„En þetta , með afa minn, það er komið nóg af því,“ segir Auður Jónsdóttir rithöfundur í færslu á Facebook og vísar til þess að hún hefur verið borin saman við afa sinn, Halldór Laxness, allan sinn 25 ára feril.
Í færslunni fer hún yfir ritstörf sín og nefnir að eftir að fyrsta bók hennar, Stjórnlaus lukka, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fékk hún strax að heyra að það væri út af látnum afa hennar.
Þá nefnir hún að fyrir þessi jól hafi hún ritstýrt bókablaði Stundarinnar. Hún fékk Kamillu Einarsdóttur til að skrifa tvo pistla í blaðið.
„Nýr höfundur, sem hafði þá ekki ennþá fengið dóm, sem þó var þá þegar í vinnslu, gagnrýndi mig þá fyrir að ritstýra forréttindablaði, þar sem ég væri barnabarn afa míns. Auk þess væri Kamilla, dóttir Einars Kárasonar, væri að skrifa í það, en við værum kúltúrbörn, forréttindabörn,“ segir Auður og bætir við:
„En í þessu bloggi, og í útvarpsviðtali í Lestinni, þar sem ég mætti Eiríki Erni, útmálaði hann okkur Kamillu sem einhvers konar Bjarna Ben bókamenningarinnar, eins og eina ástæðan fyrir skrifum okkar væri ætterni okkar. Skyndilega sat ég, kona sem verður fimmtug á næsta ár, að svara andmóð fyrir hvernig ég fékk fyrsta útgáfusamninginn minn fyrir fjórðungi úr öld síðan.“
Auður segir gagnrýnendur telja að hún þykist vera afi sinn.
„Að skrifa af því hún er svo upptekin af honum. Að nýta sér ætternið til að svindla á öðrum,“ segir hún og bætir við að hún reyni yfirleitt að sleppa að tala um Laxness er hún er á bókmenntahátíðum.
„Ég hef upplifað allskonar umræður og gagnrýni á 25 ára ferli. En þetta, með afa minn, það er komið nóg af því. Og það að hafa lesið í fjórum fjölmiðlum fyrir jól að ég hafi haft umsjón með forréttindablaði út af ætterni mínu jaðrar við að vera ærumeiðingar.“