Enski tónlistarmaðurinn Ozzy Osbourne ætlar að flytja aftur til heimalandsins eftir að hafa búið í hinni sólríku Kaliforníu í Bandaríkjunum í mörg ár. Eiginkona hans, Sharon Osbourne, ætlar að flytja með honum og segja þau í viðtali við Guardian að flutningarnir hafi ekkert með heilsu hans að gera, heldur eru þau komin með nóg af skotárásum í Bandaríkjunum.
„Ég vissi að fólk myndi halda það. Það er ekki ástæðan. Það er bara kominn tími til. Bandaríkin hafa breyst svo mikið. Þetta eru ekki Bandaríkin lengur,“ sagði Sharon og bætti við að þetta væri skrítinn staður til að búa á um þessar mundir.
Hinn 73 ára gamli Ozzy greindist með parkinson-sjúkdóm árið 2020 og hefur verið heilsulítill á undanförnum árum.
„Það er allt fokking fáránlegt hérna. Ég er kominn með nóg af því að fólk sé myrt á hverjum degi. Guð veit hversu margar skotárásir hafa orðið í skólum þarna. Og skotárásin á tónleikunum í Vegas. Þetta er fokking klikkað,“ sagði Ozzy.
Yfir 440 skotárásir hafa orðið í Bandaríkjunum það sem af er ári. Skotárásin sem söngvarinn vísar til varð árið 2017 þegar 58 manns voru skotin til bana á Route 91 Harvest tónlistarhátíðinni. Aldrei hafa fleiri verið skotnir til bana í einni skotárás og í Las Vegas árið 2017.
„Og mig langar ekki til að deyja í Ameríku. Ég vil ekki vera grafinn í fokking Forest Lawn. Ég er enskur. ég vil koma aftur. En að því sögðu, ef eiginkonan mín myndi segja að við ættum að fara og búa í Timbúktú, þá myndi ég gera það,“ sagði Ozzy.