrifar handritið að en í fyrra kom út íslenska myndin Dýrið.

Inntur að því hver munurinn sé á skrifunum fyrir myndirnar tvær segir Sjón að Dýrið hafi tekið mun lengri tíma, en hugmyndin að henni kviknaði áður 2009 og því verið lengi í vinnslu. Handritið að þeirri mynd var þó klárt áður en vinna hófst við The Northman.

„Munurinn var þó fyrst og fremst sá að Dýrið gerist á mjög afmörkuðum stað með þremur eða fjórum aðalpersónum sem eru á yfirborðinu miklu einfaldari. Á meðan það var strax ljóst að hitt yrði saga sem gerðist í þremur löndum með gríðarlega mikið af fólki og mörgum persónum fyrir 1.100 árum.”

Stórleikarar bætast við

Eins og áður sagði hafði Sjón ekki hugmynd í byrjun hversu stórt verkefnið yrði.

Hann vissi að Eggers var í sambandi við sænska leikarann Alexander Skarsgård, sem fer með aðalhlutverkið í myndinni, og danska framleiðandann Lars Knudsen.

„Ég hugsaði með mér bara já já, þetta er sniðugt hjá Knudsen og Skarsgård að fá þennan unga bandaríska leikstjóra til þess að gera víkingamynd. Ég hélt að þetta yrði bara norræn framleiðsla. Ég vissi ekkert betur en að þetta yrði sæmilega stór norræn mynd.”

Sjón segir að fljótlega hafi komið í ljós að svo var ekki þegar að Willem Dafoe hafi sýnt áhuga á að leika í myndinni. Þá hafi bæst við leikkonurnar Anya Taylor-Joy og Nicole Kidman.

Sjón, Anya Taylor-Joy, Robert Eggers og Alexander Skarsgard á frumsýningunni.
Sjón, Anya Taylor-Joy, Robert Eggers og Alexander Skarsgard á frumsýningunni. AFP

„Þá auðvitað áttaði ég mig á því að þetta væri að stefna í það að verða allt annað en ég hafði ímyndað mér,” segir hann og bætir við að það hafi verið gott að hann hafi ekki áttað sig á stærðinni við handritsgerðina.

„Það þýddi að þegar við vorum að vinna í sögunni þá hugsaði ég aldrei um að það yrðu einhver mörk á því hvað þætti of skrýtið eða hvað þætti of óþægilegt. Ég var aldrei með neinar Hollywood-bremsur á neinu sem ég lagði til handritsins.”

Fleiri verkefni á borðinu

Sjón segir að heilt yfir hafi gagnrýni verið nokkuð góð og hann viti ekki betur en að myndin sé að fara vel af stað í Evrópu. Hún verður frumsýnd í Bandaríkjunum 22. apríl á sérstakri hátíðarsýningu í Los Angeles.

Inntur að því hvort hann sé að færa sig meira yfir í kvikmyndaheiminn segir Sjón það vera kosturinn við ljóðin og skáldsögurnar að í þeim verkum sé hann algjörlega alvaldur yfir verkefninu.

„Ég nýt þess mjög að geta mótað það algjörlega frá a til ö en ég hef líka alltaf notið þess afskaplega vel að vinna með fólki. Sem kvikmyndaaðdáandi frá barnsaldri þá get ég ekki sagt nei þegar það er verið að bjóða mér að taka þátt í því að skapa kvikmyndir sem eru gerðar af svona ótrúlega hæfileikaríkum leikstjórum og þar með smygla mér inn í kvikmyndasöguna.”

Næsta verkefni Sjón sem hefur verið tilkynnt er kvikmynd sem nefnist Hamlet. Noomi Rapace mun fara með aðalhlutverkið og Ali Abbasi leikstýra.

„Þar er því annar frábær ungur leikstjóri sem ég er að fá tækifæri til þess að vinna með og ég segi ekki nei við því. Síðan eru fleiri verkefni á borðinu og auðvitað vekur mynd eins og The Northman athygli á handritshöfundum myndarinnar,“ segir Sjón að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson