Örlög Depp og Heard í höndum kviðdómara

Örlög þeirra Amber Heard og Johnny Depp eru í höndum …
Örlög þeirra Amber Heard og Johnny Depp eru í höndum kviðdómara. AFP

Lögmenn leikaranna Johnny Depp og Amber Heard munu flytja lokaávörp sín í meiðyrðamáli Depps gegn Heard í dag. Í dag er því síðasti dagur réttarhaldanna sem hófust hinn 11. apríl síðastliðinn.

Dómarinn, Penney Azcarate, mun að öllum líkindum afhenda kviðdómurunum, sem eru alls sjö manns, málið í dag og hefst þá yfirferð þeirra. Kviðdómarar fá frí yfir helgina og á mánudag vegna þess að það er almennur frídagur í Bandaríkjunum. Yfirferð þeirra hefst á ný á þriðjudag.

Óvíst er því hvenær dómur verður kveðinn upp í málinu. 

Saka hvort annað um ofbeldi

Depp höfðaði mál gegn Heard vegna greinar sem hún skrifaði í Washington Post árið 2018. Í henni steig hún fram sem þolandi heimilisofbeldis en nafngreindi Depp ekki. Hann hefur farið fram á 50 milljónir í skaðabætur og segir greinina hafa valdið því að hann missti fjölda hlutverka. Bæði segja þau málið hafa valdið skaða á kvikmyndaferli þeirra í Hollywood.

Tugir hafa borið vitni á meðan réttarhöldunum stendur og hafa þau Depp og Heard einnig borið vitni sjálf.

Amber Heard þegar hún bar vitni í gær.
Amber Heard þegar hún bar vitni í gær. AFP

Depp neitar ásökunum Heard og segist aldrei hafa lagt hendur á hana, né aðra konu á sinni lífsleið. Hann segir hana hafa beitt sig ofbeldi. 

Heard segir Depp hafa ítrekað beitt hana ofbeldi. Hún hafi aldrei veitt fyrsta höggið en viðurkennir að hafa slegið til baka undir lok hjónabandsins. 

Bæði segja þau sambandið hafa verið stormasamt og einkennst af eldfimum rifrildum og mörg vitni staðfestu það. Segir Depp að Heard hafi verið kveikjan að rifrildunum en hún segir hann alltaf hafa efnt til þeirra. 

Hún sagði hann ítrekað undir áhrifum áfengis- og fíkniefna en Depp hélt því fram að hann hefði stjórn á drykkju sinni og lyfjanotkun.

Það sem einkennt hefur réttarhöldin er að mikið er til af myndum, myndböndum og hljóðupptökum af hjónunum fyrrverandi.

Johnny Depp í dómshúsinu í gær.
Johnny Depp í dómshúsinu í gær. AFP

Bæði lögmenn Depps og lögmenn Heard hafa kallað til sálfræðinga til að meta ástand beggja. Sálfræðingur, sem lögmenn Depp réðu, greindi Heard með tvær persónuleikaraskanir. Sálfræðingur sem lögmenn Heard réðu, greindi hana hins vegar með áfallastreituröskun og sagði hana sýna einkenni manneskju sem hefur orðið fyrir miklu ofbeldi. 

Hallað á Heard á samfélagsmiðlum

Heard bar vitni í síðasta sinn í gær, fimmtudag, og Depp bar vitni í síðasta sinn á miðvikudag. Í lokaræðu sinni fyrir kviðdómarana á miðvikudag sagði Depp það hafa verið erfitt að sitja undir fölskum ásökunum fyrrverandi eiginkonu sinnar. 

Ásakanirnar væru ógeðslegar.

Heard sagði í vitnisburði sínum í gær að hún fengi morðhótanir daglega. „Ég er áreitt, niðurlægð og mér er hótað á hverjum einasta degi,“ sagði hún. Afleiðingarnar af því segir hún vera kvíðaköst og martraðir. 

Á samfélagsmiðlunum TikTok og Instagram hefur mál þeirra mikið verið til umfjöllunar, enda hafa réttarhöldin verið í beinni útsendingu undanfarnar sex vikur. Þar hefur hallað verulega á Heard þar sem hún er sögð lygasjúk. Hún sagðist vera skotmark aðdáenda Depps sem tjái sig fjálglega um málið á samfélagsmiðlum. 

Aðdáendur tóku á móti Depp fyrir utan dómshúsið í Fairfax …
Aðdáendur tóku á móti Depp fyrir utan dómshúsið í Fairfax í Virginíuríki í gær. AFP
mbl.is
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Eva Björg Ægisdóttir
2
Unni Lindell
3
Nita Prose

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú er rétti tíminn til þess að bera upp spurningu, sem hefur lengi verið að brjótast um í þér. Njóttu þess svo að daðra í kvöld - þú ert æsandi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Eva Björg Ægisdóttir
2
Unni Lindell
3
Nita Prose

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú er rétti tíminn til þess að bera upp spurningu, sem hefur lengi verið að brjótast um í þér. Njóttu þess svo að daðra í kvöld - þú ert æsandi.