Nýtir sér djúpfölsun í nýju myndbandi

Kendrick Lamar.
Kendrick Lamar. Ljósmynd/Skjáskot úr myndbandinu

Kendrick Lamar kom aðdáendum sínum á óvart á sunnudaginn þegar hann sendi frá sér nýtt lag ásamt tónlistarmyndbandi í tilefni af nýrri plötu sem er væntanleg í þessari viku.

Í myndbandinu við lagið The Heart Part 5, sem er fimmta lag hans í lagaröð sem hóf göngu sína árið 2010, sést andlit rapparans og Pulitzer-verðlaunahafans umbreytast í fræga svarta  Bandaríkjamenn á borð við OJ Simpson, Kanye West, Will Smith, Kobe Bryant, Jussie Smollett og Nipsey Hussle. Sá síðastnefndi var rappari sem var myrtur árið 2019.

Myndbandinu var leikstýrt af Dave Free, sem hefur lengi starfað með Lamar, og rapparanum sjálfum. Með aðstoð svokallaðarar „deepfake“-tækni, eða djúpfölsunar, þar sem andlit er límt á annað andlit, rappar Lamar út frá sjónarhóli manna á borð við Smith og West, sem hafa verið umdeildir að undanförnu. Geðhvarfasýki rapparans West kemur meðal annars við sögu.

Vefmiðillinn Pitchfork greinir frá því að fyrirtækið Deep Voodo hafi annast djúpfölsunina. Það er í eigu þeirra Treys Parkers og Matts Stone, höfunda teiknimyndaþáttanna South Park. Fyrr á árinu var greint frá því að Lamar ætlaði að taka þátt í gerð leikinna sjónvarpsþátta með tvíeykinu.

The Heart Part 5 virðist vera ákall um meiri samúð og skilning þegar kemur að áhrifum samfélagslegra vandamála á borð við kynþáttafordóma og rótgróinnar fátæktar á hegðun fólks.

Í laginu er stuðst við smell Marvins Gaye, I Want You, og lýkur því einmitt með þeim orðum. Upptökustjórn var í höndum Beach Noise.

Kendrick Lamar á Brit-verðlaunahátíðinni árið 2018.
Kendrick Lamar á Brit-verðlaunahátíðinni árið 2018. AFP

Fyrsta platan í sex ár

Hægt er að hlusta á lagið á streymisveitum sem upphitun fyrir plötuna Mr. Morale and the Big Steppers, sem er væntanleg á föstudaginn. Hún verður sú fyrsta í fullri lengd frá Lamar síðan DAMN kom út árið 2017 við fádæma góðar undirtektir.

Aðdáendur rapparans hafa beðið óþreyjufullir eftir endurkomu hans á stóra sviðið. Eftir að hafa fengið Pulitzer-verðlaunin fyrir DAMN árið 2018 átti hann stóran þátt í plötu með tónlist við kvikmyndina Black Panther. Þar var meðal annars að finna lag hans með SZA, All the Stars, sem var tilnefnt til Grammy- og Óskarsverðlaunanna.

Síðan þá hefur Lamar komið við sögu í fleiri lögum, þar á meðal á síðustu plötu frænda síns Baby Keem.

Lamar er á meðal aðalnúmeranna sem stíga á svið á Glastonbury-hátíðinni í Bretlandi í júní. Skemmst er að minnast þátttöku hans í tónlistaratriðinu í hálfleik hinnar árlegu Ofurskálar í Bandaríkjunum, þar sem einnig komu fram Dr. Dre, Snoop Dogg, Eminem og Mary J. Blige.

Baby Keem, lengst til vinstri, með Grammy-verðlaunin fyrir lagið Family …
Baby Keem, lengst til vinstri, með Grammy-verðlaunin fyrir lagið Family Ties þar sem Kendrick Lamar kemur við sögu. AFP
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Einhverjir eru að reyna að rugla þig í ríminu. Farðu eftir sannfæringu þinni því svo mikið veistu um málin að þú þarft ekki að elta fjöldann.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Einhverjir eru að reyna að rugla þig í ríminu. Farðu eftir sannfæringu þinni því svo mikið veistu um málin að þú þarft ekki að elta fjöldann.