Fjöldi fólks lagði leið sína niður í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi til þess að sækja fyrsta dag tónlistarhátíðirnar Iceland Airwaves, sem haldin er um helgina.
27 listamenn stigu á stokk á sex tónleikastöðum; listasafni Reykjavíkur, Gamla bíói, Iðnó, Fríkirkjunni, Gauknum og Húrra. Hátíðin hefur ekki hefur verið haldin síðan 2019 og má því áætla að margan tónlistarunnandann hafi þyrst í tónlist, íslenska sem og erlenda.
Raðir víða báru þess merki en uppselt var á hátíðina. Formleg dagskrá hátíðarinnar hófst klukkan 19:30 í Fríkkirkjunni í Reykjavík með tónleikum Magnúsar Jóhans, píanista og tónskálds.
Ekki leið á löngu þar til ungstirnið Gugusar steig á stokk á listasafni Reykjavíkur og hóf formlega dagskrá á stærsta sviði hátíðarinnar. Á hinum þremur tónleikastöðum hátíðarinnar: Gauknum, Húrra!, og Iðnó var fjölbreytt dagskrá þar sem oft á tíðum var röð út úr dyrum.
Færri komust að en vildu þegar hinn færeyski poppari Janus Rasmussen kom fram á Gauknum stuttu fyrir klukkan 21. Troðið var á Húrra stuttu áður en sveitin Supersport! steig á svið og meðan tónskáldið Atli Örvarsson lék listir sínar í Fríkirkjunni, og síðar hin heimsfræga jazz/poppstjarna Laufey, var fólk farið að sitja á kirkjugólfinu.
Þá var smekkfullt í Gamla Bíói meðan tónskáldið og söngkonan Jófríður Ákadóttir JFDR lék á gítar og söng ásamt bandi og strengjakvartett.
Þrátt fyrir að formleg dagskrá Airwaves hafi aðeins verið á sex tónleikastöðum hafa víða verið óformlegir tónleikar (e. Off-venue) líkt og síðastliðin ár. Eitt slíkt mátti finna á Sæta svíninu í heldur fyrra laginu áður en formleg dagskrá hófst, klukkan 17.
Á tónleikum Sæta svínsins náði röðin vel að Ingólfstorgi þegar mest lét, en þar komui fram þau Jói Pé, áðurnefnd Gugusar, Emmsjé Gauti og rapparinn Birnir.