„Framtíðin er byrjuð aftur“

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri segir persónulegar ástæður hafa ráðið því …
Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri segir persónulegar ástæður hafa ráðið því að Madama Butterfly fer á svið hjá Íslensku óperunni á næsta ári. mbl.is/Hari

„Við finnum sterklega fyrir því að framtíðin er byrjuð aftur og fátt sem bendir til þess að starfsár sem kynnt er núna taki dramatískum breytingum, líkt og reyndin hefur verið meðan heimsfaraldurinn gekk yfir,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri Íslensku óperunnar (ÍÓ), sem kynnti komandi starfsár óvenjusnemma að þessu sinni í viðtali í Morgunblaðinu um liðna helgi. 

„Við fylgjum þar fordæmi óperuhúsa víðs vegar um heiminn, enda er ekki eftir neinu að bíða eftir að ákvörðun hefur verið tekin,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að það sé góð tilfinning að geta hafið nýtt starfsár af fullum krafti. „Við finnum fyrir uppsafnaðri þörf hjá áhorfendum okkar að komast aftur á óperusýningar hérlendis. Góðar viðtökur og fullsetinn salur eins og verið hefur reyndin er staðfesting á því að það er bæði eftirspurn og þörf fyrir starfsemi okkar.

Næsta starfsár verður áfram boðið upp á Óperuminningar í samstarfi við RÚV. Kúnstpásur og Söngskemmtanir verða líka á dagskrá auk þess sem við stefnum að fleiri sýningum á Örlagaþráðum þar sem Auður Gunnarsdóttir sópran, Lára Stefánsdóttir dansari og Bjarni Frímann Bjarnason píanóleikari leiða saman krafta sína og flytja verk eftir Wagner og Schumann. Þeirri sýningu var afar vel tekið og því dreymir okkur líka um að geta sýnt hana á landsbyggðinni.

Brothers aftur á svið í haust

Þátttaka okkar í Big Bang Festival, evrópsku tónlistarhátíðinni fyrir unga áheyrendur, sem haldin var í Hörpu fyrir skömmu, tókst afar vel. Þar sýndi Níels Th. Girerd brúðuuppfærslu sína á Turandot eftir Puccini. Okkur langar mikið til að þróa það verkefni áfram,“ segir Steinunn Birna og leggur áherslu á mikilvægi þess að bjóða börnum og upp á reglulega fræðslu og kynningu á óperum. „Því miður tókst okkur vegna faraldursins ekki að koma Valkyrjunni á fjalirnar á liðnu starfsári, en sýningin var tilbúin til sviðsetningar. Þar sem um samstarfsverkefni var að ræða var ákvörðunin ekki bara okkar, en vonandi tekst okkur að finna henni stað í fyrirsjáanlegri framtíð. Það er orðið langt síðan að ópera eftir Wagner var sýnd hér á landi, svo það má ekki bíða mikið lengur enda komin rúm 20 ár frá síðustu uppfærslu.“

Brothers eftir Daníel Bjarnason verður sýnd í Hörpu í október.
Brothers eftir Daníel Bjarnason verður sýnd í Hörpu í október. Ljósmynd/Íslenska óperan

Að vanda verður boðið upp á eina stóra uppfærslu fyrir jól og aðra eftir áramót. „Fyrra stóra verkefni starfsársins er Brothers eftir Daníel Bjarnason sem verður sýnd í Eldborg Hörpu 23. október,“ segir Steinunn Birna og rifjar upp að Brothers hafi fyrst verið sýnd í Hörpu 2018 og síðan sýnd á Armel óperuhátíðinni í Búdapest árið eftir. Sem fyrr verða Oddur Arnþór Jónsson, Elmar Gilbertsson og Marie Arnet í burðarhlutverkunum. „Okkur hefur verið boðið að sýna Brothers á erlendri óperuhátíð haustið 2023, sem mun verða tilkynnt síðar hver er, en af því tilefni fannst okkur tilvalið að sýna verkið hér í haust enda margir sem misstu af sýningunni 2018. Á sama tíma á Brothers sérstakt erindi við okkur í samtímanum þar sem óperan fjallar um fórnarkostnað stríðs og þá persónulegu harmleiki sem það hefur í för með sér,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að hana langi mikið til að hægt verði að sýna Brothers á landsbyggðinni „líkt og gafst svo vel með uppfærsluna á La Traviata í Hofi á síðasta starfsári í frábæru samstarfi við MAk og SinfoniaNord. Ég hef persónulegan metnað fyrir því að Brothers verði sjálfsagður hluti af verkefnavali óperuhúsa í framtíðinni eins og Tosca og La Traviata,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að eðli málsins samkvæmt sé Daníel nú þegar orðinn stórt nafn í tónlistar- og óperuheiminum. „Enda liggur óperan sem listform einstaklega vel fyrir honum.

Daníel Bjarnason vinnur nú að óperu sem nefnist Agnes sem …
Daníel Bjarnason vinnur nú að óperu sem nefnist Agnes sem Íslenska óperan frumsýnir haustið 2024. mbl.is/Valgarður Gíslason

Við erum einnig að vinna að undirbúningi á næstu óperu hans, Agnesi, sem ráðgert er að frumsýna haustið 2024,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að á vinnusmiðju nýverið hafi þeim stóra áfanga verið náð að líbrettóið eftir Royce Vavrek var leiklesið í fyrsta sinn. „Við finnum fyrir miklum alþjóðlegum áhuga á Agnesi, sem okkur þykir vænt um enda tryggir alþjóðlegt samstarf verkum framhaldslíf erlendis, sem er afar mikilvægt,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að reynslan úr Brothers hafi undirstrikað nauðsyn þess að gera ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika í sviðsumgjörð sýninga þannig að hægt sé að stækka og minnka leikmyndina í takt við sýningarrýmið hverju sinni.

Sorgin sem felst í barnsmissi

„Stóra verkefni vorsins verður Madama Butterfly eftir Puccini sem frumsýnd verður í Eldborg 4. mars og sýnd allar helgar fram til 1. apríl. Hollenski leikstjórinn Michiel Dijkema mun bæði leikstýra og hanna leikmynd uppfærslunnar, María Th. Ólafsdóttir hannar búninga og Bjarni Frímann Bjarnason verður hljómsveitarstjóri. Hye-Youn Lee frá Suður-Kóreu syngur hlutverk Cio-Cio San, en íslenskir söngvarar verða í öllum öðrum hlutverkum. Lee er frábær söngkona sem sungið hefur þetta hlutverk í ýmsum óperuhúsum víða um heim,“ segir Steinunn Birna og tekur fram að hún hafi í sinni óperustjóratíð ávallt lagt áherslu á að stilla upp sterkum söngvarahópi sem innihaldi reynslumikla söngvara í bland við söngvara sem fái tækifæri til að þreyta frumraun sína hérlendis og alltaf reynt að hafa a.m.k. ein erlendan gestasöngvara. „Hrólfur Sæmundsson mun syngja hlutverk Sharpless og Arnheiður Eiríksdóttir hlutverk Suzuki auk þess sem Unnsteinn Árnason mun debútera hérlendis í hlutverki Keisaralega sendiboðans, sem hann syngur einmitt á Bregenz óperuhátíðinni í Austurríki í sumar.“

Hye-Youn Lee mun syngja aðalhlutverkið í uppfærslu Íslensku óperunnar á …
Hye-Youn Lee mun syngja aðalhlutverkið í uppfærslu Íslensku óperunnar á Madama Butterfly. Ljósmynd/hyeyounlee.com

Spurð hvers vegna Madama Butterfly hafi orðið fyrir valinu að þessu sinni segir Steinunn Birna að ástæða valsins sé mjög persónuleg, fyrir utan hvað tónlistin sé einstaklega falleg. „Enda er er Madama Butterfly það verk óperutónbókmenntanna sem er hvað oftast sviðsett. Ég hef verið að bíða eftir tækifærinu og einsetti mér þegar ég tók við starfi óperustjóra að setja það á svið,“ segir Steinunn Birna og rifjar því næst upp fjölskylduleyndarmál sem hafi haft djúpstæð áhrif á hana.

„Í fyrsta frönskutímanum mínum í menntaskóla settist ég hjá strák sem mér fannst kunnuglegur. Hann reyndist hafa brennandi áhuga á tónlist og komst að því að ég spilaði á píanó svo hann bauð mér heim í hádegishléi þar sem ég spilaði fyrir hann Chopin. Þegar ég lauk við verkið verður mér litið upp og sé þar ljósmynd af ömmu á veggnum og spurði hann hvað hann væri að gera með mynd af ömmu minni heima hjá sér og hann svarar því til að hún væri amma hans líka. Þá kom í ljós að amma mín hafði, þegar hún var mjög ung, átt barn með manni sem láðist að segja henni að hann væri giftur. Til að gera langa sögu stuttu þá gat hann ekki átt barn með eiginkonu sinni og vegna erfiðra aðstæðna varð amma að gefa frá sér son sinn til þessara hjóna sem ólu hann upp. Amma var látin skrifa undir samkomulag þess efnis að hún myndi aldrei sjá barnið. Þetta var ömmu mjög þungbær harmur og eitthvað sem ég komst að af því ég fann barnabarnið hennar fyrir tilviljun.

Amma var enn á lífi þegar ég fann frænda minn, en mér var ráðið frá því að deila vitneskju minni með henni þar sem talið var að það yrði henni of erfitt, en ég hef alltaf haft um það efasemdir því mögulega hefði hún orðið glöð að kynnast barnabarni sínu á gamals aldri og fá þannig tækifæri til að tengjast sýninum sem hún missti og fékk aldrei að sjá,“ segir Steinunn Birna og rifjar upp að sorg ömmunnar yfir barnsmissinum hafi litað allt hennar líf.

„Í Madama Butterfly verður það ljóst í lok óperunnar að Cio-Cio San neyðist til að afsala sér barni sínu í hendur föður þess og eiginkonu hans. Í raun deyja allir draumar hennar í einu vetvangi sem leiðir til þess að hún sér enga aðra leið færa en að taka eigið líf. Madama Butterfly er tímalaust verk í þeim skilningi að þó aðstæðurnar séu ólíkar eru mannlegu tilfinningarnar alltaf þær sömu; ástin er alltaf sú sama, missirinn og sorgin er alltaf sú sama sem og löngunin eftir betra lífi.“

Aukin meðvitun um sjálfbærni

Þess má að lokum geta að Íslenska óperan í samstarfi við Oper Leipzig var nýverið tilnefnd til Next Stage-viðurkenningarinnar fyrir verkefni sem snýr að sjálfbærni búninga í óperuhúsum. „Það eru allir mun meðvitaðri um mikilvægi sjálfbærni og vonandi mun það heyra til undantekninga í framtíðinni að leikmyndir og búningar í óperuuppfærslum séu aðeins notaðar einu sinni. Óperuhús eru í auknum mæli að skiptast á uppfærslum og framleiða sýningar saman, sem er frábært. Verkefnið „Sustainable Costumes“ snýr að því að finna leið til að skrásetja alla búninga og búa til hringrásarhagkerfi fyrir notkun búninga. Verði þetta verkefni að veruleika myndi það breyta nálgun og leggja mikið af mörkum til umhverfisverndar,“ segir Steinunn Birna og undirstrikar mikilvægi þess að Íslenska óperan taki þátt í alþjóðlega óperusamfélaginu.

„Þrátt fyrir smæð okkar höfum við ýmislegt fram að færa,“ segir Steinunn Birna og nefnir í framhaldinu að sér finnist full ástæða til að skoða möguleikann á því að Íslenska óperan skiptist á sýningum við önnur óperuhús í framtíðinni. „Þegar ég tók við starfinu einsetti ég mér að styrkja listrænu vísitöluna hjá Íslensku óperunni, koma sterkum stoðum undir reksturinn þannig að hann gæti verið í jafnvægi og jafnframt að koma okkur á alþjóðlega óperukortið. Það er mjög góð tilfinning að sjá að þessi markmið sem ég setti mér á sínum tíma hafi orðið að veruleika,“ segir Steinunn Birna.

Viðtalið við Steinunni Birnu birtist fyrst á menningarsíðum Morgunblaðsins laugardaginn 14. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Yrsa Sigurðardóttir
3
Liza Marklund
4
Mohlin & Nyström, Peter Nyström og Peter Mohlin

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Loksins virðist þér óhætt að fara af stað með mál, sem þú hefur lengi þurft að sitja á. Fólk tekur mikið mark á því sem þú segir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Yrsa Sigurðardóttir
3
Liza Marklund
4
Mohlin & Nyström, Peter Nyström og Peter Mohlin

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Loksins virðist þér óhætt að fara af stað með mál, sem þú hefur lengi þurft að sitja á. Fólk tekur mikið mark á því sem þú segir.