„Það er allra heilagra messa á sunnudaginn [á morgun]. Þá minnumst við látinna og okkur fannst tilvalið að gera það með samverustund og tónleikahaldi undir yfirskriftinni Sorgin og lífið,“ segir Kirstín Erna Blöndal tónlistarkona en hún mun ásamt Gunnari Gunnarssyni organista efna til tónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík kl. 14 og í Fríkirkjunni í Hafnarfirði kl. 20.
Erna, eins og hún er jafnan kölluð, hefur um nokkurra ára skeið aðstoðað syrgjendur við lagaval í útförum. „Ég var í Mótettukórnum og Schola cantorum og fannst alltaf eins og styðja þyrfti betur við bakið á syrgjendum hvað þetta varðar. Við kveðjum sem betur fer ekki fólkið okkar á hverjum degi og ekki endilega sjálfgefið að syrgjendur átti sig á því hvað má og hvað ekki. Þess vegna getur verið gott að hafa aðgang að fagfólki sem leiðbeinir,“ segir hún.
Sjálf starfar hún við Fríkirkjuna í Hafnarfirði og segir vel stutt við bakið á sér þar varðandi hugmyndir sínar um tónlist og sálgæslu. Þá hefur hún gegnum tíðina unnið mikið með téðum Gunnari Gunnarssyni organista við Fríkirkjuna í Reykjavík. Fyrir nokkrum árum gaf hún út geislaplötu sem nefnist Faðmur „sorgin og lífið“ og er tileinkuð syrgjendum.
Erna leggur einnig stund á alþjóðlegt meistaranám við Listaháskóla Íslands á sviði sköpunar, miðlunar og frumkvöðlastarfs, þar sem hún rannsakar þátt tónlistar í sorgarúrvinnslu. Hún segir hugmyndina að tengja tónlistina betur út í samfélagið og skoða hana betur í sambandi við sálgæslu. „Ég velti því meðal annars fyrir mér hvort tónlist skipti máli við útfarir og hvort gott sé fyrir nánustu aðstandendur hins látna að taka þátt í undirbúningi og tónlistarvali. Hér er auðvitað um viðkvæmt mál að ræða enda stendur tónlistin ósjaldan upp úr við slíkar athafnir. Þetta snýst um það hvernig við viljum kveðja ástvin okkar,“ segir Erna sem var ekki nema 24 ára þegar hún kvaddi föður sinn og 32 ára þegar hún kvaddi móður sína. Það varð til þess að hún fór að velta þessum málum betur fyrir sér.
Nánar er rætt við Ernu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.