Setur upp söngleik með ungmennum

Agnes Wild segir leikurum til á æfingu fyrir söngleikinn Ó …
Agnes Wild segir leikurum til á æfingu fyrir söngleikinn Ó Ásthildur, sem frumsýndur verður í Gamla Bíó í kvöld. Ljósmynd/Fúría

„Leikhúsið á alltaf allt hjarta mitt. Mér finnst alltaf gaman að geta farið og leikstýrt og unnið það með sjónvarpinu,“ segir Agnes Wild.

Agnes Wild er menntuð leikkona frá East 15 acting school í London en í því námi byrjaði hún að leikstýra. Eftir námið kom hún heim og stofnaði leikhópinn Miðnætti ásamt Evu Björg og Sigrúnu Harðardætrum, þar sem hún hefur leikstýrt öllum sýningum.

Hún leikstýrði Tjaldinu í Borgarleikhúsinu en Tjaldið fékk frábærar viðtökur og Agnes hlaut tilnefningu sem leikstjóri ársins á Grímuverðlaununum í fyrra.

Sýningin Tjaldið fékk frábærar viðtökur og Agnes hlaut tilnefningu sem …
Sýningin Tjaldið fékk frábærar viðtökur og Agnes hlaut tilnefningu sem leikstjóri ársins á Grímuverðlaununum í fyrra. Ljósmynd/Miðnætti

„Það er þar sem áhugi minn brennur“

Agnes hefur fært sig meira inn í sjónvarp undanfarið en hún er bæði verkefnisstjóri yfir KrakkaRÚV og leikstýrir Stundinni okkar.

Hún hefur alltaf unnið mikið með og fyrir börn og ungmenni og hafa karakterarnir Þorri og Þura til dæmis fylgt henni síðan hún var 17 ára gömul.

„Þau hafa heimsótt marga leikskóla út um allt land, hafa skemmt á hátíðum, gefið út plötur og bækur. Það er þar sem áhugi minn brennur. Ég hef skapað mikið fyrir börn, bæði barnaefni, bækur og menningarefni fyrir krakka en svo finnst mér ótrúlega gaman að vinna með menntaskólaaldrinum líka, sérstaklega í þessum skapandi heimi,“ segir hún.

Söngleikurinn Ó Ásthildur er sjötta verkið sem Agnes leikstýrir fyrir …
Söngleikurinn Ó Ásthildur er sjötta verkið sem Agnes leikstýrir fyrir menntaskóla. Ljósmynd/Guðmundur Thor

Fallegt þegar fólk finnur sig í gegnum leikhúsið

Agnes leikstýrir söngleiknum Ó Ásthildur í uppfærslu Leikfélagsins Fúríu í Kvennaskólanum í Reykjavík. Verkið var fyrst sett upp á sjöunda áratugnum á Broadway en er nú sett upp í Gamla Bíó og var frumsýnt í vikunni.

„Þetta er svo þakklátt og er auðvitað ógeðslega erfitt fyrir krakkana sem eru búnir að vera hér sólarhringum saman langt fram á kvöld. Þau eru að leggja allt í þetta og eru bara að reka fyrirtæki og díla með peninga. Þau eru að ráða mig í vinnu sem fullorðin einstakling.

Það er ótrúlega mikill lærdómur sem á sér stað í þessum menntaskólaleikfélögum. Svo er þetta bara æðislegur hópur og svo mikil vinátta og allir eru til í þetta saman. Þau eru á geggjuðum aldri og eru svo mikið að finna sjálfan sig og það er fallegt að gera það í gegnum leikhúsið.“

Sjötta menntaskólasýningin

Agnes leikstýrir menntaskólasýningu í sjötta sinn í ár en þetta er þriðja verkið sem hún setur upp með Kvennaskólanum. Þá hefur hún tvisvar leikstýrt verki fyrir Menntaskólann við Sund og einu sinni fyrir Borgarholtsskóla.

„Það var ætlunin að setja upp þennan söngleik í fyrra hjá Kvennó en það var ákveðið að fresta vegna Covid og alls konar samkomutakmarkana en einnig því okkur langaði að gera þetta svo ótrúlega vel og langaði ekki að vera í stressi yfir því að eiga á hættu að þurfa að fresta eða eitthvað slíkt.

Þannig ákváðum við að geyma þetta og gera þetta miklu betur og alla leið ári síðar. Við vorum búin að vera með prufur og það var búið að „casta“ í verkið og það eru margir í hópnum  í dag sem komust inn í fyrra líka.“

Þeirra eina tækifæri

Agnes segir áhugavert að hugsa til þess að vegna Covid sé heill hópur og heil kynslóð af krökkum og unglingum sem fengu ekki að taka þátt í menntaskólauppsetningum.

„Ég er að tala um krakka sem jafnvel skráðu sig í skóla eins og Kvennó af því þau ætluðu að vera með í stórum söngleikjum sem tíðkast hefur að settir hafi verið upp hérna. Það átti að setja upp Frozen 2020 en því var aflýst vegna Covid og í fyrra átti að setja upp þetta verk.

Þannig að þeir þriðja árs krakkar sem eru núna í verkinu hjá mér hafa í raun aldrei getað verið í leiksýningu í skóla. Þannig að þetta er þeirra eina tækifæri. Þetta er mjög athyglisvert.

Nú eru þessar stóru sýningar að fara af stað á ný. Það voru einhverjir skólar sem fóru af stað í fyrra og voru þá að glíma við að sýna undir lok mars og í apríl í fyrra. Jafnvel þurfti að fresta þar sem kannski einhver í hópnum var með Covid eða annað svo það var ekki einfalt.

Þetta er fyrsta árið í ár síðan 2020 sem allir skólarnir eru með „ful blown“ risasöngleiki. Mér finnst það svo merkilegt. Að það séu krakkar sem hafa bara aldrei tekið þátt í svona uppsetningum.

Þurfti að rífa allt aftur í gang

Agnes segir áhugann í skólanum óneitanlega hafa dottið aðeins niður í þessum frestunum öllum.

„Það þurfti að rífa allt aftur í gang sem hefur alveg tekist en þau eru á milli 50 og 60 sem taka þátt í sýningunni að einhverju leyti.“

Ó Ásthildur er söngleikur sem frumsýndur var á Broadway árið 1966 og heitir upprunalega Sweet Charity.

„Þetta er mjög gamaldags söngleikur sem aldrei hefur verið settur upp á Íslandi. Hann fjallar um Ásthildi, sem vinnur sem búlludansari og er svona fylgdarmær. Hún þráir ekkert heitar en að finna ást í lífinu en er búinn að vera svo ótrúlega óheppin og kynnist mönnum sem eru ekki sérlega góðir við hana.

Svo gerist það að hún festist í lyftu með manni sem hún kynnist og hún verður ástfangin. Við fáum að fylgjast með þeirri ást í gegnum leikritið en svo komumst við að því að þó hann sé góð manneskja þá er hann ekkert endilega frábær eða hentugur eiginmaður fyrir Ásthildi. Hún kemur betri út úr þessu í rauninni og gefur okkur von að það sé líf fyrir Ásthildi.“

Ljósmynd/Guðmundur Thor

Margir mismunandi endar

Agnes segir eitt það merkilegasta við þennan söngleik að það eru til fimm eða sex mismunandi endar á honum.

„Upprunalegi endirinn er skrifaður 1960 og þar er hún aumkunarverð og stendur ekki með sjálfri sér og er sá endir ekki neitt rosalega feminískur.

Kvikmyndin sem kemur út 1969 endar á annan hátt og svo kom út annar endir á henni af því að leikstjórinn var ekki ánægður með fyrri endinn.

Svo erum við að notast við endi sem var frumsýndur 2010 á Broadway en þar er komið nýtt svona „female power“ og hann skilur okkur áhorfendur eftir í svona von og við hugsum bara: „Ok frábært, hún stendur með sjálfri sér og hún þarf ekki mann til þess að komast af í lífinu.“

Mér fannst það svo falleg skilaboð inn í þann heim sem við búum í í dag. Að gefa stelpum rödd og „power“ í lokin. Að þær þurfa ekki að finna einhvern mann til að bjarga sér, þær bara bjarga sér sjálfar.“

Ekki þessi popplög sem við könnumst við

Agnes segir um erfiðan söngleik að ræða með færri og öðruvísi lögum í erfiðari stíl.

„Þetta eru ekki þessi popplög sem við könnumst við. Ég er samt búin að bæta við nokkrum svona þekktum lögum af þessum tíðaranda eins og Fly Me to the Moon sem er ekki í upprunalega verkinu en við settum inn í þetta verk. Þannig að við erum að nota alls konar tilvísanir í þennan tíma og erum að nota svipaðan dansstíl og Bob Fosse er með sem var leikstjóri upprunalega söngleiksins.

Settir voru upp sjö sýningardagar en síðasta sýning er áætluð 21. mars næstkomandi. Miðasala er á kvenno.is

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson