Volaða land vinsæl í Frakklandi

Elliott Crosset Hove og Hilmar Guðjónsson í Volaða landi.
Elliott Crosset Hove og Hilmar Guðjónsson í Volaða landi.

Yfir 110 þúsund manns séð kvikmyndina Volaða Land í Frakklandi, þriðju kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd. Hefur myndin einnig hlotið lofsamlega dóma þar í landi og í fyrra hlaut hún fimm stjörnur af fimm mögulegum hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins en myndin var sýnd einu sinni í Bíó Paradís vegna tilnefninga til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Almennar sýningar hefjast á henni hér á landi 10. mars. 

Volaða land hefur einnig hlotið fjölda verðlauna víða um lönd frá því hún var frumsýnd í Cannes í fyrra. Sýningar á henni í Frakklandi hófust 21.desember í 200 kvikmyndahúsum víða um landið og hafa franskir gagnrýnendur verið jákvæðir, að því er fram kemur í tilkynningu frá framleiðanda, og sagt myndina „einstaka upplifun, harkalega og hrífandi, heillandi og truflandi“. Gagnrýnandi dagblaðsins Le Monde sagði myndina vera opinberun og í Libération var hún sögð stórbrotinn óður til kvikmyndalistarinnar. á vef Télerama er hún sögð „hrífandi epísk frásögn og sjónrænt undur“.

Volaða land hefur verið seld til dreifingar í yfir 40 löndum og svæðum en auk Frakklands  hefur hún meðal annars verið seld til Bretlands, Spánar, Benelux-landanna, Norðurlanda, Ítalíu, Póllands, Grikklands, Tékklands, Slóvakíu, S-Kóreu, Tyrklands, Úkraínu, og Bandaríkjanna.

Í Bandaríkjunum hafa gagnrýnendur einnig verið á jákvæðum nótum og má í samantekt vefjarins Rotten Tomatoes, sem tekur saman fjölda dóma hinna ýmsu gagnrýnenda, er vísað í 30 dóma og myndin með einkunnina 90% fersk, sem er afar gott. 

Sem fyrr segir hefjast sýningar á Volaða landi hér á landi 10. mars og verður myndin sýnd í  Smárabíói, Sambíói Álfabakka, Laugarásbíói, Háskólabíói og Bíó Paradís.

Volaða landi er í tilkynningu lýst sem stórbrotinni sögu af baráttu manns við náttúruna, trúna og sitt dýrslega eðli. „Undir lok 19. aldar ferðast ungur danskur prestur til Íslands í þeim tilgangi að reisa kirkju og ljósmynda íbúa eyjunnar. Sérvitur leiðsögumaður leiðir prestinn í gegnum harðneskjulegt landið á hestbaki ásamt hópi heimamanna,“ segir þar. Eftir því sem líður á ferðalagið missir presturinn tökin á veruleikanum, ætlunarverkinu og eigin siðgæði.

Með aðalhlutverk fara Elliott Crosset Hove og Ingvar E. Sigurðsson og í stærstu aukahlutverkum eru Hilmar Guðjónsson, Jacob Hauberg Lohmann, Vic Carmen Sonne og Ída Mekkín Hlynsdóttir. Hlynur Pálmason leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni. Anton Máni Svansson framleiddi fyrir Join Motion Pictures, í samstarfi við Katrin Pors, Mikkel Jersin og Eva Jakobsen fyrir Snowglobe í Danmörku, og meðframleiðendur í Svíþjóð og Frakklandi. New Europe Film Sales sér um dreifingu myndarinnar á alþjóðavísu og Sena dreifir myndinni á Ísland

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant