„Mikið bensín í ljóðagerðinni“

Haukur Ingvarsson hlýtur Maístjörnuna 2021 fyrir ljóðabókina Menn sem elska …
Haukur Ingvarsson hlýtur Maístjörnuna 2021 fyrir ljóðabókina Menn sem elska menn. mbl.is/Unnur Karen

„Þessi viðurkenning skiptir mig mjög miklu máli,“ segir Haukur Ingvarsson, sem í gær hlaut Maístjörnuna 2021, ljóðabókaverðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, fyrir bók sína Menn sem elska menn.

Haukur segist deila því með öðrum að finnast gott að fá klapp á bakið og hljóta hvatningarorð. Haukur hlýtur 350 þúsund krónur að launum og því liggur beint við að spyrja hvort hann sé búinn að ákveða í hvað hann ætli að nýta verðlaunaféð. „Ég vildi óska að ég gæti sagt að þeir peningar færu í eitthvað skemmtilegt en það er verið að skipta um glugga í húsinu sem ég bý í og hundraðþúsundkallarnir eru frekar fljótir að hverfa inn í þá hít,“ segir Haukur kíminn og rifjar upp að þegar hann, fyrir nokkrum árum, fékk styrk til að stunda doktorsnám við Háskóla Íslands, hafi hann boðið ungum sonum sínum tveimur með sér í dótabúð og leyft þeim að velja sér eitthvað skemmtilegt. „Ætli ég haldi því ekki upp á daginn með því að láta eitthvað eftir strákunum mínum,“ segir Haukur, en synir hans eru níu og ellefu ára gamlir.

Sterkt ljóðabókaár í fyrra

Auk bókarinnar Menn sem elska menn sem Mál og menning gefur út voru tilnefndar bækurnar Kona lítur við eftir Brynju Hjálmsdóttur, sem Una útgáfuhús gefur út; Klettur – Ljóð úr sprungum eftir Ólaf Svein Jóhannesson sem Bjartur gefur út; Laus blöð eftir Ragnar Helga Ólafsson sem Bjartur gefur út; Verði ljós, elskan eftir Soffíu Bjarnadóttur sem Angústúra gefur út og Tanntaka eftir Þórdísi Helgadóttur sem Mál og menning gefur út.
„Árið í fyrra var mjög sterkt ljóðabókaár og margar bækur sem hrifu mig. Mér þótti það því strax mikill heiður að bókin mín væri í hópi þeirra sex bóka sem tilnefndar voru til Maístjörnunnar í ár,“ segir Haukur og tekur undir með ónefndum bókmenntafræðingi þess efnis að helsti vaxtarbroddurinn í íslenskri útgáfu sé í ljóðabókum, sem skili sér inn í annan skáldskap. „Ég held að það sé oft mikið bensín í ljóðagerðinni sem drífur kerfið áfram, þótt ljóðabækur séu ekki þær söluhæstu,“ segir Haukur, en ítarlegar er rætt við hann á menningarsíðum Morgunblaðsins í blaðinu á morgun, fimmtudag. 

Einu verðlaunin fyrir ljóðabók

Gjaldgengar til Maístjörnunnar 2021 voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2021, sem skilað var í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefndina skipa Soffía Auður Birgisdóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Birgir Freyr Lúðvígsson fyrir hönd Landsbókasafnsins. „Maístjarnan er einu verðlaunin á Íslandi sem veitt eru fyrir útgefna ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi sem og mikilvægi þess að ljóðabókum sé skilað í skylduskil til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og varðveitist þannig sem hluti af menningararfi þjóðarinnar,“ eins og segir í tilkynningu. Þar kemur fram að Maístjarnan hafi verið veitt árlega síðan 2017 og að Kári Tulinius, skáld og rithöfundur, hafi átt frumkvæði að stofnun Maístjörnunnar.


Hvött til að kafa ómælisdjúpt

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir: „Í Menn sem elska menn yrkir Haukur Ingvarsson um þunga kroppa og sviflétta anda, um þyngdarkraft alheimsins, kærleikann, sem leggur bönd á efnin og heldur sólum á brautu. Með snjöllu myndmáli skyggnist skáldið um heim allan frá myrku dýpi sjávar til óravídda himingeimsins en hugleiðingar um fótspor á örþunnri skurn yfir djúpinu vekja grun um yfirborð sem getur brostið hvenær sem er. Í ljóðunum birtist þéttur vefur tilvísana til íslenskra bókmennta gegnum aldirnar, sem víkkar út merkingarsvið þeirra. Áleitnustu viðfangsefnin og markviss tákn bókarinnar varða ástina, vináttuna og karlmennskuna. Skáldið hvetur okkur til að kafa í ómælisdjúp orða og kennda og eiga stefnumót í anda. Menn sem elska menn er bók sem kallar á endurtekinn lestur og launar þeim sem sinna því kalli ríkulega.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson