Hlaðvarpsþættirnir leiddu til sakfellingar

Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda um allan heim.
Þættirnir hafa notið mikilla vinsælda um allan heim. Ljósmynd/Australian

Vinsældir hlaðvarpsþáttanna The Teacher's Pet náðu nýjum hæðum í vikunni sem leið. Ástæðan er sú að loksins var sakfellt í mannshvarfsmálinu sem þættirnir fjalla um, en þættirnir eru frá 2018 og fjalla um hvarf konu árið 1982 í Sydney í Ástralíu. 

Blaðamaðurinn Hedley Thomas er höfundur þáttanna sem hann framleiddi fyrir Australian. Sönnunargögn sem Thomas gróf upp fyrir þættina, sem og vitni sem stigu fram í þáttunum og í kjölfar þáttanna, leiddu til þess að lögregla handtók karlmann á áttræðisaldri, Chris Dawson, nokkrum mánuðum eftir að hlaðvarpsþættirnir fóru í loftið.

Í síðustu viku var Dawson sakfelldur fyrir morðið á eiginkonu sinni, Lynette Dawson, sem hvarf sporlaust í Sydney 8. janúar árið 1982. Dawson hefur aldrei játað sök í málinu og hefur haldið því fram síðan 8. janúar 1982 að hún hafi yfirgefið hann og dætur þeirra tvær, Shanelle og Sherryn. Lík Lynette hefur aldrei fundist. 

Þættirnir þykja varpa ljósi á hversu illa lögreglan tók á mannshvörfum í Sydney á 9. áratugnum og þó enginn vilji segja beint út að um spillingu væri að ræða, þóttu tengsl hins grunaða við lögreglumenn á þeim tíma óeðlileg. 

Vakti athygli á málinu

Fjallað hafði verið um hvarf Lynette í fjölmiðlum, en þó ekki þannig að tekið væri eftir því almennilega. Það er ekki orðum ofaukið að segja að athygli á málinu sprakk út í kjölfar fyrstu þáttanna af Teacher's Pet og var fjallað um málið í öllum helstu fjölmiðlum í Ástralíu vorið og sumarið 2018. 

Þættirnir njóta nú heimsathygli, en gerðu það líka á sínum tíma. Segir Thomas frá því hvernig fólk hvaðanæva að úr heiminum hafi boðið fram fjárstyrki til að láta grafa upp garðinn við þáverandi heimili Dawson hjónanna.

Fjölskylda Lynette hafði svo gott sem gefist upp á að leiða mál hennar til lykta en bæði móðir hennar og faðir létust án þess að vita nokkuð hvað kom fyrir dóttur þeirra. Systkini hennar til viðtals í þáttunum og segja frá því hvernig þau hafi fundist þau hjálparlaus eftir að systir þeirra hvarf. 

Hafði áhrif á réttarhöldin

Á fyrsta árinu eftir að þættirnir komu út höfðu 28 milljónir halað þeim niður. Þeir voru teknir út af streymisveitum í Ástralíu og af vef Australian í apríl 2019 til að tryggja að réttarhöldin yfir Chris yrðu sanngjörn. Þættirnir er nú komnir aftur í loftið og eru meðal þeirra vinsælustu í heiminum.

Hlaðvarpsþættirnir og rannsókn Thomas hefur haft mikil áhrif á málið í heild sinni. Ekki bara fyrir þær sakir að almenningur fékk meiri áhuga á málinu heldur á rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómstólum. 

Lögmenn Chris hafa frá handtöku hans krafist þess að málið verði látið niður falla á þeim grundvelli að hann geti ekki fengið sanngjarna meðferð vegna hlaðvarpsins. Í þáttunum láti Thomas þá skoðun sína í ljós að Chris sé sekur og þar með hafi hann litað skoðanir almennings og dómara. 

Frá handtöku hans og þar til málið var tekið fyrir liðu þrjú og hálft ár, sem þykir nokkuð langur tími. Ástæðan er meðal annars sú að tekist var á um hvort kviðdómur ætti að dæma í málinu eða dómari. Þótti ástæða til að fara þá leið að einn hæstaréttardómari myndi dæma í málinu meðal annars vegna þess að ekki væri hægt að finna tólf manneskjur sem hefðu ekki myndað sér skoðun á málinu fyrir fram.

Thomas var vitni í málinu og fylgdist því ekki með þeim úr réttarsalnum fyrr en hann hafði borið vitni. Af þeim sökum leiddi hann heldur ekki umfjöllun Australian um réttarhöldin. 

Héldu við nemendur sína

Á sama tíma og Lynette hvarf hafði Chris verið í sambandi með nemanda sínum, Joanne Curtis. Hann var íþróttakennari í framhaldsskólanum Cromer High og var þekktur fyrir að halda við nemendur sína.

Þættirnir varpa ekki bara ljósi á störf lögreglu á 9. áratugnum heldur líka að samfélagslega samþykkt var í skólanum, sem og fleiri skólum í kring, að ungir karlkyns kennarar héldu við táningsstúlkur í skólunum.

Fjöldi kvenna stigið fram og greint frá því að kennarar þeirra hafi drukkið með þeim áfengi og misnotað þær kynferðislega þegar þær voru á aldrinum 15 til 18 ára. 

Sakfelldur fyrir morð en ekkert lík

Chris var handtekinn í desember árið 2018 og sat í gæsluvarðhaldi þar til hann var sakfelldur hinn 30. ágúst síðastliðinn, rúmum 40 árum eftir að Lynette hvarf. Mál hans var tekið fyrir af hæstarétti Nýju Suður-Wales og stóðu réttarhöldin yfir í tíu vikur, frá maí og fram í júlí. Chris bar aldrei vitni á þessum tíu vikum. 

Í gegnum réttarhöldin gaf Australian út þætti, The Teacher's Trial, þar sem blaðamenn tóku saman vikuna á hverjum föstudegi. Báðar þáttaraðir eru aðgengilegar á öllum helstu streymisveitum.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler