Leikkonan Sienna Miller segir að háttsettur og valdamikill framleiðandi á Broadway í New York hafi sagt henni að „fokka sér“ þegar hún bað um að fá jafn há laun og karlkyns mótleikari hennar.
Miller segir í viðtali við breska Vogue að upphaflega hafi henni verið boðin helmingi lægri laun en leikaranum fyrir hlutverk í leikriti sem átti að sýna í New York fyrir nokkrum árum.
„Ég sagði við framleiðandann, sem var mjög valdamikill, að þetta snerist ekki um peninga. Þetta snerist um jafnrétti og virðingu og ég bjóst við að hann myndi skilja hvað ég meinti. En hann gerði það svo sannarlega ekki. Hann sagði mér bara að fokka mér,“ sagði Miller.
Hún segir að atvikið hafi haft mikil áhrif á hana en eftir þetta áttaði hún sig á því að hún ætti allan rétt á því að krefjast sömu launa fyrir sömu vinnu og karlar.
Miller vildi ekki nafngreina framleiðandann og leiksýninguna. Hún segir að fyrst hafi hún skammast sín fyrir að krefjast þess að fá jafn há laun og liðið illa með sjálfa sig.
Hún hefur áður tjáð sig um launamun í Hollywood, en þegar hún lék í kvikmyndinni 21 Bridges tók mótleikari hennar, Chadwick Boseman, á sig launalækkun svo hægt væri að hækka laun hennar og jafna út muninn á milli þeirra. Hún sagði það hafa skipt hana öllu máli að hann hafi gert það og er honum ævinlega þakklát.