Myndskeið: Bytturnar þrjár komnar í jólaskap

„Það er skemmtilegt að pæla í þessum jólabjórum og ýmsum stílum sem þeir eru gerðir í. Fólk sem horfir getur fljótt myndað sér skoðun á hvað höfðar til þess og hvað það hreinlega muni aldrei vilja smakka,“ segir Hreimur Örn Heimisson, tónlistarmaður með meiru.

Hreimur hefur síðustu ár tekið að sýna á sér nýja hlið sem mikill bjóráhugamaður og hefur ásamt félögum sínum smám saman verið að færa þetta áhugamál upp á nýtt stig. Hann er hluti af þríeykinu Bytturnar þrjár ásamt Ragnari Frey Rúnarssyni, lækni, bruggara og bjórsérfræðingi, og Ólafi Darra Ólafssyni leikara. Þeir félagar eru nágrannar í Norðlingaholti og hafa síðustu ár tekið upp myndbönd af jólabjórasmakki sínu og heimsóknum í brugghús. Nýjasti þátturinn er kominn úr framleiðslu og að þessu sinni heimsækja þeir félagar Borg brugghús. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Ólafur Darri Ólafsson og Ragnar Freyr Ingvarsson.
Ólafur Darri Ólafsson og Ragnar Freyr Ingvarsson.

„Við byrjuðum á þessu bjórsmakki í Covid, ég og Freysi. Við bjuggum allir á þeim tíma í sama hringnum og erum miklir vinir. Ólafur Darri sá út um gluggann sinn að við Freysi vorum að smakka bjór og slóst með í hópinn. Svo hefur enn bæst í félagsskapinn, sjálfur Læknirinn í eldhúsinu. Þetta er reyndar nokkuð flókið því þeir heita báðir Ragnar Freyr og eru báðir læknar og miklir sælkerar. Svo eru eiginkonur þeirra beggja sálfræðingar,“ segir Hreimur og skellir upp úr. 

Ekki er töluð vitleysan í þessum hóp. Annar Ragnarinn er einn þekktasti matarbloggari landsins og hinn er mikill bjórsérfræðingur, var til að mynda bjórstjóri á Skúla Craft Bar í árdaga hans, og hefur haldið úti síðunni Bjór og matur síðustu ár. „Ragnar Freyr kemur með skemmtilega punkta, sérstaklega varðandi matarpörun og Freysi er alger brugg sérfræðingur. Við Ólafur Darri erum leikmenn á plani og reynum að vera gáfulegir með þeim,“ segir Hreimur. 

Nýjasti þátturinn er eins og áður segir tekinn upp hjá Borg brugghúsi. „Þar var okkur boðið í jólasmakk. Við tókum hring á þessum bjórum og reynum að gefa hinum venjulega leikmanni innsýn í úrvalið og hvaða bjórar passa með hvaða mat. Þetta getur verið mjög áhugavert til að mynda fyrir þá sem hafa ekki þorað að smakka suma bjórana, við förum yfir það hvað er IPA, hvað er Pale Ale, hvað er súrbjór og svo framvegis í þessari flóru. 

Við fundum til dæmis úr að það er hægt að drekka bjór með ris a la mand eftirréttinum. Það er súrbjórinn Skyrjarmur sem gerður er úr bláberjum, það liggur við að þú gætir hellt honum út á grautinn.“

Ragnar Freyr Rúnarsson og Hreimur Örn Heimisson.
Ragnar Freyr Rúnarsson og Hreimur Örn Heimisson.

Hreimur segir að áhugi sinn á bjór hafi vaxið mikið síðustu ár. Hann hafi raunar alla tíð að mestu haldið sig við bjór en eftir því sem árin færðust yfir hafi hann orðið spenntari fyrir að prófa sig áfram með hina ýmsu stíla bjórgerðarinnar. „Þetta gerðist bara hægt og rólega og allt í einu er maður orðinn hálfgerður sérfræðingur. Ég gæti ekki bruggað bjór til að bjarga lífi mínu en hins vegar get ég sagt þér allt um bjórstílana, tegundirnar og muninn á þeim. Nú er þetta orðið alvöru áhugamál og maður horfir til þess þegar maður ferðast,“ segir Hreimur. 

Hann segir að endingu að við Íslendingar búum við mikil forréttindi því hér á landi hafi sprottið upp fjöldi forvitnilegra brugghúsa sem vert sé að gefa gaum. „Þó við séum bara að fjalla um Borg í þessum þætti er það síður en svo eina brugghúsið með forvitnilega bjóra. Ég hvet fólk til að hlaupa út og kaupa íslenska framleiðslu. Brugghúsin okkar eru orðin svo góð og hafa í raun unnið þrekvirki á undanförnum árum.“

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Oft leitum við sannleikans langt yfir skammt. Farið ykkur hægt og rólega því tækifærin hlaupa ekkert frá ykkur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Skúli Sigurðsson
2
Stefan Mani
3
Laila Brenden
5
Anna Sundbeck Klav

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Oft leitum við sannleikans langt yfir skammt. Farið ykkur hægt og rólega því tækifærin hlaupa ekkert frá ykkur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Skúli Sigurðsson
2
Stefan Mani
3
Laila Brenden
5
Anna Sundbeck Klav