Butler sakaður um kynferðisbrot

Win Butler á tónleikum á Íslandi árið 2018.
Win Butler á tónleikum á Íslandi árið 2018. mbl.is/Hari

Fjórar manneskjur hafa sakað Win Butler, forsprakka hljómsveitarinnar Arcade Fire, um kynferðisbrot. Hann hefur vísað þessu á bug.

Að sögn tónlistarsíðunnar Pitchfork voru manneskjurnar 18 til 23 ára þegar meintu kynferðisbrotin áttu sér stað á árunum 2015 til 2020. Þær óskuðu eftir því að koma fram undir dulnefni í umfjölluninni, þar sem þær saka Butler um „óviðeigandi“ hegðun.

Biðst velvirðingar

Í yfirlýsingu sinni sagði Butler: „Mér þykir mjög leitt ef ég hef sært einhvern með hegðun minni“. Bætti hann þó við að „samþykki var fyrir höndum í öllum þessum samböndum“.

Hann hélt áfram: „Ég klúðraði málum og þrátt fyrir að það sé engin afsökun þá mun ég halda áfram að horfa fram á veginn og bæta það sem hægt er að bæta og læra af fyrri reynslu.“

Régine Chassagne, eiginkona Butlers sem einnig er í Arcade Fire, sagði í eigin yfirlýsingu: „Ég veit að hann hefur aldrei og myndi aldrei snerta konu án hennar samþykki og ég er viss um  að hann gerði það aldrei.“

Óeðlileg hegðun 

Í einni frásögninni í frétt Pitchfork sagðist Lily, sem er kynsegin, hafa hitt Butler á tónleikum í borginni Montreal í byrjun árs 2015 og að Butler hafi snert hán í bíl án samþykkis. Einnig hafi hann kysst hán án samþykkis.

Lily sagði að er þau voru komin inn í íbúð gerðist það að Butler „ýtti mér upp við vegg og greip ákaft um líkama minni og stakk tungunni ofan í hálsinn á mér“. Þetta hafi ekki verið eðlileg hegðun miðað við aðstæður.

Spurður út í viðbrögð við þessu sagðist Butler ekki muna hver hafi byrjað en að samskiptin hafi verið með samþykki beggja.

Skilaboð í símann

Í annarri frásögn sagðist kona undir dulefninu Stella hafa átt samskipti við Butler þegar hún var aðeins 18 ára. Þá hafi hann byrjað ítrekað að senda henni kynferðisleg skilaboð án hennar samþykkis. Stella greindi fyrst frá þessu opinberlega í júlí 2020 þar sem hún kallaði hann „kynferðislegt rándýr“.  

Tvær konur til viðbótar undir dulefnunum Sarah og Fiona sögðu að Butler hafi byrjað að senda þeim skilaboð þegar þær voru 20 og 23 ára. Hann hafi beðið þær um að senda sér kynferðisleg myndbönd.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það þýðir ekkert að sitja með hendur í skauti og vorkenna sjálfum sér, þótt margt sé á döfinni. Dagurinn ætti að verða ánægjulegur.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það þýðir ekkert að sitja með hendur í skauti og vorkenna sjálfum sér, þótt margt sé á döfinni. Dagurinn ætti að verða ánægjulegur.