Jeremy Clarkson hefur sagt að hann hafi beðið Harry og Meghan afsökunar vegna pistils síns í dagblaðinu The Sun þar sem hann sagðist „hata“ hertogaynjuna af Sussex.
Í yfirlýsingu í dag sagði sjónvarpsmaðurinn að hann hefði sent parinu tölvupóst á jóladag til að segja að málflutningur hans í dálkinum hefði verið „smánarlegur“ og honum þætti þetta „mjög leitt“.
Harry prins lýsti pistlinum sem „hryllilegum, særandi og grimmum“.
Clarkson hafði sent frá sér yfirlýsingu fyrir jól þar sem hann sagðist „í öngum sínum yfir að hafa valdið svo miklum skaða“. Dagblaðið The Sun hefur einnig beðist afsökunar á greininni í desember og fjarlægði hana af vefsíðu sinni.
Í pistlinum skrifaði Clarkson að hann hafi legið í rúminu og „dreymt um þann dag þegar hún [Meghan] er látin skríða nakin um götur allra bæja í Bretlandi á meðan mannfjöldinn kyrjar „Skammastu þín!“ og kastaði saur á hana“.
Hann fullyrti einnig að „allir sem eru á mínum aldri hugsi eins“, og að hún höfðaði til ungs fólks sem „hélt að hún væri fangi Buckingham-hallar“ hafi gert hann „örvæntingarfullan“.
Metfjöldi 25 þúsunda kvartana bárust eftir að pistillinn var birtur.
Í langri Instagram-færslu sinni í dag sagði Clarkson að hann læsi yfirleitt yfir það sem hann skrifaði áður en hann sendi það inn en hann hefði verið einn heima þennan dag og verið að flýta sér.
„Svo þegar ég var búinn þá ýtti ég bara á “senda”. Og svo þegar pistillinn birtist daginn eftir þá sprakk allt í loft upp.“
Hann sagðist hafa tekið upp eintak af The Sun og áttaði sig fljótt á því að hann hefði „gjörsamlega klúðrað þessu“.
„Ég var sveittur og kaldur á sama tíma. Og höfuðið á mér var að springa. Og mér var óglatt. Ég trúði ekki því sem ég var að lesa. Hafði ég virkilega sagt þetta? Þetta var hræðilegt.“
Hann sagðist hafa verið að hugsa um atriði í Game of Thrones þegar hann skrifaði um að ímynda sér hertogaynjuna skríðandi nakta eftir götunum, en hafði gleymt að minnast á það.
„Þannig að þetta leit út eins og ég væri í raun að kalla eftir að Meghan yrði fyrir ógeðfelldu ofbeldi.“
Í nýlegu viðtali við ITV gagnrýndi Harry prins Clarkson sem og konungsfjölskylduna harðlega fyrir að hafa ekki tjáð sig ekki um málið.
Í yfirlýsingu sinni bætti Clarkson við að hann hefði „reynt að útskýra“ sjálfan sig. „ En samt var kallað eftir því að ég yrði ákærður fyrir hatursglæp. Yfir 60 þingmenn kröfðust þess að gripið yrði til aðgerða. Sjónvarpsstöðin ITV var brjáluð.“
Það var þá sem hann „skrifaði öllum sem vinna með mér og sagði hvað mér þætti þetta leitt. Á jóladagsmorgun sendi ég Harry og Meghan í Kaliforníu tölvupóst til að biðja þau afsökunar líka. Ég sagðist vera agndofa yfir því sem þau hefðu verið að segja í sjónvarpinu en orðbragðið sem ég hefði notað í dálkinum væri svívirðilegt og mér þætti það mjög leitt.“
Hann viðurkenndi einnig að Emily, dóttir hans, hefði verið meðal gagnrýnenda hans.
Variety greinir frá því að Amazon Prime „sé líklegt til að hætta samvinnu við Clarkson“ eftir 2024 þegar samningar um þætti hans renna út. Amazon vildi ekki tjá sig um málið.
Í síðasta mánuði lýsti fjölmiðla-og skemmtanastjóri ITV sjónvarpsstöðvarinnar, Kevin Lygo, dálki Clarksons sem „hræðilegum“ en sagði að engin plön væru „í augnablikinu“ um að skipta honum út sem gestgjafa leikjaþáttarins Who Wants To Be A Millionaire?
Talið er að ITV eigi eftir að taka upp eina seríu í viðbót með Clarkson en ekki sé neitt víst með framhaldið.